Fréttir
  • Akureyri bátar

7.3.2018

Rótarýklúbbur Akureyrar 80 ára

Afmælishátíð laugardaginn 17. mars

Rótarýklúbbur Akureyrar fagnar 80 ára afmæli sínu en 21. mars 1938 komu sjö manns saman til að undirbúa stofnun klúbbsins. Samþykkt var að stofna félagsskapinn til reynslu, en tilkynna hann ekki að svo stöddu, fyrr en séð væri, hvernig líkaði og gengi.

Eitthvað mun þessi hópur hafa komið saman á næstu mánuðum og unnið að stofnun rótarýklúbbs á Akureyri, en 4. september um haustið var haldinn formlegur stofnfundur Rótarýklúbbs Akureyrar.

Akureyri lógóRótarýklúbbur Akureyrar var fámennur félagsskapur fyrstu árin, stofnendur voru níu og og meðlimum fjölgaði hægt. Hefur það trúlega verið ástæðan fyrir því að klúbburinn sótti ekki strax um eða hefur ekki verið fær um að óska eftir réttindum sem fullgildur klúbbur innan Rotary International.
Árið 1941 voru félagar orðnir sextán og á fundi 4. júlí það ár skýrði þáverandi forseti, Guðmundur Karl Pétursson, frá því, að klúbburinn myndi geta fengið staðfestingu sem fullgildur klúbbur í Rotary International, og var samþykkt að óska eftir þeirri staðfestingu.

Stofnbréf Rótarýklúbbs Akureyrar sem fullgilds klúbbs innan Rotary International var gefið út 20. desember 1941.

Til afmælishátíðar er rótarýfélögum í nágrannaklúbbnum formlega boðin þátttaka allt frá Sauðárkróki að Neskaupstað. 

Rótarýfundur verður haldinn í Háskólanum á Akureyri kl. 17 laugardaginn 17. mars en þema dagskrárinnar er „Kannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur“ en erindi flytja Aðalheiður Jónsdóttir, sálfræðingur hjá HSN og Eyjólfur Guðmundsson háskólarektor. 

Kl. 19.30 verður svo hátíðarkvöldverður á Hótel KEA þar sem veislustjóri er Ólafur Jónsson og hátíðarræðu flytur Björn Teitsson. Systurnar Una og Eik Haraldsdóttur sjá um tónlistaratriði. Heiðursgestir verða núverandi umdæmisstjóri og kona hans og tveir f.v. umdæmisstjórar úr Rótarýklúbbi Akureyrar og þeirra konur.

Hátíðin er opin öllum rótarýfélögum og mökum þeirra en hátíðarkvöldverðurinn kostar 8.500 kr. og greiðist á hótelinu en skrá þarf þátttöku til Soffíu Gísladóttur, forseta klúbbsins í soffia.gisladottir@vmst.is fyrir miðvikudaginn 14. mars.Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning