Fréttir

2.1.2009

Nær uppselt á fyrri tónleikana

Enginn verður svikinn af þessum tónleikum

Nú eru 9 stök sæti laus á Hátíðartónleika Rótarý í Salnum 9. janúar nk. kl. 20, tvö samliggjandi sæti og nokkur sæti á svölum. Hins vegar er enn hægt að næla sér í góð sæti á síðar tónleikunum 10. janúar nk. kl. 16. Smelltu hér til að skoða sætaúrval og kaupa miða.

Jónas Ingimundarson hefur nú sem fyrr skipulagt tónleikana í samvinnu við stjórn Tónlistarsjóðs Rótarý og munu þar koma fram ásamt honum þær Þóra Einarsdóttir sópran og Melkorka Ólafsdóttir flautuleikari, auk styrkþega ársins sem kynntur verður á tónleikunum. 

Tónlistarsjóður Rótarý hefur fest sig í sessi sem ein af þeim stoðum sem tónlistarlífið í landinu hvílir á.  Það er því metnaðarmál Rótarýhreyfingarinnar að sýna í verki að við látum okkur annt um unga fólkið okkar og metum að verðleikum þá vinnu sem það leggur á sig til þess að ná árangri í list sinni.

Ekki síst er þetta nauðsynlegt nú þegar þjóðfélagið gengur í gegnum þrengingar.  Ef við leggjumst öll á eitt ætti að vera létt verk að efla tónlistarsjóðinn og halda við þeirri venju sem skapast hefur með styrkveitingum úr honum.  Hátíðartónleikarnir hafa verið helsti vettvangur þess að efla sjóðinn jafnframt því sem þeir gefa okkur sjálfum færi á að hittast og gleðjast með góðum vinum. 

Undanfarin ár hefur tekist að afla nokkurs fjár með styrkjum.  Nú er því varla að heilsa þannig að eina vísa leiðin til að efla sjóðinn er að stuðla að húsfylli báða tónleikadagana.  Þeir sem ekki hafa tryggt sér miða ættu að gera það sem fyrst og veita sér þannig hina sælu gleði og stolt yfir því að hafa lagt sitt af mörkum til eflingar sjóðsins - og eiga um leið í vændum stund ljúfra tóna í Salnum í Kópavogi.

Bent skal á að þetta er einnig kjörið tækifæri til þess að bjóða með sér fjölskyldu og vinum og eitt er víst að enginn verður svikinn af þessum tónleikum.

Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning