Fréttir

3.3.2017

Skemmtileg tilbreyting.

Eins og lesendur þessarar síðu hafa kannski tekið eftir hafa verið fróðleg og skemmtileg erindi á fundum undanfarið. Fundurinn 2. mars var þar engin undantekning, því þá var sýnd kvikmynd sem einn af meðlimum klúbbsins, Lára Stefánsdóttir skólameistari er einn af höfundum að. Myndin heitir „Náttúrbarnið“ og byggir á ævintýri sem Lára samdi upphaflega fyrir barnabörnin sín. Þau vildu alltaf heyra meira og meira þannig að í nokkur ár hefur hún verið að semja söguna áfram. Síðast liðið sumar byrjaði hún síðan að vinna kvikmyndina með Alkistis Terzi grískri kvikmyndagerðarkonu sem hefur dvalið í Listhúsinu í Fjallabyggð sem Alice Liu Rótarýfélagi okkar rekur. Myndin er tekin í Fjallabyggð það er að segja Ólafsfirði og Siglufirði.

Kvikmynd þessi var sýnd á “Skammdegi festival ” fyrr í vetur, en hátíðin er árleg fjölþjóðleg listahátíð sem Listhúsið í Fjallabyggð stendur fyrir á vetrum. Myndin er enn í vinnslu enda þykir Láru vinnsluferlið skemmtilegast og er ekki upptekin af verklokum. Auk þess að semja söguna er Lára sögumaður í myndinni, auk þess samdi hún tónlistina, texta og söng einnig ásamt Lísebetu Hauksdóttur og Magnúsi G. Ólafssyni sem einnig er í Rótarýklúbbnum okkar.


Nokkur hópur fólks kom að myndinni og má nefna: Alkistis Terzi leik- og upptökustjóri, Hrönn Helgadóttir listljósmyndari, Ioanna Keraso dansari, Ave Kara Sillaots harmonikkuleikari og Magnús G. Ólafsson,

tónlistarmaður. 


Í máli Láru eftir sýningu myndarinnar kom fram að frekari vinna er fyrihuguð við fyrsta hluta myndarinnar. Leikstjórinn hin gríska Akistis Terzi er væntanleg til Ólafsfjarðar í næstu viku og er þá stefnan að halda áfram vinnu við myndina. Láru og myndinni var að sjálfsögðu vel tekið að aflokinni sýningu og vonast klúbbfélagar eftir að fá að fylgjast með frekari sporum Láru á þessari braut.

Á vefsíðunni  http://skammdegifestival.com  er svo hægt að fræðast um listahátíðina sem nefnd er til sögunnar.


Texti:  K.Haraldur Gunnlaugsson.    Ljósmynd af Láru KHG.  Aðrar ljósmyndir "úr kvikmyndinni."