Fréttir

11.3.2018

„Byggjum brýr - tengjum fólk“ einkunnarorð næsta umdæmisstjóra

Fræðslumót fyrir viðtakandi embættismenn Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi fór fram í Menntaskólanum í Kópavogi laugardaginn 10. mars. Þar voru komnir til þátttöku fulltrúar rótarýklúbbanna um land allt. Var víða komið við í fræðslu um störf Rótarý og ábyrgð og skyldur þeirra sem hafa verið valdir til forystu á næsta starfsári. Verðandi umdæmisstjóri Garðar Eiríksson, Rkl. Selfoss, stjórnaði fræðslumótinu og flutti ávarp í upphafi þess sem fjallaði um mörg brýnustu viðfangsefni Rótarý og stefnumál næsta starfsárs.


Ávarp Garðars Eiríkssonar, verðandi umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi 2018-2019.

Byggjum brýr – tengjum fólk

...er slagorð sem ég kýs að hafa að leiðarljósi á starfsárinu.

Hugtakið samfélagsmiðill var ekki til þegar Rótarý var stofnað árið 1905 en þó má með sanni telja Rótarý á sinn hátt einn fyrsta samfélagsmiðillinn. Rótarý byggir upp tengslanet, eflir þekkingu félaga og veitir tækifæri til að láta gott af sér leiða í anda slagorðs hreyfingarinnar „þjónusta ofar eigin hag“ eða Service above self.

Rótarý leggur áherslu á að eiga samstarf við aðra aðila, líknarfélög og fleiri sem vilja láta gott af sér leiða og ég hvet ykkur til að huga vel að slíku og þá með það i huga að láta rödd Rótarý heyrast.

Rótarý eru ein stærstu og áhrifamestu mannúðarsamtök heims og verkefnin sem Rótarý kemur að eru ótal mörg.  Hvort heldur í nærsamfélögum klúbbanna sjálfra eða víðsvegar um heim allan.  

Rótarýklúbbar á Íslandi hafa í áranna rás hlúð að nærsamfélaginu með margvíslegum stuðningi en minna hefur farið fyrir þátttöku í alþjóðlegum verkefnum.

Íslenska Rótarýumdæmið hefur þó tekið þátt í slíkum verkefnum og notið til þess stuðnings úr Rótarýsjóðnum; jafnframt hafa nokkrir klúbbar tekið þátt í verkefnum á alþjóðavísu. Betur má þó ef duga skal.

Íslenska Rótarýhreyfingin þarf og á að styðja frekar við alþjóðlegt mannúðarstarf samtakanna og það gerum við með tvennum hætti. Annars vegar með því að hver klúbbur leggi til hið minnsta sem nemur $50 á félaga í Annual Fund Rótarýsjóðsins og/eða hins vegar, með því að taka þátt í alþjóðlegum verkefnum sem njóta stuðnings Rótarýsjóðsins.  Á eftir fáum við að heyra erindi um þessi mál – og ég hvet ykkur sem nú takið við keflinu að huga vel að þessum málum.

Rótarý er boðberi friðar og veitir m.a. styrki til framhaldsnáms í friðarfræðum. Við eigum 10 einstaklinga –  allt konur – sem lokið hafa þessu námi. Margar þeirra starfa eða hafa starfað við mál af þessu tagi, s.s. vegna komu flóttamanna, sem sendifulltrúar RKÍ á átakasvæðum, í utanríkisþjónustunni sem og víðar. Ég hvet þau ykkar sem starfa í háskólasamfélaginu að koma þessu námi í friðarfræðum á framfæri innan ykkar skóla og vekja athygli nemenda og starfsmanna á þeim miklu námsstyrkjum sem fylgja.

