Fréttir

21.8.2013

Hýbýli vindanna, erindi um vindorku á Íslandi

Erindi-21-08-2013

Á fundinum í dag, 21. ágúst voru tveir gestir, Ólafur Stefánsson handknattleiksmaður og Margrét Arnardóttir hjá Landsvirkjun, gestur klúbbsins, en hún flutti erindi sem hún kallaði Hýbýli vindanna, og fjallaði um vindorku á Íslandi.

Stallari sagði frá berjaferðinni sem farin verður 30. ágúst. Rútan leggur af stað frá Hótel Sögu kl. 13 og liggur leiðin fyrst upp í Rauðhóla þar sem gerður verður stuttur stans og síðan haldið að Úlfljótsvatni. Þaðan liggur leiðin niður á Eyrarbakka. Þar skoðum við Byggðasafn Árnesinga og Lýður Pálsson safnstjóri slæst síðan í för og sýnir okkur helstu hús á Bakka. Þar næst verður haldið í sumarbústað Páls Sigurjónssonar og Sigríðar Gísladóttur. Ef veður leyfir verður gengið um hinar fallegu fjörur við Stokkseyri, en síðan haldið á veitingastaðinn Fjöruborðið og snæddur humar. Um kl. 22 verður síðan lagt af stað í bæinn aftur. Verð er 9.500 kr. á mann og skal greiðast inn á Berjareikning klúbbsins, kjörbók nr. 0101-05-269954. Kennitala 550888-1499. Merkja skal innleggið Berjareikningur.

Halldór Jónsson sagði frá jeppaferðinni sem verður annað hvort 7. eða 8. september eða 14. eða 15. september (veðurhorfur ráða degi). Farið er úr Þjórsárdal að Gullfossi eftir línuvegi með skemmtilegum útúrdúrum.

Forseti afhenti Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur sem varð fimmtug þann 18. ágúst gjöf frá klúbbnum.

Sagt var frá því að pantaðir hefðu verið 120 miðar á Carmen vegna árshátíðar félagsins þann 23. nóvember. Klúbburinn hefur jafnframt tryggt sér salinn Björtuloft í Hörpu fyrir borðhald og drykk að lokinni sýningu.

Gjaldkeri fyrri stjórnar, Hreggviður Jónsson, kynnti endurskoðaða reikninga liðins árs. Afkoma var afar góð eða tveggja milljóna afgangur, en það skýrist af tilflutningi greiðslu á félagsgjöldum. Ef ekki er tekið tillit til þess hefði orðið um það bil 70 þúsund króna afgangur. Reikningarnir voru samþykktir samhljóða.

Sigurður B. Stefánsson gjaldkeri kynnti fjárhagsáætlun fyrir komandi ár. Hann gerði ráð fyrir 70 þúsund króna afgangi. Áætlunin var samþykkt samhljóða.

Hörður Arnarson kynnti ræðumann. Erindið var mjög áhugavert og margir spurðu Margréti spurninga að því loknu.

Næsta miðvikudag talar Ólöf Ýr Atladóttir ferðamálastjóri um ferðaþjónustuna.