Fréttir

13.11.2016

Rótarýsamkoma í Mývatnssveit.

Eins og áður hefur verið  nefnt hér á þessari vefsíðu hefur  sameiginlegur fundur rótarýklúbbanna frá Sauðárkróki í vestri að Neskaupsstað í austri, verið á teikniborðinu.   Í gærkvöldi, laugardagskvöldið 12. nóvember varð hugmyndin að veruleika á Hótel Seli í Mývatnssveit.  Á fundinn mættu félagar í klúbbunum á svæðinu, með mökum sínum.  Að vísu áttu menn frá Nesskaupsstað ekki heimangengt að þessu sinni.

Samkoman  hófst á því að fólk kom saman í anddyri hótelsins og þaðan var svo lagt upp í  kynnisferð og náttúruskoðun í nágrenni Skútustaða undir leiðsögn  fjölfróðs heimamanns.  Gengið var eftir göngustígum um nágrennið og niður að vatni, þaðan var svo gengið til kirkju og hún skoðuð.  Leiðsögumaðurinn sagði þar gamansögur af prestum sem þjónað hafa þar undanfarið.  Afar vel heppnaður viðburður.Mývatnsfundur

Að því loknu fór fólk á hótelið, ýmist til að horfa á beina útsendingu á leik Íslendinga og Króata í knattspyrnu sem var í sjónvarpinu, eða til að gera eitthvað allt annað.

Um kl. 19:30 var svo sameiginlegur fundur klúbbanna settur, en það gerði Eyþór Elíasson forseti Rótarýklúbbs Héraðsbúa.  Fór hann yfir aðdraganda þessa sameiginlega fundar og setti síðan Hauk Sigurðsson forseta Rótarýkúbbs Ólafsfjarðar sem veislustjóra og stjórnanda fundarins.Mývatnsfundur

Haukur sem Ólafsfirðingar þekkja sem söngfugl hinn mesta brást ekki sín fólki né öðru, því strax í fyrsta atriði var bæði unnt að hafa tónlist og leikræna tilburði í atriði sem mörg okkar þekkja sem „hangikjötslæri“.  Ekki var annað að sjá og heyra en fólk tæki því vel.

Það gaf svo sannarlega tóninn fyrir skemmtilegt kvöld, því margir félagar stigu á stokk, fóru með gamanmál, kveðskap og fleira.  Jón Hlöðver Áskelsson tónskáld sem er félagi í Rótaryklúbbi Akureyrar gerði „Rótarýbrag“ af þessu tilefni og stjórnaði hann frumflutningi á honum undir laginu „Máninn hátt á himni skín“  Stuttu eftir frumflutninginn var hluti bragsins endurfluttur og dansaður við hann hringdans undir stjórn Þráins Skarphéðinssonar „þjóðlaga dansara“  úr Rótarýklúbbi Héraðsbúa.  Haukur veislustjóri lék á gítar og söng nokkur lög á  milli atriða.Mývatnsfundur

Að lokum var fundi slitið, en fyrsti liður  í því var klúbbsöngur Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar sem félagar klúbbsins sungu ásamt mökum.   Eyþór hélt síðan stutta tölu þar sem fram kom m.a. sá áhugi margra að halda sameiginlega fundi reglulega.  Sagði frá að áfram yrði sungið og sprellað, því auk Hauks væru tveir harmonikkuleikarar í hópnum, Þau Ave Sillatos frá R.kl. Ólafsfjarðar og Jónas Þór Jóhannsson úr R.k.l. Hérðasbúa.  Þar var komin hljómsveit sem leiddi vel heppnaðann  fjöldasöng og söngkeppni á milli borða.Mývatnsfundur

Húsvíkingarnir  fóru til síns heima um kvöldið, þar sem stutt er fyrir þá að fara en þeir sem voru lengra, að komnir héldu til síns heima á sunnudagsmorgni.

Óhætt er að segja að fundur þessi, samkoma, skemmtun eða hvað þetta er kallað, hafi tekist veruleg vel og er sem fyrr segir vonast margir til að þessu verði fram haldið annað hvert ár eða svo.Mývatnsfundur

Texti og myndir:  K. Haraldur Gunnlaugsson.