Stjórnarskipti
Skýrsla stjórnar Rótarýklúbbs Reykjavíkur starfsárið 2011-2012
Á fyrsta fundi nýs starfsárs Rótarýklúbbs Reykjavíkur hinn 4. júlí afhenti fráfarandi forseti Eiður Svanberg Guðnason nýjum forseta Guðfinnu S. Bjarnadóttur forsetakeðjuna.
Fráfarandi forseti flutti skýrslu forseta og stjórnar um starf klúbbsins á liðnu starfsári.
Skýrsla stjórnar Rótarýklúbbs Reykjavíkur
starfsárið 2011-2012
Ágætu Rótarýfélagar,
Þetta starfsár Rótarýklúbbs Reykjavíkur var að venju viðburðaríkt og gott ár.
Í lok starfsárs voru félagar 120 og 6 heiðursfélagar. Félögum hafði fjölgað um tvo á árinu.
Fimm nýir félagar voru teknir í klúbbinn. Þeir eru:
Halldór Jónsson 12. október 2011 fyrir starfsgreinina: Sjúkrahúsrekstur.
Illugi Gunnarsson 19. október 2011 fyrir starfsgreinina: Hagfræði.
Örn Árnason 21. desember 2011 fyrir starfsgeinina: Leiklist.
Kjartan Óskarsson 15. febrúar 2012 fyrir starfsgreinina: Tónlistarskólar.
Harpa Þórsdóttir 22. febrúar 2012 fyrir starfsgreinina: Söfn.
Rétt er að geta þess að þrír einstaklingar sem boðin var félagsaðild ýmist höfnuðu vegna anna, - og að hluta tel ég vegan mætingaskyldunnar , - eða tóku sér umhugsunarfrest og svöruðu síðan aldrei. Enda ekki gengið eftir svörum þegar þannig stóð á.
Þrír félagar létust á árinu:
Gunnar J. Friðriksson iðnrekandi lést þann 3. ágúst. Hann var níræður er hann lést. Jón Þórarinsson tónskáld lést á nítugasta og fimmta aldursári 12. febrúar og Jónas H. Haralz hagfræðingur lést 13. febrúar. Hann var á nítugasta og þriðja aldursári. Allra var þeirra minnst með hefðbundnum hætti á fundi hér í klúbbnum. Minningarorð um þá eru á heimasíðu klúbbsins. Þeir voru allir Paul Harris félagar og áttu langt starf að baki í klúbbnum. Jónas H. Haralz var einnig heiðursfélagi klúbbsins.
Eftirtaldir félagar höfðu 100% fundasókn fyrri hluta starfsársins:
Tryggvi Þór Haraldsson og Þórir Jónsson.
Þórir Jónsson hafði 100% fundasókn seinni hluta starfsársins.
Þórir Jónsson hafði sem sé 100% fundasókn allt starfsárið. Forseti leyfir sér að nefna að yngri félgar mættu taka sér þessa fundasókn Þóris Jónssonar sér til fyrirmyndar.
Fundir voru 48 á árinu.
Mesta fundarsókn var á 28. og 34. fundi en þá mættu 52 af þeim sem fundaskyldir eru eða 62%
Minnsta fundarsókn var á Spilakvöldi 25. mars – 35. fundi en þá mættu 14 fundaskyldir félagar eða 16.3%
Á Niðjafundi 28. desember -23. fundi mættu 29 fundaskyldir félagar eða 34.5%
Á reglulegum fundi 28. mars mættu 32 eða 37.2%
Gestir á árinu voru 245.
Rótarýgestir voru 76.
Aðrir gestir voru 169.
Meðaltal á fundi var 5.1.
Klúbburinn kaus tvo nýja heiðursfélaga Þann 23. maí síðastliðinn, þá Matthías Johannessen og Baldvin Tryggvason en báðir gengu þeir í klúbbinn árið 1965. Var þeim afhent skjal heiðursfélagakjörinu til staðfestingar svo og minjagripur áletraður steinn með Rótarýhjólinu. Heiðursfélagar auk þeirra sem ég nú nefndi eru einnig Haraldur Sveinsson, Magnús Magnússon Hjalti Geir Kristjánsson og Jón H. Bergs. Þá útnefndi klúbburinn fimm nýja Paul Harris félaga á árinu þá Björn Bjarnason, Einar Stefánsson, Friðrik Ólafsson, Jón Ásbergsson og Svein Jónsson, sem allir hafa starfað vel og dyggilega hér í klúbbnum í áraraðir.
