Fréttir

15.1.2018

Vinnusemin í hávegum höfð.

Það hefur ekki verið lognmollan í kring um rótarýfélaga undanfarið, frekar en fyrri daginn.

Síðasti fundur var vinnufundur í Pálshúsi, en Pálhsús er safnahús Ólafsfirðinga sem verið er að gera upp.  Neðri hæðin var gerð upp á síðasta ári og var hið stórmerka náttúrugripasafn Ólafsfirðinga flutt þangað, ásamt ýmsu öðru sem á eftir að koma fyrir. 

Það er fyrirliggjandi á næstu mánuðum að gera upp efri hæðina og koma þar upp ýmsum sýningum, þegar því verður lokið.

Það hafði safnast ýmislegt dót á efri hæðina sem þurfti að fjarlægja, m.a. frá þeim tíma sem verslanir voru starfræktar  í húsinu og vildu rótarýfélagar leggja sitt af mörkum eins og þeirra er vona og vísa þegar eitthvað þarf að gera í samfélaginu.

Daginn eftir var svo ráðist í að ganga frá í kirkjugarðinum, taka krossana og jólatréð og ganga frá öllu sem tilheyrir.

Þeirri vinnu lauk ekki alveg á föstudags-eftirmiðdaginn, þar sem skuggsýnt var og hált þar sem fólk þurfti að fara yfir.  Var því ákveðið að geyma loka fráganginn til laugardagsmorguns og gekk það svo eftir.

Myndirnar sem hér fylgja voru teknar að þessum tilefnum, en vegna straumleysis myndavélar varð að notast við síma í sumum tilfellum.

Þá eru svona vinnutörnum lokið í  bili, en ekki er langt í næsta viðburð sem er Rótarýdagurinn 2018, en hann verður haldinn 24. febrúar næstkomandi að öllum líkindum á Hornbrekku. 

Segjum betur frá því þegar nær dregur.

(KHG.)

Ennfremur á Facebooksíðu klúbbsins.