Fréttir

13.9.2016

Góðir gestir í heimsókn til klúbbfélaga

Sá einstaklingur sem var fyrsti erlendi skiptineminn í sögu Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar kom í lok júlí í stutta heimsókn til Ólafsfjarðar ásamt 18 ára  dóttur sinni, henni Elaine.  Skiptineminn fyrrverandi er Glen Jaross, en hann var hér  á tímabilinu 1977-1978.  Á svipuðum tíma fór Jóhann Hilmarsson fyrstur Íslendinga á vegum klúbbsins til útborgar Chicago, Schaumburg sem er í Illinois eins og heimabær Glens, Sandwich Il.  Dvöl Jóhanns stóð einnig frá 1977 til 1978.  Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar  hefur sem kunnugt er verið  atkvæðamikill í skiptinemastarfinu.

En aftur að heimsókninni. Þau feðgin dvöldust hér í nokkra daga og hittu margt fólk sem Glen hafði haft svolítið af að segja frá árunum áður. Dvöldust þau hjá Ármanni Þórðarsyni og frú, en þeir félagar hann og Óskar Þór ásamt eiginkonum skiptust á um að hafa máltíðir fyrir þau.  Þau hittu fjölmarga klúbbfélaga en því miður hittist þannig á að heimsóknin var í miðju sumarfríi og því engir fundir.

Það var ýmislegt spjallað og rifjað upp eins og gengur og höfðu menn orð á því að það væri drjúgt sem enn lifði eftir af íslenskukunnáttu Glens.

Þau voru ekki sérlega heppinn með veður, a.m.k. ekki hér á Tröllaskaganum, en þrátt fyrir það var farið með þau í gönguferðir.  Valdimar Steingrímsson, fyrrverandi umsjónarmaður gamla Múlavegarins, fór með þeim í göngu í Ólafsfjarðarmúla , þar sem landslagið er þekkt fyrir að vera all hrikalegt og útsýnið stórfenglegt.  Valdimar er án nokkurs efa sá allra fróðasti um örnefni og atburði á þeim slóðum.

Ármann fór hins vegar með þeim í gönguferð í Fossdal, en Fossdalur er ystur Ólafsfjarðardala að vestanverðu,  næstur Hvanndölum.  Það er nokkuð auðveld leið, þægileg að ganga og temmilega löng.  Glen mun hafa haft orð á því að það væri tilkomumikið að sjá Ólafsfjarðarmúlann þeim megin sem leið liggur í Fossdal, einkum hið glæfralega vegarstæði þar sem gamli Múlavegurinn liggur. 

Ármann fór einnig með hann til Akureyrar, þar sem hann hafði verið nemandi í MA á skiptinematímanum , auk þess að dveljast hér. 

Þau feðgin lögðu svo upp í heimferðina eftir að hafa dvalist hér í fjóra heila daga  og tvo hálfa.. Fóru þau vestur um þ.e. Skagafjarðarleiðina því Vestfirðirnir voru næsti áfangastaður.  Frá Vestfjörðum var svo farið til Keflavíkur með viðkomu á Snæfellsnesi og Reykjavík og þaðan til heimalandsins.

Feðginin voru mjög sátt við ferðina og bað Glen fyrir kveðju til allra Rótarýmanna og dóttirin var sérlega ánægð með að hafa fengið að kynnast landinu sem föður hennar finnst „sitt annað föðurland“.

Texti: K.Haraldur Gunnlaugsson          Myndir: Soffía M. Eggertsdóttir, Ármann Þórðarson