Í stjórn klúbbsins á starfsárinu voru Eiður Svanberg Guðnason,forseti , Guðfinna S. Bjarnadóttir viðtakandi forseti, Sigrún Hjálmtýsdóttir ritari, Tryggvi Þór Haraldsson gjaldkeri og Jóhanna Waagfjörð stallari. Á aðalfundi árið áður hafði Þorkell Helgason verið kjörinn ritari klúbbsins, en aðstæður breyttust hjá honum þannig að hann dvaldist erlendis mestan hlutan starfsársins og baðst undan því að gegna starfi ritara. Í 6. grein sérlaga klúbbsins segir, að forfallist stjórnarmaður á kjörtímabilinu setji stjórnin félaga í hans stað. Í samræmi við það óskaði stjórnin eftir því að Sigrún Hjálmtýsdóttir gegndi starfi ritara út kjörtímabilið og féllst hún góðfúslega á það. Stjórnin hélt 8 stjórnarfundi á árinu. Stjórnarfundir voru haldnir hér í Sunnusal fyrir klúbbfundi. En í vaxandi mæli voru ýmis mál afgreidd með tölvupóstsamskiptum milli stjórnarmanna.
Berjaferð og aðrar ferðir, - sem ekki voru farnar !.
Hin árlega berjaferð var farin 23. september. Það er venju fremur seint en það gekk ekki greiðlega fyrir sig að koma þeirri ferð á koppinn. Ætlunin var upphaflega að fara til Vestmannaeyja, en fyrirsjáanlegt var að hvassviðri og ölduhæð kæmu í sameiningu í veg fyrir siglingu úr Landeyjahöfn þann dag sem ætlunin var að fara. Var því brugðið á annað ráð. Stallari og ritari skipulögðu ferð um Mosfellsdal og í Borgarnes. Það verður að segjast alveg eins og er að þátttaka í berjaferðinni var afar dræm. Sjö félagar með maka tóku þátt í ferðinni, - samtals 14 manns. Ég geri ráð fyrir að flestir séu þeirrar skoðunar að ekki komi til greina að leggja þann góða sið sem berjaferðin er af. En eitthvað verður að gera til að örva þátttökuna. Lagt var af stað frá Hótel Sögu í hádeginu og ekið að Hvirfli í Mosfellssveit, þar sem við heimsóttum leirlistagallerí Þóru Sigurþórsdóttur og nutum veitinga. Gengið var til kirkju þar sem Bjarki Bjarnason sagði okkur frá sveitinni, álfum og öðrum fyrirbærum sem þar er að finna. Ekki fór hjá því að Halldór Laxness kæmi við sögu svo og saga kirkjunnar á Mosfelli. Þessu næst var haldið að Gljúfrasteini þar sem við skoðuðum safnið sem þar hefur verið komið á fót til minningar um skáldið. Sú stund verður okkur öllum ógleymanleg þegar Jónas okkar Ingimundarson settist við flygil skáldsins og frábærir tónleikar bættust óvænt á dagskrá ferðarinnar.
Frá Gljúfrasteini var ekið sem leið liggur um Hvalfjarðargöngin góðu sem félagi okkar Páll Sigurjónsson og Ístak eiga allan sóma af . Snæddur var kvöldverður í landnámssetrinu í Borgarnesi og síðan farið í leikhús þar á setrinu, þar sem Þór Túliníus flutt einleik sinn, sem hann nefnir Blótgoða, - einskonar hraðferð um sögu lands og þjóðar. Til Reykjavíkur var svo komið um ellefu leytið, samkvæmt áætlun. Vegna þess hve við vorum fá og til að halda kostnaði lágmarki var tekinn á leigu lítill hópferðabíll og Páll Kári Pálsson, maðurinn hennar Jóhönnu Waagfjörð stallara, annaðist akstur með mikilli prýði og skilaði okkur öllum heilum heim.
Það er svo umhugsunarefni fyrir næstu stjórn hvernig unnt er að örva þátttöku í þessum árlega viðburði á dagskrá klúbbsins, - þessum sögulega þætti í starfinu.
Eins og margir minnast var reynt að skipuleggja ferð til Vesturheims á Íslendingaslóðir í fyrrasumar. Það tókst ekki . Þátttaka var ekki næg. Kannaður var áhugi á utanferðum til annarra staða, en hann reyndist sannast sagna ekki mikill og varð því ekki af utanferð á árinu.
