Jónas Ingimundarson valinn nýr heiðursfélagi Rótarýklúbbs Reykjavíkur á 80 ára afmælishátíð klúbbsins
13.9. 2014
Á afmælishátíð Rótarýklúbbs Reykjavíkur tilkynnti forseti klúbbsins að valnefnd skipuð fráfarandi, núverandi og viðtakandi forsetum þeim Benedikt Jóhannessyni, Jóhanni Sigurjónssyni og Ágústu Guðmundsdóttur, hefði ákveðið að Jónas Ingimundarson, verði nýr heiðursfélagi klúbbsins. Það var viðtakandi forseti sem kynnti niðurstöðu valnefndar. Jónas hlýtur viðurkenninguna fyrir mikilvægt framlag og óeigingjarnt starf í þágu Rótarýklúbbs Reykjavíkur og Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi.
Jónas Ingimundarson hefur verið félagi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur frá árinu 1993. Hann hefur af mikilli alúð verið hvatamaður tónlistarviðburða og þess að klúbbfélagar hafa átt þess kosta að njóta tónlistar af hæstu gæðum, m.a. með eigin flutningi við ýmis tækifæri. Fyrir 18 árum hafði Jónas ásamt þeim Gunnari Hanssyni og Friðriki Pálssyni forgöngu um að efnt yrði árlega til Stórtónleika Rótarý og hefur hann alla tíð verið til ráðgjafar við tónleikahaldið. Tónlistarsjóður Rótarý var stofnaður í framhaldinu, en honum er ætlað að styrkja unga efnilega tónlistarmenn til náms. Jónas hefur verið faglegur ráðgjafi sjóðsins frá upphafi.
Þegar litið er yfir feril Jónasar er ljóst að hann er afreksmaður á sviði tónlistar og nýsköpunar í tónlistarlífinu. Hann hefur unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir afrek sín á tónlistarsviðinu. Jónas átti tvö stórafmæli í ár, varð sjötugur og 50 ár voru liðin síðan hann kom fyrst fram opinberlega sem píanóleikari. Þáttur Jónasar í að kynna tónlist fyrir almenningi og kenna okkur að njóta hennar er afgerandi. Íslenskt tónlistarlíf væri ekki samt án hans. Hann kom m.a. á laggirnar “Tónlist fyrir alla”, var forgöngumaður þess að byggt var tónlistarhús í Kópavogi og hefur skipulagt Tíbrá, glæsilega tónleikaröð í Salnum í Kópavogi. Hann hefur haldið fjölda einleikstónleika og staðið í eldlínunnni með íslenskum söngvurum í 50 ár. Eiginkona Jónasar er Ágústa Hauksdóttir.