Stór þáttur í starfi Rótarýhreyfingarinnar er ungmennaþjónustan. Íslensk ungmenni eiga kost á þátttöku í nemendaskiptum, um lengri eða skemmri tíma. Á móti koma hingað skiptinemar frá öðrum löndum. Síðar í dag fáum við heimsókn nokkurra skiptinema ásamt forystufólki ungmennaþjónustu-nefndarinnar. Þau munu segja okkur frá þessu frábæra starfi.

Þá vil ég nefna að Rótarýhreyfingin hefur veitt 22 ungum og efnilegum tónlistarmönnum á klassíska sviðinu hæstu styrki sem veittir eru í tónlist hér á landi. Fyrsta styrkinn hlaut Víkingur Heiðar Ólafsson árið 2005 og nú nema þessir styrkir í heild sinni frá upphafi, rúmum 20 milljónum króna. Verkefnið er að hluta til fjármagnað með „Stórtónleikum Rótarý“ fyrsta sunnudag á ári hverju, - þar sem styrkveitingarnar fara fram,- þar sem miðaverði hverju sinni hefur verið stillt í hóf – aðeins um 5000 kr. Af þessu megum við afar stollt vera og hvet ég ykkur til mæta sjálf og hvetja um leið alla okkar félaga og vini til að gera slíkt hið sama. Með því móti leggjum við okkar af mörkum til að efla verkefnið enn frekar. Munið eftir gjafakortum til jólagjafa.

Þá vil ég hvetja ykkur til að taka þátt í Rótarýdeginum sem haldinn verður 23. febrúar 2019. Þennan dag eigum við að nýta til að koma jákvæðum skilaboðum á framfæri um okkar ágætu hreyfingu, ekki síst til að afla nýrra félaga. Við þurfum að fjölga konum innan okkar raða og eins að reyna betur að ná til yngra  fólks. Í dag teljum við rétt rúmlega 1100 virka félaga en þurfum ef vel á að vera að ná að fylla tólfta hundraðið. Það gerir nú ekki nema rétt um 3 félaga á klúbb og ég hvet ykkur til að taka á með umdæminu í þessum efnum. Enda - afar mikilvægt að halda Íslandi sem sjálfstæðu umdæmi.

Í möppunni sem þið hafið fengið eru ýmis gögn frá Rotary internationalI varðandi hlutverk ykkar á komandi starfsári, gögn sem eiga að gera ykkur betur kleift að meta og skipuleggja klúbbstarfið og til að sinna ykkar hlutverki sem leiðtogar Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi á komandi starfsári.

Hér á eftir fáið þið fyrst allra að kynnast nýju vefumhverfi Rotary. Verkinu er ekki að fullu lokið en ákveðið var þó að fara af stað nú þar sem nýja kerfið mun auðvelda svo ótalmargt varðandi skráningu og losa okkur við óþarfa tvíverknað. Ég vil færa þeim Guðna, Ólafi og Agnari –nefndarmönnum í vefþjónustu, bestu þakkir fyrir þrotlausa vinnu við að koma þessu nýja vefumhverfi á rotary.org / my rotary: Ég hvet ykkur öll sem ekki hafa nú þegar stofnað reikning á rotary.org / my rotary, að gera það sem fyrst. Það er mjög auðvelt. Þar er að finna mikið af upplýsingum, ráðleggingum, efni til að vinna út frá, tölfræði og skýrslur RI um ykkar klúbb og síðast en ekki síst er þar að finna Rotary Central þar sem hægt er að setja markmið fyrir klúbbinn og sjá þróun síðustu ára. Þar er einnig að finna President Citation með markmiðum sem alþjóðaforsetinn leggur upp með að klúbbar uppfylli og veitir viðurkenningar ef þau nást.

Kjörorð Barry Rassins viðtakandi forseta fyrir næsta starfs ár er „Be the Inspiration“.

