Fréttir

4.12.2017

Saga ljósanna í kirkjugarðinum í Ólafsfirði.

Eftirfarandi samantektir bárust umsjónarmanni síðunnar nú á dögunum.
Þar er farið yfir sögu ljósanna í kirkjugarðinum.

Jólatréð í Ólafsfjarðarkirkjugarði.

Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar hefur alla tíð frá árinu 1978 sett upp jólatré í garðinn.

Kveikt var á því venjulega eftir síðasta fund fyrir jól, að fundi loknum var kveikt á trénu og sungið Heims um ból.

Þessi siður var svo aflagður og farið að kveikja nokkru fyrr.  Nú er haldin helgistund í garðinum, kirkjukórinn syngur jólasálma og sóknarpresturinn flytur hugvekju og bæn.

Allar perurnar á trénu er hvítar að því undanskyldu að ein pera á toppi jólatrésins er rauð.

Á fyrstu árunum, var lítið notað af kertum en þar hefur orðið mikil aukning.  Kveikt er á kertunum á aðfangadag og gamlársdag, all nokkrar skreytingar með grenihríslum tíðkast.

Upphaf lýsingar í kirkjugarðinum í Ólafsfirði.

Það mun hafa verið um 1960 sem farið var að setja rafmagnsljós á leiði í kirkjugarðinum.

Á fyrstu árunum voru settir upp trékrossar með sex ljósum.  Perurnar voru 15 Wött – 220V.

Miklir erfiðleikar voru að ná í rafurmagn, vegna þess að ekkert rafurmagn var í garðinum.  Þess vegna varð að fá það úr götuljósastaur sem var rétt við garðinn.  Þetta tókst og settir voru upp 15 krossar í upphafi.

Stundum var miklum erfiðleikum háð að halda ljósum á krossunum.  Það fór eftir veðráttu hvernig það gekk.  Svo fór krossunum fjölgandi og munu Þeir hafa verið 20-25.  Þar sem viðhald var mikið og búnaður ekki nógu góður var hætt að nota þá milli 1970-1980.  Það voru þó, nokkrir krossar notaðir af og til.

1980 voru svo teknir í notkun plastkrossar sem framleiddir voru á Reykjalundi.  Nú var komið hús í garðinn og rafmagn og notaður var spennir 32V.  Í upphafi voru settir 25-30 krossar.  Um framkvæmd sáu Magnús Sigursteinsson bifvélavirki,  Hilmar Tryggvason málari og Albert Magnússon,  þeir héldu þessu áfram til 1992 en þá voru 150 krossar í notkun.

1992 tók svo Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar við og hefur það enn.  Nú um jólin (2005)  voru settir upp 250 stk.

Rótarýklúbburinn hefur lagt rafmagn um garðinn.

Heimildir:

Magnús Sigursteinsson

Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar

Magnús Stefánsson rafvirki, sem sá um fyrstu raflýsingu í kirkjugarðinum.

Samantekt:

Magnús Stefánsson, rafverktaki – Ólafsfirði 5/3 ‚2005.

Ljósmyndir:  K,Haraldur Gunnlaugsson.