Fréttir

25.2.2018

Vel heppnuð dagskrá Rótarýdags í Ólafsfirði!

Félagar í Rótarýklúbbi Ólafsfjarðar, héldu dagskrá sína í tilefni af Rótarýdeginum á Hornbrekku, heimili aldraðra í Ólafsfirði.

Uppleggið var að kynna rótarýhreyfinguna, klúbbinn og að veita innsýn í hefðbundinn rótarýfund.

Samkoman hófst á því að Elísa Rán Igvarsdóttir forstöðumaður heimilisins bauð gesti velkomna og gaf svo forseta Ave Kara Sillaots orðið og  setti hún fund og fór yfir hvað í vændum væri.  Næsta mál á dagskrá var inntaka nýs félaga, sem er Ingvar Ágúst Guðmundsson fyrir starfsgreinina ,,Málarameistari“ og fór það eftir settum reglum.  Ingvar var boðinn velkomin í klúbbinn með sterku lófataki.

Karl Haraldur Gunnlaugsson ritari klúbbsins á yfirstandandi starfsári hélt þar á eftir kynningu á starfsemi rótarý í víðum skilningi.  Að lokum fór hann séstaklega yfir sögu Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar.

Þá var komið að afhendingu styrkja og gjafa sem Gunnlaugur Jón Magnússon, formaður Rótarýdagsnefndar sá um.  Kallaði hann til forstöðumann heimilisins Elísu Rán Ingvarsdóttur til að veita gjöfunum viðtöku.   Þar var annars vegar um að ræða ,,skutlu“ sem auðveldar starfsfólki flutning veikburða einstaklinga og er einnig til þæginda fyrir þann sem í skutlunni er.  Hins vegar var gjöf í félagsstarf heimilisfólks, spjaldtölva og þráðlaus hátalari.  Vonast klúbbfélagar að öll þessi tæki verði mikið notuð.

Þá var kallaður fram Haukur Sigurðsson hjólreiðakappi og liðsmaður í Team Rinkeby til að taka við peningastyrk vegna árlegrar hjólreiðaferðar liðsins frá Kaupmannahöfn til Parísar á komandi sumri.  Styrkur sem að lokum endar hjá styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna.

Að því loknu fór Gunnlaugur Jón yfir vinnuframlög klúbbsmeðlima við vinnu í Pálshúsi, safnahúsi Ólafsfirðinga sem nú er verið að byggja upp.  Auk þess veitti hann húsinu penigastyrk að upphæð 50.000 sem Anna María Guðlaugsdóttir formaður stjórnar Fjallasala – félagsins sem stendur að húsinu tók við.

Að lokum gat Gunnlaugur Jón, framlags klúbbsins til Rotarýsjóðsins í ár.

Viðtakendur gjafanna þökkuðu fyrir sig og sögðu frá til hvers gjafirnar yrðu notaðar.


Þá var komið að kaffiveitngum en tvær flennistórar veislutertur ásamt öðru bakkelsi voru á borðum og var því öllu að 

sjálfsögu gerð góð skil.

Fréttabréf flutti Þorsteinn Ásgeirsson, en klúbbmeðlimir hafa frá upphafi skrifað vikuleg fréttabréf um það sem talist hefur fréttnæmt í bænum.  Bréfið að þessu sinni var að nokkru leiti í bundnu máli og má það heita skemmtileg tilbreyting.

Guðbjörn Arngrímsson flutti því næst ,,Kvæði kvöldsins“ óhefðbundið kvæði um afa sem fór á honum Rauð, en kvæðinu er lýst svona:  ,,Bjarki M. Karlsson yrkir „einn afar sorglegan flokk“ um það grátlega kynjanna misrétti sem forðum daga tíðkaðist og þekkist því miður enn”  Þetta var að sjálfsögðu hin besta skemmtun.

 Í fundarlok tilkynnti forseti svo um næsta fund, klúbbsöngurinn var sunginn,  farið með fjórprófið og fundi svo slitið.

Ekki var þó allt búið, því forsetinn sem er tónlistarkennari tók upp nikkuna og spilaði nokkur þekkt íslensk lög í lokin, við góðar undirtektir að sjálfsögðu.

Samhliða þessu öll rúllu ljósmyndir á skjá í salnum.  Myndir úr starfi klúbbsins, sem Svavar B. Magnússon einn ötulasti ljósmyndari Ólasfirðinga hefur tekið í gegnum árin, auk nokkurra annarra mynda.

Dagskrá þessi þótti takast sérlega vel, bæði af heimilismönnum, gestum og ekki síst klúbbfélögum sjálfum.  En myndirnar segja kannski meira en langur lestur. 
Um dagskrá þssa er frekari umfjöllun á Faceboock síðu klúbbsins og þar má sjá fleiri myndir (KHG)