Fréttir

30.11.2010

Stuðningur Rótaryklúbbs Reykjavíkur við nemendur í Malawi

Rótarýklúbbur Reykjavíkur hefur frá árinu 2007 stutt við langskólanám 4 einstaklinga í Monkey Bay, Malawi. Á þessu svæði hafa Íslendingar mjög látið til sín taka og hafa verkefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Malawi frá upphafi verið nærfellt öll í Monkey Bay. Fátækt á þessu svæði er mikil, og afleiðingar hennar enn meiri.

 

Rótarýklúbbur Reykjavíkur hefur frá árinu 2007 stutt við langskólanám 4 einstaklinga í Monkey Bay, Malawi. Á þessu svæði hafa Íslendingar mjög látið til sín taka og hafa verkefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Malawi frá upphafi verið nærfellt öll í Monkey Bay. Fátækt á þessu svæði er mikil, og afleiðingar hennar enn meiri. Algengi HIV smits er um 15 % meðal fullorðinna. Aðgang að hreinu vatni hafa um 45% fólks og sjúkdómar tengdir menguðu vatni á borð við ungbarnaniðurgang og kóleru eru algengir. Meðallífslíkur eru um 41 ár, ungbarnadauði yfir 100 fyrir hver 1000 lifandi fædd börn og mæðradauði yfir 600 á hverjar 100.000 fæðingar. Um 40-50%  barna fæðast án aðstoðar ljósmóður og vannæring barna undir 5 ára er um 30%. Helstu dánarorsakir eru HIV/AIDS, malaría, lungnabólga og vannæring.

Í því héraði Malawi þar sem Monkey Bay er, Mangochi héraði, á innan við 1/1000 kost á að fara í langskólanám. Þeir fáu sem í slíkt komast eru valdir af stjórnvöldum og kostnaður er hár. Klúbbur okkar ákvað að freista þess að styrkja fleiri.

Styrkfé hefur verið framlag klúbbsins og klúbbfélaga, þar af lagði einn félagi sem ekki hefur viljað láta nafns síns getið fram 500.000 kr. Velgerðarsjóðurinn Aurora styrkti verkefnið einnig á síðasta ári um 2.000.000 kr.

Val á styrkþegum fór þannig fram að auglýst var í dagblöðum, valnefnd var skipuð sem í voru spítalastjóri, kennari, prestur og hjónin Sigríður Snæbjörnsdóttir og Sigurður Guðmundsson, en þau unnu á þessu svæði á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands á þessum tíma.

Umsóknir voru rúmlega 50. Valið byggðist á einkunnum úr “secondary school” umsögnum og meðmælum, m.a. frá þorpshöfðingjum, stuttri greinargerð um framtíðarvonir og námsgrein þeirri sem viðkomandi hugðist leggja stund á. Valið var erfitt, en loks voru 4 valdir úr. Gerðir voru átthagasamningar (“bonding contracts”) við þá þar sem þeir samþykktu að vinna í héraðinu í 3 ár að loknu námi.

Styrkþegar eru sem áður sagði fjórir og er einn þegar útskrifaður, og annar mun ljúka námi á þessu ári. Þeir eru Jean Kingstone kennari, útskrifaðist 2009, Yohane Solomon í hjúkrun, útskrifast 2010, Miriam Meja í hjúkrun, útskrifast 2011 og Twaha Silaje í kennslufræði, útskrifast 2012. Kostnaðarliðir eru helstir skólagjöld, bækur og ritföng, húsnæði, fæði og heilsugæsla. Skólarnir eru The Catholic University of Malawi,St Luke College of Nursing & Midwifery, Ekwendeni College of Nursing & Midwifery og Chancellor College, University of Malawi.

Efnahagshrunið og fall á gengi íslensku krónunnar komu illa við þetta verkefni, kostnaður tvöfaldaðist frá því sem áður var. Eigi að síður mun klúbburinn ljúka þessu verkefni, enda er það vissulega verðugt.

Vandamál landa Afríku sunnan Sahara eru mikil, og kreppa á Íslandi bliknar í þeim samanburði. Á þessum slóðum leggst margt saman, spilling, óstöðug pólitík, mikil og hröð fólksfjölgun og lélegir innviðir.  Af nógu er því að taka, en ef til vill vegur efling menntunar þyngst. Menntun skipti miklu máli fyrir okkur þegar aldamótakynslóðin fyrir rúmri öld lagði grunninn að því sem varð síðar velferðarríkið Ísland.  Menntun skiptir ekki síður máli fyrir Afríku. Því væri óskandi að við gætum haldið áfram á þessari braut, og mikill styrkur væri að þátttöku fleiri klúbba í verkefni af þessu tagi.

 

Okt. 2010/Sigurður Guðmundsson