Jeppaferð
Í september, nánar tiltekið 10. september, var efnt til nýmælis í starfinu en það var jeppaferð á öræfaslóðir, en margir félagar eru ágætlega bílvæddir til slíkra ferða. Safnast var saman við Olísstöðina á Norðlingaholti og ekið þaðan sem leið liggur austur í Fljótshlíð og síðan var ekinn hringur umhverfis Tindfjallajökul um Fjallabak, Hungurfit, Álftavatn og Hvanngil. Kvöldinu lauk svo með sameiginlegri máltíð í veitingahúsinu „Á árbakkanum“ á Hellu. Farið var um ævintýralega fallegt landslag í frábæru veðri . Fæstir höfðu séð þennan hluta landsins áður, til dæmis stórkostleg Markarfljótsgljúfrin. Alls voru jepparnir tíu talsins með jeppa Halldórs Jónssonar frá Akureyri, sem var okkur til halds og trausts á sínum öfluga jeppa. Halldór gekk svo til liðs við klúbbinn síðar á starfsárinu. Þátttakendur í ferðinni voru samtals 25 . Þeir sem áttu hugmyndina og hrintu henni í framkvæmd og voru fararstjórar voru þeir Davíð Á. Gunnarsson og Gunnar Sch. Thorsteinsson.
Óperuferð
Það er alkunna að ekki hefur verið uppselt á árshátíð klúbbsins í manna minnum. Sannast sagna hefur aðsókn að þessum árlega fagnaði farið nokkuð minnkandi ár frá ári. Þess vegna ákvað stjórn klúbbsins að breyta til og efna til sameiginlegrar ferðar í Íslensku óperuna í Hörpu, þar sem flutt var Töfraflauta Mozarts. Skemmst er frá því að segja að þessi hugmynd hlaut góðar undirtektir hjá félögum, - þótt vissulega séu einnig félagar sem sakna árshátíðarinnar mjög og þótti þetta ekki beinlínis þarfaverk hjá stjórninni að sleppa árshátíðinni . En hvað um það þátttaka var mjög góð, raunar betri en búist var við í kringum eitt hundrað og tuttugu manns félagar og makar. Ekki spillti það fyrir að félagi okkar Sigrún Hjálmtýsdóttir söng hlutverk Næturdrottningarinnar í Töfraflautunni og skilaði því að sjálfsögðu með miklum glæsibrag. Óperuferðin var laugardaginn 12. nóvember. Fyrir sýningu þáðum við fordrykk í boði Orkusölunnar og félagi okkar Sveinn Einarsson setti Töfraflautuna í sögulegt samhengi í fróðlegu spjalli. Áður en sýning hófst snæddum við kvöldverð í Kolabrautinni. Var í heildina gerður að þessu góður rómur.
Aðalfundur.
Aðalfundur var haldinn 7. desember. Kjörin voru: Viðtakandi forseti Benedikt Jóhannesson, ritari Magnús Gottfreðsson, gjaldkeri Hreggviður Jónsson og stallari Hjálmar Jónsson . Endurskoðendur voru kjörnir Tryggvi Jónsson og Haraldur Örn Ólafsson og til vara Kristjana M. Kristjánsdóttir.
Aðventukvöld.
Aðventukvöld var haldið 15. desember í Dómkirkjunni. Þátttaka var mjög góð
Undirbúningurinn hvíldi á stallara , ritara og félaga okkar Hjálmari sem ávarpaði félaga og maka í kirkjunni. Sigrún Hjálmtýsdóttir söng einsöng og Jónas Ingimundarson og Kjartan Óskarsson léku á flygil og klarinett. Egill Hreinsson lék á flygil kirkjunnar áður en dagskráin hófst. Ljúffengur kvöldverður var svo snæddur á Hótel Borg, þar sem, fordrykkur var í boði félaga okkar Hreggviðs Jónssonar og fyrirtækis hans Vistor. Undir borðum lásu tveir félagar úr nýútkomnum bókum sínum. Benedikt Jóhannesson las úr bók sinni „Kattarglottið“, sem er safn smásagna og Sigurður Pálsson úr ,,Bernskubók“ og var góður rómur gerður að lestri þessara ágætu rithöfunda úr röðum félaga.
Makar látinna klúbbfélaga
Að venju var mökum látinna félaga færð jólakveðja, konfektkassi, daginn fyrir Þorkláksmessu og höfðu viðtakandi forseti og stallari veg og vanda af þeirri framkvæmd svo sem verið hefur um langt árabil. Það er þakklátt verkefni og skemmtilegt að afhenda þennan litla glaðning rétt fyrir jólin.
