Búið í haginn.
Félagar í Rótarýklúbbi Ólafsfjarðar sjá sem kunnugt er og áður hefur verið nefnt hér á vefsíðunni, um ljósakrossana í kirkjugarðinum í Ólafsfirði. Hafa þeir yfirleitt reynt að búa í haginn og að auðvelda uppsetningu krossanna á meðan enn er auð jörð. Sérstökum prikum er komið fyrir í jarðveginum, krossarnir eru síðan festir á þau prik.
Nú hagar þannig til að veturinn er ekkert byrjaður að láta á sér kræla, heldur hefur verið einmuna blíða í allt haust. Í morgun laugardaginn, 5. nóvember í haustblíðunni, mættu nokkrir áhugasamir félagar í þá vinnu.
Þegar svo nær dregur jólum eru krossarnir settir á sinn stað og um leið er sett upp jóalatré frá klúbbnum. Það hefur skapast sú hefð að í fyrstu eða annari viku í desember eru ljósin á trénu og einnig krossunum tendruð við mjög hátíðlega stund í garðinum. Segjum vonandi frá því þegar þar að kemur.
Myndir og texti: K.Haraldur Gunnlaugsson.