Fréttir

13.9.2014

Vel heppnaður 80 ára afmælisfagnaður Rótarýklúbbs Reykjavíkur í Gyllta sal Hótel Borgar

Laugardagskvöldið 13. september 2014 var efnt til afmælisfagnaðar Rótarýklúbbs Reykjavíkur í Gyllta sal Hótel Borgar við Austurvöll, í tilefni þess að 80 ár eru liðin frá stofnun klúbbsins. Blásið var til hátíðarinnar kl 18:45 og til skemmtunar skoðað myndefni frá upphafsárum klúbbsins og frá síðari árum. Hátíðin var fjölsótt og tóku um 60 manns þátt í kvöldverði og formlegri hátíðardagskrá, sem forseti klúbbsins Jóhann Sigurjónsson stýrði.

Laugardagskvöldið 13. september 2014 var efnt til afmælisfagnaðar Rótarýklúbbs Reykjavíkur í Gyllta sal Hótel Borgar við Austurvöll, í tilefni þess að 80 ár eru liðin frá stofnun klúbbsins. Blásið var til hátíðarinnar kl 18:45 og til skemmtunar skoðað myndefni frá upphafsárum klúbbsins og frá síðari árum. Hátíðin var fjölsótt og tóku um 60 manns þátt í kvöldverði og formlegri hátíðardagskrá, sem forseti klúbbsins Jóhann Sigurjónsson stýrði. Stjórn klúbbsins auk Jóhanns, þau Ágústa Guðmundsdóttir, Friðrik Már Baldursson, Sveinbjörn Egill Björnsson og Salvör Nordal stóðu að undibúningi hátíðarinnar.

Eftir setningu hátíðarinnar þar sem forseti klúbbsins m.a. velti fyrir sér hlutverki Rótarýhreyfingarinnar fyrr og nú, ávarpaði Björn B. Jónsson, samkomuna, en hann var umdæmisstjóri á síðasta starfsári og kom til hátíðarinnar í forföllum Guðbjargar Alfreðsdóttur umdæmisstjóra. Björn færði Rótarýklúbbnum árnaðaróskir hreyfingarinnar og kveðjur umdæmisstjóra og gat þess sérstaklega hve sterkur stofn Rótarýklúbbur Reykjavíkur hefði verið og væri enn hreyfingunni í landinu. Hann færði klúbbnum árnaðaróskir og staðfestingu þess að íslenska umdæmið léti af hendi rakna sérstakt framlag til Alþjóðlega Rótarýsjóðsins í nafni Rótarýklúbbsins og af tilefni afmælisins. Þá færði hann forseta fyrir hönd klúbbsins, stálpaða ameríska silfurreynisplöntu, sem hann bað að yrði plantað í tilefni afmælisins, enda klúbburinn verið vaxtarbroddur starfsins allt frá upphafi. Þá tók aðal ræðumaður kvöldsins prófessor Sigurður Guðmundsson, félagi í klúbbnum og forseti starfsárið 2005-2006 til máls. Sigurður sagði frá stofnun klúbbsins árið 1934, þungavigt hans í samfélaginu um langt skeið og skemmtilegheitum í sögu hans. Hann minnti gesti á mikilvægi þess að mæta nútímanum, en daga ekki uppi í fortíðarhyggju.

Í upphafi kvölds færði Sigurður Flosason, saxfónleikari, gestum ljúfa tóna þjóðlegrar tóntistar með erlendu ívafi. Að loknum ræðum fluttu Sigurður Flosason og Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú, gestum “Summertime”, “Sjá dagar koma”, " Síðasti dansinn" og svo lag Jónasar Ingimundarsonar, sem heitir "Vor". Að því loknu tilkynnti forseti kjör Jónasar sem nýs heiðursfélaga Rótarýklúbbs Reykjavíkur og var honum fagnað mjög af viðstöddum. Að loknum fjöldasöng undir forystu Diddúar og undirleik Sigurðar lauk þessum vel heppnaða hátíðarkvöldverði í tilefni 80 ára afmælis Rótarýklúbbs Reykjavíkur.