Ég hef leyft mér að íslenska þetta kjörorð líkt og forverar mínir hafa á hverjum tíma gert og segi: Verum fyrirmynd

Rótarýhreyfingin er fyrirmynd og hefur um áratugaskeið lagt sitt af mörkum til góðra verka. Með lagabreytingum hefur frelsi klúbbanna til að aðlaga sig að breyttum þjóðfélagsháttum, aukist til muna.

Rótarýhreyfingin er á krossgötum segir John Hewko aðalritari RI – en felast ekki í því tækifæri fyrir hreyfinguna? Tækifæri sem við öll sem erum í forystu fyrir Rótarý, eigum að leiða? –

Barry Rassin verðandi forseti ítrekar að nú þurfi að horfast í augu við breytingar. Sú vegferð hlýtur ávallt að hefjast hjá manni sjálfum. Verum fyrirmynd, nýtum tækifærin sem felast í auknum sveigjanleika varðandi klúbbstarfið, horfum til umhverfismála og hvaða áhrif þau hafa á velferð og heilsufar þjóða. Tökum þátt í verkefnum sem stuðla að friði og betri heimi. Leiðum fram breytingar á hreyfingunni okkar –í takt við nýja tíma – því með samtakamætti kemur Rótarý svo mörgu góðu til leiðar.

Ég hef sett fram heimsóknaráætlun til klúbbana. Ég bið ykkur að skoða hvort upplýsingar séu réttar og ef þið hafið einhverjar ábendingar að koma þeim til mín sem fyrst. Ég vil einnig benda á að ég geri þá kröfu til ykkar að ekki sé annað efni á fundinum en heimsókn umdæmisstjóra og fundur með stjórn klúbbsins.

Að endingu óska ég ykkur til hamingju með að hafa verið kjörin til forystu fyrir Rótarýhreyfinguna á Íslandi fyrir næsta starfsár. Það er í ykkar höndum að gera starfsemina áhugaverða og skemmtilega – og um leið ekki síður að afla nýrra félaga.

Ég sem umdæmisstjóri er  ykkur til aðstoðar – ásamt mínum aðstoðarumdæmisstjórum, starfsmanni á skrifstofu og nefndarfólki umdæmisins.

Byggjum brýr – Tengjum fólk – Verum fyrirmynd

Ég segi þetta fræðslumót sett.


Þessu næst  flutti Knútur Óskarsson, umdæmisstjóri, ávarp og gerði grein fyrir helstu þáttum í sögu Rótarýhreyfinginnar og Rótarýsjóðsins, er starfað hafa sem alheimssamtök í meira en 100 ár með lofsverðum árangri í mannúðar- og menningarmálum.

„Þið hafði verið valin til að stjórna Rótarý næsta starfsár. Og óska ég ykkur til hamingju með það. Gleymið ekki að ábyrgð ykkar mikil.  Þið berið ábyrgð undir forsytu forseta klúbbanna á að  mæta áskorunum í starfinu af einlægni og trúmennsku. Það er undir ykkur komið að klúbburinn ykkar og Rótarýhreyfingin á Íslandi og í heiminum dafni og geti áfram horft til framtíðar,“ sagði Knútur.   

Hann benti ennfremur á að hreyfingin hefði jafnan borið gæfu til að mæta nýjum áskorunum og laga sig að breyttum aðstæðum og að það yrði m.a. hlutverk verðandi leiðtoga umdæmisins og einstakra klúbba hér á landi að vinna áfram að slíkri þróun. Hvatti hann verðandi klúbbleiðtoga til að starfa ötullega að eflingu Rótarý hér á landi og greindi frá undirbúningi að stofnun nýs klúbbs í Reykjavík og öðrum aðgerðum til að fjölga félögum í klúbbunum m.a. í framhaldi af árangursríkum Rótarýdegi sem haldinn var 24. febrúar sl.

