Fréttir

22.10.2016

Umdæmisstjóri vísiteraði Ólafsfjörð

Nýskipaður umdæmisstjóri íslenska rótarýumdæmisins Guðmundur Jens Þorvarðarson kom ásamt eiginkonu sinni Svövu Haraldsdóttur á fund Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar fimmtudaginn 20. október.  Jafnframt kom hann til fundarhalda við stjórn klúbbsins.

Fundur hófst á hefðbundin hátt með borðhaldi og vanalegum fundarstörfum eftir það:  Yfirlit mætinga, lestri fundargerðar síðasta fundar, lestur fréttabréfs og kvæði kvöldsins.

Að þeim atriðum loknum gaf Haukur Sigurðsson, forseti Guðmundi Jens orðið.

Guðmundur Jens hélt fróðlegt erindi um nánast allt er viðkemur Rótarýhreyfingunni.  Kynnti hann til sögunnar nýjan alheimsforseta John F.Germ, áherslur og einkunarorð hans sem eru: „Rotary Serving Humanity“.   Á íslensku eru einkunnarorðin einfaldlega: „Rótarý þjónar mannkyni“

Í lok erindis síns fjallaði Guðmundur Jens einkum um starfið í umdæminu hér heima, sagði t.d. frá að Rótarýdagurinn 2017 verður haldinn 6. mai.  Hvatning til góðra verka var aldrei langt undan í máli Guðmundar og má segja að hann leggi ríka áherslu á að nútímavæða hreyfinguna.  Nefndi hann í því sambandi Internetið, vefsíður og slíka hluti og taldi Rótarýklúbb Ólafsfjarðar standa vel á því sviði. 

Í fundarlok afhenti Guðmundur Jens forseta klúbbsins, Hauki Sigurðssyni, fána starfsársins sem er með áletruninni  „Rotary Serving Humanity“ eins og fyrr greinir.  Auk hennar er á fánanum lógó alheimsforseta og  Rótarýhjólið.   Að lokum nældi umdæmisstjóri barmmerki ársins í Hauk forseta.

Að öllu þessu loknu þökkuðu rótarýfélagar og gestir þeirra þeim hjónum fyrir komuna og ánægjulega kvöldstund.

Myndir og texti:  K.Haraldur Gunnlaugsson