Fréttir

30.9.2009

Heimsókn Umdæmisstjóra og Rótarýklúbbs Ísafjarðar

Umdæmisstjóri og Rótarýklúbbur Ísafjarðar, ásamt mökum, komu í heimsókn til Ólafsfjarðar helgina 11 – 13 september.

Umdæmisstjóri og Rótarýklúbbur Ísafjarðar, ásamt mökum, komu í heimsókn til Ólafsfjarðar helgina 11 – 13 september. Á föstudeginum voru ferðalangar að mestu að koma sér fyrir, en gist var í heimahúsum hjá Rótarýfélögum á Ólafsfirði.

Á laugardeginum kl. 10.30 var byrjað að skoða Náttúrugripasafn Ólafsfjarðar og síðan var farið í heimsókn til Sigurjóns Magnússonar. Fyrirtæki Sigurjóns framleiðir sjúkra og slökkvibíla, fyrir innlendan og erlendan markað, ásamt því að smíða báta og heitapotta úr trefjaplasti.

Súpa var í hádeginu á veitingastaðnum Höllinni og stjórn Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar fundaði með umdæmisstjóra.

Kl. 13.00 var lagt af stað í hringferð um fjörðinn fagra og fyrsti viðkomustaður var Kvíabekkjakirkja. Þar fór Óskar Sigurbjörnsson yfir sögu staðarins og sagði félögum draugasögu, því alkunnt er, að reimt er á Kvíabekk. Ave Tonisson tónlistarkennari og kórstjóri spilaði síðan á kirkjuorgelið og tók mesta kuldahrollinn úr fólki eftir draugasögur Óskars.

Næsti viðkomustaður var Hitaveita Ólafsfjarðar. Við holu 13 tók á móti hópnum hitaveitustjórinn okkar, Ingvi Óskarsson og gaf mönnum romm í heitu vatni og má segja að síðasti hrollurinn (eftir draugasögurnar Óskars) hafi farið úr mönnum.

Kúrsinn var síðan tekin á Kleifarnar, en þar tók á móti hópnum Óskar Finnsson. Óskar Finnsson (pabbi hitaveitustjórans) er borin og barnfæddur á Ytriá á Kleifum, en þar bauð hann upp á hákarl, brennivín og harðfisk. Eftir þessa sérlega góðu veitingar og skemmtilegu ferð, var síðan keyrt niður í Ólafsfjörð.

Hátíðarfundur hófst síðan með Umdæmisstjóra, Rótarýfélögum og gestum með borðhaldi á Höllinni kl. 19.00. Á hátíðarfundinum voru hefðbundin fundarsköp og síðan boðið upp á skemmtidagskrá, fjöldasöng og gamansögur. Ave Tonisson harmonikkuleikari, spilaði á harmonikku tvö lög frá heimalandi sínu Eistlandi, fundi slitið kl. 23.00.

Á sunnudeginum var ákveðið að hittast í Ólafsfjarðarkirkju, en þar tók sóknarprestur Ólafsfirðinga og Rótarýfélagi Sigríður Munda á móti gestum okkar. Sigríður Munda sýndi gestum okkar kirkjuna og fór yfir sögu hennar og var með hugvekju, ásamt því að Sofía Eggertsdóttir spilaði fyrir gesti.

Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar þakkar gestum sínum fyrir góða helgi, góðan fund og Óskari (viskubrunni) Sigurbjörns, sem fór á kostum, sem leiðsögumaður um fjörðinn fagra. Þegar gestir okkar kvöddu, skartaði Ólafsfjörður sínu fegursta, sól og sumaryl og þó kominn væri 12 september.

Ljósmyndir frá deginum