Fréttir

4.5.2017

Rótarýdagurinn 2017.

Haldinn á Íslandi  laugardaginn 6. mai n.k.

Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar mun í tilefni dagsins standa fyrir kynningu á Rótarýhreyfingunni  á Kaffi Klöru á milli kl.  13 og 15 n.k. laugardag.

Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar eins og aðrir Rótarýklúbbar á Íslandi mun sem fyrr segir kynna starf Rótarýmanna, bæði í klúbbnum hér í Ólafsfirði; í íslenska umdæminu sem og alþjóðahreyfingunni.  

Á vefsíðu Rótarýumdæmisins segir  umdæmisstjóri; Guðmundur Jens Þorvarðarson í tilefni dagsins m.a. “  Það var ekki í anda Rótarýhreyfingarinnar hér áður fyrr að bera verkefni sín á torg og upplýsa almenning um að Rótarýhreyfingin væri að láta gott af sér leiða.  Þetta hefur breyst og nú hin síðari ár hefur Rótarýhreyfingin orðið sýnilegri og má víða í heiminum sjá verkefni, sem hreyfingin hefur átt þátt í að framkvæma.

Ég legg áherslu á að klúbbarnir noti þennan dag til að kynna Rótarýhreyfinguna. Hvert er hlutverk hennar og tilgangur. Það hefur löngum verið mörgum utanaðkomandi ráðgáta hvert er hlutverk Rótarý.”



Það á sum sé að reyna að bæta úr þessu á laugardaginn.  Það verður gert  með því að sýna t.d. ljósmyndir úr starfi klúbbsins og afrit gamalla fréttabréfa verða á staðnum.  Vefsíða Rótrýumdæmisins og klúbanna, sérstaklega þó klúbbsins hér í Ólafsfirði verða kynntar.  


Þá verður vitanlega farið yfir þau fjölmörgu samfélagsverkefni sem Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar stendur fyrir og hefur  staðið fyrir í gegnum tíðina.  Skemmtinefnd klúbbsins verður á staðnum og flytur a.m.k. hluti hennar tónlist af írskum uppruna.



Á Kaffi Klöru verður svo eins og ætíð fjölmargt í boði til að gleðja bragðlaukana.

 Við hvetjum alla til að mæta og kynna sér starf Rótarý, fá sér kaffi og með því.



Texti:  K.Haraldur Gunnlaugsson.  Myndir:  KHG, frá Rótarýdeginum 2016.