Skíðastökkpallurinn málaður.
Eins og margir vita er skíðastökkpallur eitt af einkennum Ólafsfjarðar, mjög sérstök bygging sem vekur mikla eftirtekt þeirra sem leið eiga um miðbæinn.
Viðhald og umhirða hans er eitt af samfélagsverkefnum sem Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar hefur haft á sinni könnu síðustu áratugi.
Í fyrrahaust var unnið við að endurnýja skrautlýsingu á pallinum en nú í sumar var komið að því að mála hann og snurfusa. Nokkur undanfarin síðdegi hafa félagar, einkum í Skíðapallsnefnd klúbbsins unnið við að skrapa hann og gera hann kláran undir málningu. Það var svo vinnufundur seinnipartinn í dag, þar sem klúbbfélagar komu saman og máluðu hann. Tókst bara nokkuð vel til með það og er hann nú aftur orðinn sú bæjarprýði og kominn á þann stall sem honum ber.
Það var íþróttafélagið Leiftur sem stóð fyrir byggingu skíðastökkpallsins og hófst hún fyir 50 árum, eða 1967. Pallurinn var mikið notaður fyrstu áratugina, aðallega af æsku Ólafsfjarðar, enda áhugi á skíðastökki mikill í bænum og Ólafsfirðingar annálaðir stökkmenn í gegnum tíðina.
Fyrir rúmum tveimur áratugum lagðist skíðastökk því miður af sem keppnisgrein á Íslandi. Enn eru þó til menn sem kunna þessa list í Ólafsfirði og stökkva sumir af og til. Það hafa þó undanfarin ár verið fundin ný not fyrir pallinn, en á þjóðhátíðardaginn hvert ár er honum breytt í stærstu og bröttustu vatnsrennibraut, allavega á Íslandi, jafnvel í Evrópu
Flykkist þá yngri kynslóðin víða að af landinu í brautina og vekur ferð niður hana jafnan mikla hrifningu þeirra sem prófa.
Texti og myndir: K.Haraldur Gunnlaugsson.