Fréttir frá Rótaryklúbbnum Borgum Kópavogi.
Eftir veglegan stjórnarskiptafund, sem haldinn var í Hellisheiðarvirkjun hófst nýtt starfsár Rótaryklúbbsins Borga í Kópavogi.
Fundir okkar eru á fimmtudagsmorgnum kl. 7:45 - 8:45. Léttur andi ríkir á fundunum, þrátt fyrir fundartímann, eða kannski vegna hans.
Mörg fróðleg erindi hafa verið haldin, svo sem um Stein Steinar, hvítabjarnakomur, skipulag á Kársnesi, tækifæri Íslendinga í alþjóðasamvinnu, brunavarnir, Halldór Laxness, Þórberg Þórðarson, Gunnar Gunnarsson, Síberíuferð, fjarskiptatækni, Galapagoseyjar og Rótaract.
Auk þessa eru á hverjum fundi þriggja mínútna erindi, þar sem fólk verður að standast tímamörkin.
Við fundum í Skátaheimilinu við Digranesveg fram að áramótum, en svo stendur til að færa fundina yfir í nýtt safnaðarheimili Kópavogskirkju.
Svo höfum við líka brugðið undir okkur betri fætinum og farið var í jeppaferð upp í Hrafntinnusker með festum og víðlíka uppákomum.
Einnig heimsóttum við Hótel-og matvælaskólann og sátum þar verklega æfingu, sem var hin dýrðlegasta veisla.