Fréttir

6.2.2017

Fundurinn 2. febrúar;  uppbyggingin á Deplum.

Kristinn Kristjánsson viðburðastjóri  Depla í Fljótum var gestur Alþjóðamálanefndar á fundinum s.l. fimmtudag og hélt hann erindi um nýtt ferðaþjónustufyrirtæki sem rekið er að bænum Deplum í Fljótum.

Það er fyrirtækið "Eleven experience" sem á og rekur "Deplar Lodge" sem e.t.v. útleggst herragarður, eða eitthvað slíkt en það vantar reyndar íslenskt orð sem getur lýst starfseminni. Þetta er a.m.k. ekki hótel, s.k.v. skilgreiningu eigandanna http://elevenexperience.com/

Eleven experience er alþjóðlegt ferðaþjónustufyrirtæki sem er innan "lúxus-ferðaþjónustunnar".

Uppbyggingin á Deplum þekur 2.600 fermetra og þarna eru 13 herbergi. Sagði Kristinn þetta vera svipað að flatarmáli og Sigló-hótel sem er með 64 herbergi. Búið að leggja um 3 milljarða í uppbygginguna.

Nefndi Kristinn að mikið væri búið að bóka á þessu ári. Tveggja manna herbergi, með þriggja rétta kvöldverði og víni með, morgunmat, aðgengi í "spa-ið" o.s.f.r.v.. kosti um kr. 80.000. 

Mun dýrara ef fólk kaupir afþreyingarpakkann, t.d. þyrluflug, hestaferðir, o.s.f.r.v.

Þjónustunni er skipt niður á 2 tímabil; annars vegar er það veturinn hvar skíðin og allt sem þeim viðkemur, er alls ráðandi.  Setrið á einnig  10 vélsleða, snjótroðara og allt sem tilheyrir skíðum og skíðamennsku,  á það jafnt við um göngu, svig og  fjallaskíði.

Hitt tímabilið er sumarið, en þá er meiri eftirspurn eftir veru þar. „Allt til veiði, einnig eru þar  til kajakar, þá er boðið upp á hestaferðir, fjallahjól og láttu þér bara detta það í hug, og það er til staðar“ sagði Kristinn.

 Bauð hann klúbbnum að koma í heimsókn og skoða herlegheitin, ásamt húsinu sem búið er að gera upp frá grunni á Hreppsendaá, en Hreppsendaá er innsti bær í Ólafsfirði, við rætur Lágheiðar sem skilur að Ólafsfjörð og Fljót.

Reikna klúbbfélagar  með að þiggja boðið og að farið verði í heimsóknina nú í febrúar, ef veður leyfir.

Erindið var hið fróðlegasta í alla staði. Í kjölfarið var Kristinn spurður nánar útí ákveðna þætti uppbyggingarinnar og fjárfestinganna í Fljótum. 

Texti og mynd af fyrirlesara; Ásgeir Logi Ásgeirsson, aðrar myndir fengnar af vef fyrirtækisins.