Minningarorð um Jónas H. Haralz
Flutt í Rótarýklúbbi Reykjavíkur 15. febrúar 2012
Mig langar til að segja nokkur minningarorð um félaga okkar, Jónas Haralz.
Jónas var einn þeirra sem settu svip á öldina sem leið í íslensku þjóðlífi. Hann var skarpskyggn og athugull hagfræðingur og ötull talsmaður efnahagslegra og félagslegra umbóta alla ævi. Ég var svo lánsamur að starfa með honum um langt árabil. Það var lærdómsríkt að kynnast honum í þeim störfum. Jónasi var einkar vel lagið að taka á efnahagsvanda líðandi stundar með ljósum og skiljanlegum orðum. Hann var stórvirkur við ritstörf, en hann var ekki síður maður hins talaða orðs.
Mér – eins og eflaust mörgum ykkar – er minnisstætt síðasta erindið sem hann flutti úr þessum ræðustól í mars árið 2010 – blaðalaust að vanda – um stjórn peningamála og gengismála á Íslandi í sögulegu samhengi; ég vil segja með sögulegri yfirsýn heillar aldar.
Hefði sú ræða verið færð beint í letur hefði hvergi þurft að hnika til orði. Engan hefði grunað að Jónas væri þá kominn á tíræðisaldur. Skýrleiki og sannfæringarkraftur einkenndi ræður hans alla tíð.
Ferill Jónasar var glæsilegur. Að loknu háskólanámi í hagfæði við Stokkhólmsháskóla sneri hann heim til Íslands í stríðslok. Eftir nokkurra ára starf sem hagfræðingur hér á landi – ásamt virkri þátttöku í stjórnmálum – á vinstri væng þeirra – fór hann til starfa hjá Alþjóðabankanum í Washington. Þar gegndi hann störfum í átta ár við góðan orðstír. Heimkominn á ný varð hann einn helsti efnahagsráðgjafi ríkisstjórna á Íslandi í meira en áratug. Þekktastur var hann án efa sem einn höfuðsmiður hagstjórnaraðgerða Viðreisnarstjórnarinnar við upphaf sjöunda áratugar liðinnar aldar. Þá urðu straumhvörf í efnahagsmálum. Horfið var frá flóknu og íþyngjandi kerfi fjölgengis, hafta og styrkja í utanríkisviðskiptum um leið og almennt frjálsræði í athafnalífi var aukið. Þegar á þessum tíma sá Jónas glöggt að virk þátttaka í samstarfi Evrópuþjóða var leið Íslands til hagsældar.
Hann varð síðan forstjóri Efnahagsstofnunar – fyrirrennara Þjóðhagsstofnunar – til ársins 1969. Þá varð hann bankastjóri Landsbankans til 1988, er hann varð fulltrúi Norðurlanda í framkvæmdastjórn Alþjóðabankans. Mér var það heiður og ánægja sem þáverandi viðskiptaráðherra að nefna Jónas til þess starfs. Frá því starfi hvarf hann 1991 og hóf þá ráðgjafar- og ritstörf af sama kappi og fyrr. Hann gerðist söguritari Alþjóðabankans og alþjóðaþróunarsamstarfs. Snemma á fyrsta áratug þessarar aldar skráði hann meðal annars sögu Norræna þróunarsjóðsins sem tengdur er Norræna fjárfestingarbankanum í Helsingfors. Þar lágu leiðir okkar saman á ný.
Allt fram á síðustu æviár voru skrif hans jafnskýr og greinargóð og fyrrum og – meðan heilsan leyfði – sannfæringarkrafturinn hinn sami og var þegar hann réð mig til starfa í Efnahagsstofnun fyrir fjörutíu og átta árum.
Blessuð sé minning hans.
Jón Sigurðsson