Fréttir

5.1.2018

Í lok krossatímabilsins.

Þann 6. janúar lýkur jólunum og er þá víða miðað við að taka ljós sem tilheyra jólahátíðinni úr sambandi.

Þannig er það með krossana og jólatréð í kirkjugarðinum, en kannski ekki alveg nákvæmlega þann dag,  heldur er gjarnan horft til hvernig stendur á helgi.  Eins og t.d. núna, en það hefur verið ákveðið að slökkva  sunnudagskvöldið 7. janúar.

Það eru því að verða síðustu forvöð fyrir síðuritara að fjalla um krossana að sinni og vill hann gjarnan koma smá fróðleik um krossana að, ásamt myndum.

Þegar rótarýklúbburinn keypti upp efnislagerinn af Reykjalundi/Múlalundi a sínum tíma, fylgdi því að þá þurftu félagar  fara í að útbúa krossana sjálfir og er það enn gert og hefur verið  gert býsna lengi.  Í krossana eru notuð sérstök -  hvít plaströr sem eru reyndar ekki framleidd lengur, en þó náðust samningar við röraverksmiðjuna Set á Selfossi um að framleiða 60 metra u.þ.b. 10 ára notkun af þessum rörum nú fyrir jólin.  Rörin eru svo brædd saman eftir kúnstarinnar reglum og í þau settar fattningar fyrir perurnar og svo snúra í þær og þannig er krossinn svo tengdur við rafmagnskaplana sem liggja í garðinum.

Ármann Þórðarson hefur haft krossasmíðina með höndum, lengi, lengi, jafnvel frá því klúbburinn tók við þessum verkum.  Hefur honum vitanlega farist það vel úr hendi enda nostrað við hvern hlut þannig að gallalaus verði.  Það kemur svo líka fyrir að krossar brotna og er leitað til Ármanns um að gera við þá.  Ármann er búinn að útbúa sig vel fyrir þetta heima og náðust tvær af  meðfylgjandi myndum á síma þegar Ármann var í viðgerðum á dögunum.

Það er svo rétt að geta þess í lokin að klúbburinn taldi rétt að viðhalda verkþekkingunni og hafa fleiri en einn félaga tilbúinn í þessa vinnu.  Haukur Sigurðsson lærði þessa kúnst af Ármanni nú um jólin og mun svo í framhaldinu taka við keflinu einhvern tímann í rólegheitunum.

Meira um málið á Facebook síðu Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar.

Drónamynd:  Magnús G. Ólafsson.