Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar 60 ára
Afmælishóf haldið á Rótarýdaginn
Þann 15. apríl n.k. verða liðin 60 ár frá því Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar var stofnaður og var af því tilefni efnt til afmælisfagnaðar í menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði á Rótarýdaginn 28. febrúar. s.l.
Flestir núverandi og einnig fyrrverandi félagar ásamt gestum sóttu fagnaðinn. Einnig komu nokkrir félagar úr Rótarýklúbbi Akureyrar og samglöddust heimamönnum. Guðbjörg Alfreðsdóttir, umdæmsstjóri, og eiginmaður hennar Ásmundur Karlsson sóttu einnig samkomuna.
Lára Stefánsdóttir, forseti, setti fund og stjórnaði á nokkuð hefðbundinn hátt framan af. Þegar líða tók á kvöld fjölgaði dagskráratriðum vegna afmælisins.
Þorsteinn Þorvaldsson, formaður afmælisnefndar, fór yfir sögu klúbbsins, Guðbjörg Alfreðsdóttir, umdæmisstjóri, hélt stutta tölu og afhenti Láru forseta skjöl varðandi starf klúbbsins. Stefán Steindórsson frá Rótarýklúbbi Akureyrar færði klúbbnum bókargjöf í tilefni afmælisins.
Hápunktur kvöldsins hlýtur að teljast þegar tveir af stofnfélögum klúbbsins voru kallaðir fram og farið yfir framlag þeirra til klúbbsins í gengum árin, auk þess sem þeir fengu afhenta blómvendi sem örlítinn virðingarvott fyrir starf þeirra í þágu Rótarý. Þetta eru þeir Magnús Stefánsson og Jón Ásgeirsson, einu eftirlifandi stofnfélagarnir.
Þess má einnig geta að Magnús Stefánsson er enn virkur félagi og mætir á flesta fundi og viðburði sem klúbburinn stendur fyrir.
Stofnfélagarnir Magnús Stefánsson og Jón Ásgeirsson, Guðbjörg Alfreðsdóttir, umdæmisstjóri, Þorsteinn Þorvaldsson, formaður afmælisnefndar og Lára Stefánsdóttir, forseti klúbbsins.
Á milli dagskrárliða sungu félagar í Rótarýkvartettnum ýmist einir og sér eða stóðu fyrir fjöldasöng.
1370 myndum sem eingöngu snertu starf klúbbsins og Svavar B. Magnússon hefur tekið í gegnum árin, var varpað á bíósýningartjald hússins þegar færi gafst vegna dagskrárliða á sviði. Auk þess sem nokkrir tugir mynda frá Ármanni Þórðarsyni, teknar á árshátíðum og ferðalögum fyrri ára, flutu með.
Eftir að fundi var slitið hélt skemmtunin áfram undir stjórn Ásgeirs Loga Ásgeirssonar. Komu þar ýmsir fram með ýmislegt grín og að endingu vara stiginn dans fram eftir nóttu.
Er það mál manna að dagskrá þessi hafi tekist sérlega vel.
Karl Haraldur Gunnlaugsson