Af samfélagsverkefnum
Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar hefur í gegnum tíðina ekki látið sitt eftir liggja við að sinna hinum ýmsu samfélagsverkefnum.
Nefnum tvö af fjölmörgum; viðhald og umhirðu á skíðastökkpallinum sem er í brekku sunnan við tjörnina, nálægt íþrótta- og skólasvæðinu, hér um bil í hjarta bæjarins. Hann er sá eini sinnar tegundar á landinu.
Það var annars Íþróttafélagið Leiftur sem stóð fyrir byggingu skíðastökkpallsins fyrir u.þ.b. 50 árum. Fyrir nokkru lagðist skíðastökk af sem keppnisgrein á Íslandi. En þó eru til menn sem kunna þessa list í Ólafsfirði og stökkva sumir af og til.
Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar tók á sínum tíma stökkpallinn upp á sína arma og hafa klúbbfélagar unnið við allt viðhald pallsins á seinustu áratugum og komið fyrir sögu hans í máli og myndum í brekkurótinni neðan við pallinn.
Annað til viðbótar af þeim verkefnum sem vinna þarf að á hverju ári, er umsjón og uppsetning ljósakrossanna á leiðin í kirkjugarðinum. Klúbburinn hefur séð um þá hluti og uppsetningu jólatrés í garðinum í fjölmörg ár.
Nú á haustdögum var einn fundardagurinn tekinn í vinnu við áðurnefnd verkefni. Byrjuðu félagar á að endurnýja ljósaslöngu sem er á ystu brúnum stökkpallsins og gefa honum skemmtilegan svip í svartasta skammdeginu. Þegar því var lokið fluttu félagarnir sig niður í kirkjugarð, sem er að segja beint neðan við stökkpallinn í nokkur hundruð metra fjarlægð. Þar var tekið til við að plægja niður rafstreng til að auðvelda starfið við ljósakrossana þegar þar að kemur.
Texti: K. Haraldur Gunnlaugsson Myndir: Svavar B. Magnússon