Lokaður kvöldfundur
Lokaður kvöldfundur var haldinn 18. janúar, þar sem að venju var rætt um innri mál klúbbsins. Rætt var um að gera tilraun með breytingu á fundartíma, þannig að sest yrði fyrr að borðum, erindi hæfist klukkan 12 30 og fundarlok yrðu klukkan 13 00. Þessi nýbreytni var tekin upp í maí byrjun og hefur gefist vel, að mati þess sem þetta segir. En líka er ljóst að ýmsir telja þetta óþarfa nýjung, og má í því samband vitna til orða merks Íslendings, sem taldi að gjalda beri varhug við nýjungum. Þær hafi gefist misjafnlega og sumar jafnvel verið til bölvunar. Vonandi verður þessi breyting til að auka mætingu hjá þeim félögum, sem eiga erfitt með að vera lengi frá vinnu í hádeginu. En það er auðvitað nýrrar stjórnar og félaganna að meta hvernig til hefur tekist með þessa breytingu á fundartíma. Á þessum sama fundi var einnig ákveðið að draga um sætaskipan við borðin á öðrum hverjum fundi. Hefur það gengið eftir að mestu. Ýmislegt annað var rætt í tengslum við starf klúbbsins en þetta eru þær breytingar helstar, sem orðið hafa á fundum klúbbsins.
Spilakvöld
Spilakvöld klúbbsins var haldið 21. mars . Spiluð var félagsvist undir árvissri og öflugri stjórn Benedikts Jóhannessonar. Þátttaka var betri en verið hefur í manna minnum. Spilað var á sjö borðum. Klúbbfélagar og makar snæddu kvöldverð hér á okkar venjulega fundarstað áður en spilamennskan hófst.
Helstu verðlaunahafar voru:
Sigríður Anna Guðjónsdóttir, sem hreppti gistingu fyrir tvo á Hótel Rangá með fjögurra rétta málsverði
Vigdís Jónsdóttir fékk Tomassi rauðvín fyrir tvo
Þórður Harðarson fékk úrval af færeyskum bjór og
Stefanía Borg glæsilega bók
Konur fengu sem sagt þrenn af fernum efstu verðlaunum. Auk þess fengu verðlaun þeir sem lægstir voru og lögðu þannig sitt af mörkum til þess að hinir fengju jafnmarga slagi og raun ber vitni, þeir sem fengu alslemm og engan slag, auk þess sem sérstakir aðstoðarmenn, vildarvinir og sérlega heppnir spilarar fengu verðlaun.
Alls fengu fjórtán manns verðlaun í viðbót við þau verðlaun sem fólust í skemmtilegum félagsskap og hörku spilamennsku.
Vænst er enn meiri þátttöku í spilakvöldinu næsta ár, enda skemmtu allir sér konunglega.
Niðjafundir
Eins og venja er voru haldnir tveir niðjafundir á árinu, annars vegar fyrir niðja 14 ára og yngri sem var jafnframt jólaskemmtun og hinsvegar fyrir niðja 15 ára og eldri. Á fundi fyrir hina yngri 28. desember mætti jólasveinn á staðinn og útdeildi sælgætisgjöfum við jólatréð. Stallari bar hitann og þungann af undirbúningi jólaskemmtunarinnar. Nokkur afgangur varð af sælgætinu sem keypt var vegna þessa fundar. Það var fært Barnaspítala Hringsins og var vel þegið.
Á fundinum fyrir eldri niðja 28. mars, 36 fundi starfsársins flutti Benedikt Jóhannesson erindi eða hugvekju sem hann kallaði „Vor eigin tími er villa og draumur“.
Það fjallaði meðal annars um Kölska í vitund útlendinga og Íslendinga fyrr og síðar og var gerður að því góður rómur.
Stórafmæli
Einir sjö félagar áttu stórafmæli á árinu. Klúbburinn færði þeim bókagjafir á þessum tímamótum svo sem venja er.
Stuðningsstarf klúbbsins
Klúbburinn styrkti Malawi verkefnið svonefnda á þessu ári um 656 þúsund (656.124,-).
Verkefnið er námsstyrkur fyrir einn stúdent í kaþólskum skóla í Malawi til B.Sc. náms þar. Styrkurinn er til að standa undir skólagjöldum, rannsóknarkostnaði, bókakaupum, fæði og húsnæði, læknisþjónustu, tölvubúnaði ofl.
Verkefnið hefur staðið frá 2008 og hefur Rótaryklúbbur Reykjavíkur styrkt verkefnið samtals að upphæð kr. 4.109 þ.kr. (2008/2009: 700 þ.kr. 2009/2010: 1.700 þ.kr. 2010/2011: 1.053 þ.kr. 2011/2012: 656 þ.kr.)
Verkefninu telst lokið og ef fara á í annað sambærilegt þá er það sjálfstæð ákvörðun.
