Fréttir

15.2.2012

Minningarorð um Jón Þórarinsson

Flutt í Rótarýklúbbi Reykjavíkur 15. febrúar 2012

 

Jón Þórarinsson

 

Nú er skammt stórra höggva á milli og félagi okkar Jón Þórarinsson lést sl. sunnnudag á 94. aldursári. Hann hafði ekki sést í okkar hópi nú lengi og augljóst að hverju stefndi, en ævinlega er skarð fyrir skildi þegar merkismaður í samfélaginu og góður félagi okkar gengur.

Jón var Austfirðingur, fæddur í Gilsárteigi í Eiðaþinghá og faðir hans hreppsstjóri og alþingismaður. Jón fór til mennta sem kallað er, lauk stúdentsprófi frá Akureyri 1937. Hugurinn stefndi í tónlist, hann hóf því nám i Tónlistarskólanum í Reykjavík og varð viðloðandi Ríkisútvarpið þegar árið 1938. Árið 1944 hleypti hann heimdraganum með þáverandi konu sinni, Eddu Kvaran leikkonu, og fóru bæði vestur til náms. Hann nam við Yale-háskólann, þar sem hann naut leiðsagnar hinna bestu kennara, þeirra á meðal hins heimsfræga tónskálds Pouls Hindemiths, sem hafði mikil áhrif á tónsmíðar Jóns. Sumarið 1945 var hann einnig við nám í Jullliard-skólanum fræga. Áratug síðar fór hann í námsdvöl til Vínarborgar, 1954-55, en þá var innrás nokkurra helstu tónlistarmanna okkar þar, Rögnvaldar Sigurjónssonar, Leifs Þórarinssonar og Guðmundar Jónssonar, ef mér er rétt frá talið og mikil inspírasjón.

Heimkominn frá Ameríku hafði hann gerst fulltrúi í tónlistardeild Rikisútvarpsins og löngu seinna varð hann dagskrárstjóri í lista-og skemmtideild stofnunarinnar, eins og það hét þá, þ.e. innlends efnis og leikur mér grunur á að áhrif hans þar hafi verið grundvallandi menningarstefna, á þeim gæðastaðli sem ýmsum eftirmönnum hans hefur ekki tekist að fylgja eftir. Hann leit á sjónvarpið sem skapandi menningartæki. Þá kom hann mjög að stofnun hinnar íslensku sinfóníuhljómsveitar, fyrsta árið sem stjórnarformaður, síðar eftir endurskipulagningu 1956 sem framkvæmdastjóri. Mörg fleiri trúnaðarstörf svipaðs eðlis hlóðust á Jón, enda leitun á leiðandi listamönnum sem létu stjórnunarstörf jafn vel. Ógleymdur er svo þáttur hans í berjast fyrir byggingu tónlistarhúss, þar sem hann var í forystusveit og í hópi hinna víðsýnu.

Jafnframt sinnti Jón auðvitað tónsmíðum sínum og liggja eftir hann ýmis stórverk eins og Völuspá frá1974, og Minni Ingólfs 1986, lagaflokkurinn Of love and Death, voldug orgelmúsík, klarínettusónata og margt fleira. Og ýmis sönglög. Sum sönglögin hafa orðin einkar vinsæl með þjóðinni, eins og Fuglinn í fjörunni og Íslenskt vögguljóð á Hörpu. Hann samdi og talsvert af tónlist fyrir leiksviðið og á sá sem hér stendur afar góðar minningar um það samstarf sem og í sjónvarpinu og i Samtökum um byggingu tónlistarhúss. Hann sinnti löngum kennslustörfum á tónlistarssviðinu og var yfirkennari við Tónlistarskólann i Reykjavík í rúm 20 ár. Hann stýrði Karlakórnum Fóstbræðrum um árabil og útsetti fyrir þá og aðra margan söngbraginn, til dæmis sönglög Gylfa Þ. Gíslasonar. Gömlum Fóstbræðrum mun hann hafa stýrt í ein 40 ár. Hann skrifaði og um skeið tónlistargagnrýni, fyrst í Alþýðublaðið, seinna í Morgunblaðið.

Eftir Jón liggja allnokkrar bækur og kannski ber að nefna þar fyrst ævisögu Sveinbjarnar Sveinbjörnssonar, fyrsta menntaða tónskálds okkar. Í mörg ár vann Jón síðan að því að semja íslenska tónlistarsögu og dró að sér mikið efni. Því miður auðnaðist honum ekki að ljúka því verki, en mér skilst aðrir hafi verið fengnir til að róa þeirri bók í land.

Þau Edda eignuðust þrjá syni, en leiðir þeirra skildu. Eftirlifandi eiginkona Jóns til marga áratuga er, eins og við í klúbbnum þekkjum, Sigurjóna Jakobsdóttir. Þeirra börn eru fjögur og er eitt þeirra, Þorsteinn félagi í okkar klúbbi.

Ég vil biðja klúbbfélaga að minnast þessa mikilhæfa lista-og menningarmanns með því að rísa úr sætum....

Takk fyrir.

Sveinn Einarsson