Fréttir

9.3.2017

Enn koma gestir með fyrirlestra.

Þorbjörn Sigurðsson yfirhafnarvörður Fjallabyggðahafna var gestafyrirlesari fundarins 9. mars á vegum Starfsþjónustunefndar, sem sér um erindin þennan mánuð.

Í upphafi erindisins fjallaði Þorbjörn  einkum um höfnina í Ólafsfirði, hversu miklu máli hún hafi skipt fyrir uppbyggingu samfélagsins í Ólafsfirði og svo breytta tíma.  Hann nefndi tölur um landaðann afla í Ólafsfirði árin 2015 og 2016 og kom fram að hann hafi dregist verulega saman á seinni árum.  Í máli hans kom fram að hafnarmannvirki í Ólafsfirði eru í góðu standi og tilbúin fyrir nýja starfsemi sem komið hefur til tals að undanförnu.

Í sameinuðu sveitarfélagi, Ólafsfjarðar og Siglufjarðar – Fjallabyggð eru annars  reknar tvær hafnir, hvor á sínum stað.     Fór Þorbjörn yfir rekstur þeirra í erindi sínu, ásamt að segja frá viðhaldi og endurbótum sem unnið hefur verið að undanfarið ásamt fleiri þáttum.  Ýmist í erindinu sjálfu eða í svari við fyrirspurnum klúbbfélaga.  

Fram kom m.a. að í viðhaldsmálum var endurgerð Hafnarbryggjunnar á Siglufirði lang stærsta verkið sem unnið var að á síðustu árum.  Bryggjan var stækkuð þannig að ný stálþil voru rekin niður út frá gömlu þiljunum og bryggjan stækkuð umtalsvert , flatarmál nýju bryggjunnar er nálægt því að vera tæplega tvöfallt flatarmál þeirrar gömlu.  Norðan við bryggjuna var einnig ráðist í þó nokkra landfyllingu, sem er hugsuð til síðari nota.  Bryggjan var endurvígð í september á síðasta ári eftir stækkunina og betrumbæturnar sem unnið var það ár.  Þó búið sé að endurvígja bryggjuna og hún komin í notkun, er endurbótunum ekki að fullu lokið.  Eftir er að fullklára þekjuna og er gert ráð fyrir að því verki verði lokið í sumar.  Búið er að bjóða út verkið og er kostnaðaráætlun 99 milljónir.  Tilboð hafa borist í verkið og er það lægsta  74 milljónir,  það er þó ekki búið að ganga frá samningum við verktaka..

Hann sagði frá komum skemmtiferðaskipa í höfnina á Siglufirði, en þeim skipum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og er búist við nýju meti á þessu ári.  Eða 35 viðkomum 10 skipa.

Þorbjörn kom inn á ýmislegt fleira en hér hefur verið nefnt og svaraði fjölmörgum spurningum klubbfélaga í lokin.   Erindið var hið fróðlegast og ýmislegt í því sem kom okkur staðkunnugum mönnunum á óvart.



Texti og myndir:  K.Haraldur Gunnlaugsson.