Fréttir

28.1.2017

Erindi um Pálshús.

Á fundinum, fimmtudagkvöldið 26. janúar flutti klúbbfélaginn Þorsteinn Ásgeirsson erindi um Pálshús og uppbygginguna þar.  Þorsteinn er stjórnarmaður í félögunum:  Hollvinir Pálshús og Fjallasalir SES, sem að nefndri uppbyggingu standa.

Félög þessi eru sjálfboðaliðasamtök sem standa að uppbyggingu safnamála i Ólafsfirði.  Þorsteinn rakti í byrjun forsögu málsins og fór þar á eftir yfir þær hugmyndir sem uppbygging þessi snýr að.

Pálshús sem er eitt af elstu húsum Ólafsfjarðar er nefnt eftir Páli Bergssyni sem var einn af athafnamönnum fjarðarins í byrjun tuttugustu aldar.  Páll byggði hús  sem stendur við Strandgötu 4, ásamt konu sinni og hefur húsið alla tíð hýst þjónustu af einhverju tagi,  nú síðast byggingavöruverslunina Valberg sem starfrækt hefur verið þar, síðustu áratugi.  Nú er þeirri starfsemi að ljúka og mun húsið verða „Safnahús Ólafsfjarðar“. 

Sagði Þorsteinn frá því að nú um stundir er verið að lagfæra innanhúss og gera húsið  klárt fyrir að taka við náttúrugripasafninu sem verið hefur í rishæð hússins sem Arionbanki á nú.  

Safninu verður breytt nokkuð og gert „líflegra“ en bara uppstoppuð dýr.  Margmiðlunartækni verður notuð og ýmislegt gert til að fræða fólk um það sem fyrir augu ber. Reistur verður sérstakur sýningarveggur þar sem gripunum verður komið fyrir. Er vonast til að lokið verði við uppsetningu safnsins í vor og nefndi Þorsteinn Sjómannadaginn sem hugsanlegan opnunardag náttúrugripasafnsins. 

Náttúrugripasafnið þarf einungis hluta hússins, en fyrirhugað er að nota allt pláss sem í boði er í sýningarstarfsemi einhverskonar.  Ýmsar hugmynir eru uppi í því sambandi, eins og t.d. að hafa safnabúð í vesturhluta neðri hæðar þar sem verslunin Valberg er nú.  Hugur fólks stendur til þessa að gera glæstri skíðasögu Ólafsfirðinga einhver skil.  Þar að auki standa vonir til þess sett verði upp jólasveinasafn einstaklings í bænum,  í kjallara hússins.

Tíminn verður svo að leiða í ljós hvernig þeim áformum miðar áfram.  En óhætt er að segja að klúbbfélagar hafi fylgst vel með erindi Þorsteins  og sýnt því verulegan áhuga, eins og reyndar bæjarbúar flestir.

Texti:  K.  Haraldur Gunnlaugsson.  Myndir fengar úr kynningarbæklingi hönnuða  (Þórainn Blöndal - Finnur Arnar) og af facebook síðunni: " Hollvinir Pálshús".