Fréttir

21.9.2017

Umdæmisstjóri í Ólafsfirði.

Nýr umdæmisstjóri  rótarýumdæmis 1360 þ.e. þess íslenska Knútur Óskarsson var viðstaddur  hátíðarfund ásamt eiginkonu sinni Guðnýju Jónsdóttur hjá Rótarýklúbbi Ólafsfjarðar í kvöld fimmtudaginn 21. september, ásamt mökum klúbbfélaga og einum gesti.  Áður hafði hann fundað með stjórn klúbbsins, þar sem farið var yfir ýmis mikilvæg mál.

Fundurinn var  hefðbundinn í byrjun; borðhald, forseti setti fund formlega, ritari fór  yfir mætingu og las fundargerð síðasta fundar.

Af þeim atriðum loknum var komið að erindi og  gaf Ave Kara Sillaots, forseti klúbbsins Knúti orðið.

Knútur hélt fróðlegt erindi um svo til allt sem tilheyrir Rótarýhreyfingunni, bæði í nútíð og framtíð.

Fram kom í máli hans hver einkunarorð heimsforsetans Ian H.S Risley, en þau eru Rotary Making a Difference, en þau hefur Knútur þýtt og eru þau „Rótarý hefur áhrif“.  Þema Knúts fyrir starfsárið er hins vegar „Kannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur“  - framtíð barna í flóknu samfélagi.

Eftir að hafa farið yfir helstu alheimsmál hreyfingarinnar, snéri Knútur sér að starfinu hér heima fyrir, fór yfir markmið sín og kom þar fram að Rótarýdagurinn verður haldinn um allt land 24. febrúar 2018.

Það má  segja að erindi hans hafi verið innblásið af hvatningu til Rótarýfélaga, auk þess sem hann fór lofsamlegum orðum um starfsemi klúbbsins okkar  á mörgum sviðum samfélagsins.  

Í lok erindisins afhenti hann  Hauki Sigurðssyni fyrrverandi forseta merki og fána starfsárins, en Haukur hafði tekið við fundarstjórn, þar sem Ave forseti þurfti að yfirgefa fundinn skömmu áður.


Þegar öðrum hefðbundnum fundarliðum var lokið, þökkuðu rótarýfélagar og gestir þeirra þeim hjónum komuna og ánægjulega kvöldstund.



Texti og myndir: K.Haraldur Gunnlaugsson.  Merki starfsárs af www.rotary.is