Morgunklúbbur í miðbæ Reykjavíkur í undirbúningi
Unnið er að undirbúningi að stofnun nýs morgunklúbbs Rótarý fyrir miðbæjarsvæði Reykjavíkur. Ýmsir verðandi rótarýfélagar voru ásamt nokkrum starfandi félögum í öðrum klúbbum boðaðir til undirbúningsfundar nýlega á veitingastaðnum Jamie Oliver á Hótel Borg. Rúmlega 20 manns sóttu fundinn og verður undirbúningsstarfinu fram haldið á næstu vikum.
Á fundinum á Hótel Borg flutti Knútur Óskarsson, umdæmisstjóri, greinargóða kynningu á störfum alþjóðahreyfingar Rótarý og félagsstarfinu í klúbbunum hérlendis.
Gísli B. Ívarsson, formaður félagaþróunarnefndar umdæmisins gerði nánari grein fyrir félagslega þættinum í rótarýstarfinu, alþjóðlegri samvinnu um göfug markmið, skemmtilegum samverustundum með góðum félögum og virku tengslaneti.
Þessi undirbúningsfundur var haldinn kl. 7.45 að morgni, á venjulegum fundartíma morgunverðarklúbba, en þrír slíkir eru starfandi hér á landi, Borgir í Kópavogi, Straumur í Hafnarfirði og Hof í Garðabæ. Miðað er við að fundum hjá þeim sé lokið um kl. 8.45. Starfsemi morgunklúbbanna hefur heppnast afar vel og athygli vekur hinn mikilvægi þáttur fjölda kvenna í starfi þeirra.
Á fundinum á Hótel Borg var Garðar Eiríksson verðandi umdæmisstjóri viðstaddur og fleiri núverandi rótarýfélagar tóku til máls og greindu frá reynslu sinni af starfinu í Rótarý. Reiknað er með að einhverjir þeirra flytji sig milli klúbba og verði forystu og félögum hins nýja klúbbs til liðsinnis í upphafi starfsins. Nánari upplýsingar veitir Gísli B. Ívarsson, netfang: gisli@igf.is
Texti og myndir MÖA