Fréttir frá Rótarýklúbbi Sauðárkróks
Rótarýklúbbur Sauðárkróks byrjaði fundi sína í seint í ágúst eftir svolítið sumarfrí. Fráfarandi forseti Ómar Bragi Stefánsson hafði sinnt starfi sínu af áhuga og með prýði og fjórir nýir félagar bættust í hópinn á síðasta starfsári en tveir hurfu af vettvangi. Eru nú alls 27 félagar í klúbbnum, þar af tveir heiðursfélagar og þrír til viðbótar undanþegnir mætingaskyldu. Forseti klúbbsins er nú Baldvin Kristjánsson.
Á síðastliðnum vetri brann veitingahúsið Kaffi Krókur á Sauðárkróki þar sem Rotaryklúbburinn hafði sína fundaaðstöðu. Til bráðabirgða færðist þá fundahald klúbbsins í Safnaðarheimili Sauðárkrókskirkju, gamla spítalann við Aðalgötuna. En nú á haustdögum fékk klúbburinn inni í húsinu Sæborg við Aðalgötu 8 og verður þar a.m.k. yfirstandandi starfsár. Fyrsti fundurinn var haldinn þar 11. september s.l. Þar er lítill salur sem hentar ágætlega 15-20 manna hópi sem að jafnaði mætir á fundina en getur auðveldlega hýst 30 manns undir borðum.
Einn af föstum liðum á dagskrá hvers fundar er að félagar skiptast á um að fara með vísu eða ljóð, sem við köllum vísu vikunnar. Oftast hafa menn að henni góðan formála og flétta þá stundum eftir atvikum inn í hann fleiri vísum áður en komið er að endapunktinum sem er Vísa vikunnar. Á þessum síðustu og alverstu tímum í þjóðfélaginu hafa allir orðið fyrir rýrnun eigna sinna, misjafnlega harkalega þó. En í svartnættinu má alltaf finna einhvern ljósan punkt. T.d. þessa gömlu og góðu vísu eftir snillinginn Bjarna Jónsson frá Gröf sem margur karlinn gæti tekið sér í munn og á aldrei betur við en núna:
Hugarvíl og harmur dvín
er horfi ég á frúna.
Hún er eina eignin mín
sem ekki rýrnar núna.
Hjalti Pálsson
ritari.