Fréttir

20.6.2016

Ljósmyndasýning í Ólafsfirði

Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar hefur undanfarin ár sett upp ljósmyndasýningar á og við Menningarhúsið Tjarnarborg. Fimmtudaginn 16. júní s.l.var sett upp ný sýning.

Fyrir á klúbburinn safn ljósmynda af aurskriðunum miklu sem urðu í ágúst 1988.  Þá er einnig til safn sem fjallar um íþróttafélagið Leiftur og aðdraganda og veru þess í úrvalsdeildinni í knattspyrnu.  Þau söfn eru þó ekki uppi við nú um stundir.

Myndir þessar eru prentaðar á sérstakan dúk og límdar á álplötur og eru mjög varanlegar og þola öll veður.

Að þessu sinni eru myndir af óvenjulegum stöðum í bænum og firðinum og er settur upp nokkurs konar ratleikur um fjörðinn og bæinn.  Þá er einnig varpað fram nokkrum spurningum sem vert er að vita svörin við.

Tilgangur þessara mynda er eins og fyrr að auðga mannlífið í miðbænum og vekja athygli gesta á því sem vert er að skoða.

                                                                                         Texti:  K.Haraldur Gunnlaugsson.  Myndir:  Alda María Traustadóttir.