„Rótarý er skemmtilegur félagsskapur sem víkkar sjóndeildarhringinn og gerir okkur að betri manneskjum. Ég er stoltur af því að tilheyra Rótarýfjölskyldunni, því að í Rótarý höfum við áhrif. Njótið fræðslumótsins hér í dag og nýtið næstu viku til að skipuleggja allt ykkar starfsár. Eftirleikurinn verður þá einfaldari,“ sagði Knútur Óskarsson í lok máls síns.

Guðbjörg Alfreðsdóttir, fyrrverandi umdæmisstjóri, tók næst til máls og gerði grein fyrir styrkjakerfi Rótarýsjóðsins vegna verkefna að samfélagslegum umbótum, sem unnin eru á vegum umdæma og klúbba eða í samstarfi fleiri klúbba í ólíkum löndum. Rifjaði hún upp þátttöku íslenskra rótarýklúbba í nokkrum slíkum samstarfsverkefnum og hvernig haga bæri umsóknum til Rótarýsjóðsins um stuðning hans.

Þá greindi Markús Örn Antonsson, ritstjóri heimasíðu Rótarý á Íslandi og einn af ritstjórum norræna tímaritsins Rotary Norden, frá þróun þessara miðla. Rotary Norden, sem berst til 68.000 rótarýfélaga á Norðurlöndunum, er gefið út prentað og í rafrænum útgáfum fyrir tölvur, spjaldtölvur og snjallsíma. Rúmlega 60% íslenskra rótarýfélaga kjósa að fá blaðið rafrænt. Veitti Markús innsýn í þá margvíslegu möguleika til gagnvirkni sem hin nýstárlega margmiðlun Rotary Norden býður. Skoða nánar, smellið hér. Veljið síðan tölublað Rotary Norden með því að smella á forsíðu.

Guðni Gíslason, kynningarfulltrúi Rótarý á Íslandi og vefstjóri gerði ásamt Ólafi Ólafssyni, grein fyrir nýju vefkerfi rotary.is. Guðni fjallaði einnig um kynningarstarf Rótarý og hvernig samfélagsmiðlar geta nýst rótarýklúbbunum í starfi.

Garðar Eiríksson flutti fræðsluerindi um hlutverk og skyldur forseta, ritara og gjaldkera klúbbanna.

Gísli B. Ívarsson, formaður félagaþróunarnefndar, rakti  félagaþróunina í hreyfingunni, fjölgun klúbba og útbreiðslustarfið almennt.

Klara Lísa Hervaldsdóttir, varaformaður æskulýðsnefndar sagði frá nemendaskiptum Rótarý og hvatti klúbbana til þátttöku í þeim. Íslenskum ungmennum gefast tækifæri til dvalar erlendis, m.a. heilsárs skólavist og þátttaka í sumarbúðum um skemmri tíma. Með Klöru Lísu komu á fundinn fjórir erlendir skiptinemar sem stunda nám við íslenska framhaldsskóla í vetur. 

Eiríkur H. Sigurðsson, formaður Rótarýsjóðnefndar hvatti eindregið til aukinna framlaga rótarýfólks á Íslandi í Rótarýsjóðsinn, sem vinnur stórmerkilegt starf í heilbrigðismálum og almennum velferðar- og menningarmálum víða um heim

Fræðslumótinu lauk með kynningu á verkefnum aðstoðarumdæmisstjóranna þriggja. Störfum aðstoðarumdæmisstjóra gegna nú   Ragnar Jóhann Jónsson, Akureyri, Sigríður Johnsen, Mosfellsbæ og Björgvin Örn Eggertsson, Selfossi. Þau stýrðu ásamt Garðari Eiríkssyni umræðum um mat á styrkleika klúbbstarfsins, starfsáætlanir og stefnumörkun. Þessi atriði sem og önnur mál voru til almennrar umræðu. Starfsáætlanir eiga að berast fyrir 15. apríl n.k. vegna næsta starfsárs rótarýklúbbanna sem hefst hinn 1. júlí.

                                                                                                                             Texti og myndir Markús Örn AntonssonÚtlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning