Rótarýklúbbur Eyjafjarðar
Mörg fróðleg erindi hafa verið haldin á starfsárinu í klúbbnum og til okkar komið góðir gestir. Fluttir hafa verið fyrirlestrar um t.d. forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, stöðu efnahagsmála á örlagatímum þjóðarinnar, ljósmyndun sem listgrein og Afríkuferð til Asmara í Eritreu.
Meðal gesta okkar það sem af er starfsárinu eru Ólöf Nordal, alþingismaður, Kristín Aðalsteinsdóttir, prófessor, Jakob Möller, fyrrum yfirmaður kærudeildar Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Genf og Lára Stefánsdóttir, varaþingmaður og fjarnemandi í ljósmyndun við Academy of Art University í San Fransisco.
6. september sl. bauð Helgi Vilberg, forseti klúbbsins og skólastjóri Myndlistaskólans á Akureyri, klúbbfélögum til sín í skólann - hann var settur í þeirri viku eftir endurinnréttingu í kjölfar eldsvoða síðla júnímánaðar. Buðu Helgi og Soffía Sævarsdóttir, eiginkona hans, upp á máltíð að lokinni skoðunarferð um skólann, þar sem Helgi fræddi okkur um starf skólans fyrr og nú.
Ellen Ingvadóttir, umdæmisstjóri, mun koma í heimsókn til okkar síðla nóvembermánaðar og við munum hafa jólafund 16. desember nk. Hefð er fyrir því að mökum sé boðið á jólafundi.
Starfið í klúbbnum er því fjölbreytt á þessu starfsári og fundirnir verið skemmtilegir og fjölbreyttar umræður yfir borðhaldinu. Við höfum ennfremur virkjað heimasíðu félagsins á vef Rótarý og stefnum að því að nota hana mjög vel til að kynna starf klúbbsins.
með rótarýkveðju,
Stefán Friðrik Stefánsson, ritari Rótarýklúbbs Eyjafjarðar