Fréttir

11.10.2016

Tilbreyting á rótarýfundi

Fundur var haldinn  hjá Rótarýklúbbi Ólafsfjarðar, fimmtudagskvöldið 6. okóber s.l. á hefðbundnum fundarstað og á hefðbundnum fundartíma.  Tveir gestir voru vidstaddir:  Skúli Pálsson og Linda Lea Bogadóttir, markaðs- og menningarfulltrúi Fjallabyggðar.

Ekkert af þessu er í sjálfu sér í frásögur færandi eitt og sér.

En þegar forseti Haukur Sigurðsson hafði rennt yfir helstu fundaratriði gaf hann Magnúsi G. Ólafssyni í Alþjóðamálanefnd orðið.  Magnús fór  lauslega yfir fundarefnið sem var „Kvikmyndasýningar í menningarhúsinu Tjarnarborg á nýjan leik“.  Forseti tilkynnti því næst að fundarstörfum væri lokið á fundarstaðnum - Höllinni, en yrði framhaldið í Tjarnarborg.

Umræður hafa verið í Ólafsfirði mörg undanfarin ár um starfsemi menningarhúss Fjallabyggðar sem er Tjarnarborg í Ólafsfirði.  Hefur mörgum þótt kjörið tilefni til að endurvekja kvikmyndasýningar í húsinu.  Til þess þarf þó að endurnýja öll tæki sem þarf til kvikmyndasýninga, svo sem sýningartjald og hljóðkerfi.  

Skúlí Pálsson hefur barist fyrir málinu en ekki haft erindi sem erfiði hjá bæjaryfirvöldum, þar sem endurnýjunin  þykir of dýr.

Magnús - fyrirlesarinn, opinberaði á fundinum þá hugmynd sína að nota einungis svalasal Tjarnarborgar sem er hinn eiginlegi bíósalur og koma upp  tjaldi skammt frá svölunum og ýmsum búnaði fyrir mun minni fjármuni en áður hafði verið reiknað með. 

Magnús útbjó vegna erindis síns brábirgða kvikmyndahús í svalasal Tjarnarborgar, notaðist við þokkalega stórt hvítt segl sem hann hengdi upp í rjáfur, nokkra hátalara, skjávarpa og tölvu. Sýndi hann til að byrja með brot af gömlum sjónvarpsþætti, en stillti svo á RUV og horfðu menn á hinn dramatíska leik Íslands við Finna í undankeppni HM 2016 í knattspyrnu.  Tilgangurinn var að sýna fram á hversu einfalt myndi verða að koma á fót fyrirtaks bíói.

Óhætt er að segja að þetta erindi Magnúsar hafi verið feykilega vel heppnað, enda bæði töluverð vinna og metnaður á bakvið það. Búast eflaust einhverjir við að nú verði málinu komið á hreyfingu á nýjan leik.

Myndir teknar á fundinum í Tjarnarborg.          Myndir og texti K.Haraldur Gunnlaugsson.