Á aðventunni var byttan látin ganga rafrænt til stuðnings Mæðrastyrksnefnd í Reykjavík. Forseti og gjaldkeri afhentu formanni nefndarinnar 300 þúsund krónur frá klúbbfélögum í desember. Hin rafræna bytta gekk svo á ný á vormánuðum og þá var markmiðið að styrkja Pólióplús átak Rótarýhreyfingarinnar í veröldinni. Tryggvi Pálsson umdæmisstjóri veitti svo viðtöku fimm hundruð þúsund króna framlagi frá félögum til Pólíóplús á fundi í vor. Á þessu ári hafa klúbbfélagar því látið um eina og hálfa milljón króna af hendi rakna til mannúðarmála þeirra sem gerð hefur verið grein fyrir.
Skiptinemi
Í fyrra dvaldist hér skiptinemi frá Bandaríkjunum á vegum klúbbsins. Á þessu starfsári var enginn skiptinemi hér á okkar vegum, en vaxandi erfiðleikar hafa reynst því samfara að taka hér við skiptinemum og koma þeim fyrir og veita þá aðstöðu sem eðlilegt er.
Upptaka erinda
Svo sem kom fram í skýrslu stjórnar í fyrra var haldið áfram að taka upp á myndband erindi, sem eldri félagar flytja á fundum. Var tekið upp erindi Þóris Jónssonar um Stein Steinarr. Í undirbúningi er að taka upp erindi Jónasar Kristjánssonar um rannsóknir hans á ferðum íslensku víkinganna til nýja heimsins. Það eru þeir Þráinn Þorvaldsson og Guðmundur G. Þórarinsson sem hafa haft veg og vanda af þessu. Líklegt er að í stað þess að gefa þessi erindi út á diski verði þau gerð aðgengileg á netinu á heimasíðu klúbbsins. Er þá einkum horft til kostnaðar í tengslum við útgáfu disks.
Heimasíða klúbbsins
Reynt hefur verið eftir megni að uppfæra heimasíðu klúbbsins á heimasíðu Rótarýumdæmisins íslenska. Þar hefur forseti notið mikillar aðstoðar félaga okkar Dagnýjar Halldórsdóttur og færir stjórnin henni sérstakar þakkir fyrir það og væntir þess að áfram megi leita til hennar í þessum efnum. Eftir hvern fund í klúbbnum hafa verið settar inn upplýsingar um heiti erindis og fyrirlesara ásamt ljósmynd af ræðumanni. Upplýsingar um annað hafa verið settar inn eftir því sem tilefni hefur gefist til.
Ný starfsgreinaskráning
Um miðjan maí var sendur tölvupóstur frá skrifstofu umdæmisins um nýja starfsgreinaskráningu. Ekki tókst betur til en svo að þetta tölvubréf lenti í ruslpósti bæði hjá forseta og ritara. Þegar minnt var á þetta að nýju var skilafrestur næstum liðinn og ekki ráðrúm að breyta skráningunni og verður því að lagfæra hana seinna á starfsárinu.
Ágætu félagar,
Það hefur verið afar ánægjulegt að sitja í stjórn Rótarýklúbbs Reykjavíkur starfsárið 2011 til 2012. Sérstaklega vil ég þakka meðstjórnarmönnum mínum mjög ánægjulegt samstarf og samvinnu á árinu. Það er ekki erfitt verk að vera forseti í þessum virðulega klúbbi með liðsinni jafn ágæts fólks og skipað hefur stjórn klúbbsins þetta nú senn liðna starfsár. Þá vil ég líka þakka starfsmanni klúbbsins Elísabetu Waage fyrir hennar góða starf og ánægjulegt samstarf í hvívetna og fyrir að taka öllu kvabbi forseta jafnvel og raun hefur borið vitni. Jafnframt viljum við sem skipum fráfarandi stjórn óska nýrri stjórn velfarnaðar í störfum fyrir klúbbinn á nýju starfsári. Með þessum orðum læt ég þessari skýrslugjöf lokið um leið ég þakka af heilum hug persónulega og fyrir hönd stjórnarinnar klúbbfélögum öllum ánægjuleg samskipti á starfsárinu og óska þeim og fjölskyldum þeirra alls hins besta.
Skýrsla forseta hefur verið flutt hér í nokkuð styttu formi. Óstytt og ítarlegri útgáfa er á heimasíðu klúbbsins.
Reikningar klúbbsins verða lagðir fram á fyrsta eða öðrum fundi eftir sumarhlé.
Í byrjun júlí 2012 .
Eiður Svanberg Guðnason