Fréttir

8.6.2017

Sýning verður til.

Á fundi klúbbsins í kvöld voru óvenju margir gestir, eða 6 að tölu.  Flestir þeirra eða 4, eru í bænum á vegum safnafélagsins Fjallasala ses,  sem stendur að uppbyggingu safnahúss í svonefndu Pálshúsi og áður hefur verið fjallað um á þessari síðu.

Í Pálshúsi er verið að koma upp sýningu sem byggir að stærstum hluta á fuglasafninu sem var á efstu hæð bankahússins, en hefur nú verið fjarlægt þaðan.  Sýnig sú mun verða nýmóðins og þrívíddartækni og fleiri atriði sem gera ásýnd hlutanna enn stórfenglegri en hún kannski er,    óspart notuð.  Þá mun flugþörf mannsins og saga flugsins  verða samtvinnuð fuglunum og náttúrunni.  

Það voru einmitt hönnuðir sýningarinnar þeir Þórarinn Blöndal og Finnur Arnar Arnarson sem höfðu orð fyrir hópnum og kynntu og sýndu myndir af verkefninu, ásamt því að segja frá verkefnum sem þeir höfðu áður unnið að, eins og t.d. gerð líkans af Aðalstræti í Reykjavík.

Á laugardaginn 10. júní mun fyrsti hluti Pálshúss verða opnaður við hátíðlega athöfn og opnað almenningi í leiðinni.  Áðurnefnd fuglasýning og myndlistarsýning Kristján G. Jóhannssonar verða það fyrsta sem boðið verður uppá.    Í framtíðinni er svo ráðgert að setja upp fleiri sýningar/söfn, eins og áður hefur komið fram.

Rétt er að geta þess að Fjallasalir ses, er samtök sjálfboðaliða sem tók að sér það viðamikla verkefni að endurbyggja eitt elsta húss bæjarins – Pálshús, (sem síðast hýsti bygginga og útgerðavöru verslunina Valberg) með það að markmiði að koma upp safnahúsi í bænum.  Hefur það tekist með ótúlegri seiglu og hafa tiltölulega fáir einstaklingar í sjálfboðavinnu unnið þar kraftaverk og er þeim og íbúum sveitarfélagsins færðar árnaðaróskir og vinnufólkinu sérstakar þakkir fyrir framtakið.

Texti og myndir:  K.Haraldur Gunnlaugsson.