Fréttir

17.7.2016

Ný stjórn í klúbbnum

Stjórnarskiptafundur var haldinn í Rótarýklúbbi Ólafsfjarðar fimmtudaginn 7. júlí í Menntaskólanum á Tröllaskaga, á síðasta fundi fyrir sumarfrí samkvæmt hefð.

Fundurinn var nokkuð hefðbundinn framan af þ.m.t. að forseti setti fund og bauð gesti, sem voru að stofni til makar klúbbfélaga, velkomna.

Eftir hefðbundna fundardagskrá var svo komið að stjórnarskiptunum. Fráfarandi forseti Ásgrímur Pálmason fór yfir liðið starfsár í nokkurs konar annál sem var um margt forvitnilegur og lýsti ágætlega gróskumiklu starfi klúbbsins.  Þá tók Haukur Sigurðsson við forsetakeðjunni úr höndum fráfarandi forseta.  Haukur fór yfir helstu mál sem hann hefur áhuga á að koma í framkvæmd, svo sem að fjölga klúbbfélögum með því að fá yngra fólk til liðs við okkur félagana sem eru að eldast eins og gengur.  Nefndi Haukur að hann vildi gjarnan fá fólk af

báðum kynjum.  Þá nefndi hann áhuga sinn á að hlúa betur að trjáreit klúbbsins en verið hefur undanfarin ár.  Fór hann yfir samfélagsverkefni sem í gangi eru og einnig hverju bæta mætti við.  Í máli Hauks kom ennfremur fram að klúbburinn stendur mjög vel fjárhagslega nú um stundir.

Nýja stjórn klúbbsins skipa: Haukur Sigurðsson, forseti, sem fyrr greinir, Ava Kara Sillatos, varaforseti, Guðbjörn Arngrímsson, gjaldkeri, Þorsteinn Ásgeirsson, ritari, Alice (Shok Han Liu), stallari. Ásgrímur Pálmason er svo sem fyrr getur fráfarandi forseti.

                                                                                                                             Texti og myndir K.Haraldur Gunnlaugsson.