Fréttir

24.3.2009

Árangursríkur fundur formanna nefnda Rótarýumdæmisins

Erlendir aðilar telja íslensku vefsíðuna eina þá bestu innan Rótarýhreyfingarinnar

 

Umdæmisstjóri, Ellen Ingvadóttir, hélt í gær, 23. mars, fund með formönnum nefnda Rótarýumdæmisins en fundinn voru einnig viðstaddir fyrrverandi umdæmisstjórar, Sveinn H. Skúlason verðandi umdæmisstjóri sem hefur stýrt skrifstofu umdæmisins í vetur í fæðingarorlofi Margétar Ríkharðsdóttur og Sigurður R. Símonarson, umdæmisleiðbeinandi sem ræddi m.a. um komandi umdæmisþing 5. og 6. júní nk. á Hótel Loftleiðum. Sigurður velti m.a. upp þeirri spurningu til fundarmanna hvort rétt væri að færa umdæmisþingið fram í janúarmánuð, á miðju starfstímabili umdæmisstjóra. Nokkur forföll voru í mætingu nefndarformanna, flest af gildum rökum, en fyrst talaði Birna Bjarnadóttir, sem er formaður starfshópaskiptanefndar, þá Ólafur Ólafsson formaður vefsíðunefndar, en vefsíða umdæmisins, rotary.is, er að verða í því formi sem stefnt var að í upphafi. Fram kom að vefsíðan er með þeim betri sem þekkist í Rotaryhreyfingunni. Aðrir sem fluttu stuttar skýrslur voru Skúli Valtýsson formaður styrktar- og verðlaunasjóðs, Kristján Guðmundsson félagaþróunarnefnd sem fagnaði m.a. stofnun nýs Rótarýklúbbs, Þinghóls í Kópavogi, Steinar Friðgeirsson sem tók m.a. undir orð Kristjáns og fagnaði því að Rótarýklúbbarnir væru orðnir 30 að tölu en sagði jafnframt að tekið væri eitt skref í einu í stofnun nýrra klúbba en enn væri verið að beina sjónunum að Reyðarfirði í þeim efnum. Guðni Jónsson formaður Alþjóðlegsskiptanefndar sagði starfið erfitt um þessar mundir vegna, ekki síst vegna efnahagskreppunnar en haldið yrði sjó engu að síður. Jón Hákon Magnússon formaður valnefndar sagði störfum nefndarinnar lokið á þessu starfstímabili en Tryggvi Pálsson í Rótarýklúbbi Reykjavíkur, Austurbær, hefur verið valinn í embætti umdæmisstjóra fyrir tímabilið 2011 – 2012. Geir A. Guðsteinsson formaður ritnefndar vefsíðunnar sagði frá störfum og skrifum nefndarinnar en stefnt er að því að inn á síðuna verði skrifað reglulega nýjar fréttir auk þess sem forsvarsmenn Rótarýklúbbanna verða kvattir til að senda fréttaefni eða benda á efni sem t.d. gæti verið grunnur að viðtali sem birtist á rotary.is. Hanna María Siggeirsdóttir formaður sagði frá starfi æskulýðsnefndar sem gengur vel þrátt fyrir þrengingar í þjóðfélaginu og Erlingur Leifsson sagði frá starfi samfélagsþjónustunefndar. Ellen Ingvadóttir umdæmisstjóri minnti á að formönnum nefnda umdæmisins bæri að skila skýrslu um starfsemi nefndarinnar fyrir 10. maí, en þær verða aðgengilegar á vefsíðunni og á umdæmisþinginu í júnímánuði nk.


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning