Stórtónleikar Rótarý í máli, myndum .. og músík
Fjölbreytt efnisskrá, frábær söngur og verðlaunaafhending í Hörpu
Tónleikagestir voru greinilega í hátíðarskapi þegar þeir gengu í Norðurljósasal Hörpu síðdegis sunnudaginn 7. janúar 2018 til að vera viðstaddir hina árlegu stórtónleika Rótarý. Nú er komin góð hefð á þennan viðburð í lista- og menningarlífi landsmanna. Þetta var í 21. sinn sem blásið var til tónleika á vegum Rótarý. Tónlistardagskráin hefur ávallt verið í flutningi landskunnra listamanna en jafnframt hafa ungir verðlaunahafar Tónlistarsjóðs Rótarý komið fram og vakið verðskuldaða athygli sem leiðarstjörnur hver á sínu sviði í tónlistarlífinu. Stuðningur Rótarý hefur komið þeim að góðu gagni við öflun framhaldsmenntunar í list sinni.
Knútur Óskarsson, umdæmisstjóri, flutti ávarp við upphaf tónleikanna og bauð gesti velkomna. Við það tækifæri sagði hann m.a.: “Hér mun fara fram glæsileg dagskrá. Frábærir listamenn flytja okkur tónlistarperlur af ýmsu tagi og síðan munum við veita tveimur ungum tónlistarmönnum styrki úr Tónlistarsjóði Rótarý. Þetta mun vera 14. árið sem veittir eru styrkir úr sjóðnum til ungs tónlistarfólks og er það gott dæmi um það að Rótarý hefur áhrif.”
Því næst flutti Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra og rótarýfélagi, ávarp. Hann fjallaði um forgöngu Rótarý á tónlistarsviðinu og gildi þess að njóta tónlistar í ys og þys hins daglega lífs.
“Ég fagna því mjög að Rótarýhreyfingin hafi sýnt þetta frumkvæði að hefja tónlist til vegs og virðingar einu sinni á ári og ekki er framtakið síðra fyrir þá sök að tækifærið er notað og ungir tónlistarmenn, sem skarað hafa fram úr eru styrktir til frekari afreka,” sagði Gunnar Snorri og vék síðan að þætti rótarýfélagans Jónasar Ingimundarsonar, píanóleikara.
“Það er gaman að líta yfir það einvalalið sem fengið hafa viðurkenningu á þessum degi. Það er glæsilegur hópur. Okkar eigin síungi Jónas Ingimundarson sem nú má með réttu kalla Nestor íslenskrar tónlistar, hefur með þessu lagt sitt af mörkum til að tryggja að framtíð íslenskrar tónlistar verði björt.
Einhverjir kynnu að spyrja hvers vegna Rótarý ætti sérstaklega að sinna tónlist. Því er auðsvarað. Lítum á einkunnarorð Rótarý og spyrjum okkur, er nokkuð sannara og réttara en tónlist, eykur hún ekki drengskap, eflir velvild og vinarhug og er hún ekki öllum til góðs? Allir góðir Rótarýmenn eiga því með réttu að vera málsvarar og merkisberar góðrar tónlistar," sagði Gunnar Snorri Gunnarsson meðal annars í ávarpi sínu.
Fjölbreytt efnisskrá tónleikanna hófst með einsöng Ólafs Kjartans Sigurðarsonar, barítóns, sem söng lög eftir Martini, Gluck, Ravel, Tosti, Gastaldon og Tchaikovsky. Meðleikari var Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanóleikari. Þeim Ólafi og Helgu Bryndísi var fagnað innilega með langvinnu lófataki.
Að afloknu hléi færði Knútur Óskarsson, umdæmisstjóri, félögum sínum í Rótarýklúbbi Mosfellssveitar bestu þakkir fyrir undirbúning og umsjón tónleikanna. Í framkvæmdastjórn af hálfu klúbbsins voru Lovísa Hallgrímsdóttir, Marteinn Magnússon og Þór Fannar. Þá þakkaði umdæmisstjóri þeim Erlendi Hjaltasyni og Jónasi Ingimundarsyni þeirra störf. Erlendur var sæmdur Paul Harris-orðunni, sem er æðsta viðurkenning sem Rótarýhreyfingin veitir fyrir vel unnin störf. Jónas Ingimundarson hafði áður verið sæmdur æðstu Paul Harris-orðu fyrir einstakt starf í þágu Rótarý og tónlistarsjóðsins í yfir 20 ár.
“Mér telst til að Rótarýhreyfingin hafi stutt ungt tónlistarfólk á Íslandi með tæpum 20 milljónum á síðastliðnum árum," sagði Erlendur í upphafi máls síns, er hann kynnti verðlaunahafa Tónlistarsjóðs Rótarý 2018.
“Við í Rótarýhreyfingunni á Íslandi getum verið stolt af því að hafa stutt svo rausnarlega við ungt tónlistarfólk,” bætti Erlendur við. “Í ár sóttu að vanda margir mjög efnilegir tónlistarmenn um styrk úr sjóðnum en hann styrkir unga tónlistarmenn, sem vilja gera tónlist að framtíðarstarfi. Eins og fyrri ár uppfylltu allir umsækjendur kröfur sjóðsstjórnar og því var okkur vandi á höndum. Samkvæmt ákvörðun umdæmisstjóra, Knúts Óskarssonar, eru styrkirnir nú tveir og fær hvor styrkþegi 800 þúsund krónur í sinn hlut. Þessir styrkir eru því afar veglegir bæði á íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða.”
Þessu næst gerði Erlendur nánari grein fyrir námsferli styrkþeganna tveggja, þeirra Jónu G. Kolbrúnardóttur, sóprans, og Hrafnhildar Mörtu Guðmundsdóttur, sellóleikara.
Jóna fékk tónlistarlegt uppeldi í kórastarfi Jóns Stefánssonar í Langholtskirkju. Hún lauk brottfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík 2004 undir leiðsögn Hörpu Harðardóttur. Jóna stundar nú nám við Tónlistarháskólann í Vínarborg undir leiðsögn Gabriele Lechner, prófessors. Hún hefur sungið víða á síðustu árum, bæði í óperuppfærslum og með Björk Guðmundsóttur í Biophilia-verkefninu.
Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir stundaði sellónám hjá Sigurgeiri Agnarssyni og Gunnari Kvaran og síðar við Konservatoríið í Kaupmannahöfn. Hún stundar nú meistaranám við Jacobs School of Music, Indiana University í Bandaríkjunum. Þær Hrafnhildur og Jóna hafa báðar komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Hrafnhildur gat ekki veitt verðlaununum viðtöku vegna námsdvalar vestanhafs. Á myndinni eru Erlendur Hjaltason, formaður stjórnar tónlistarsjóðsins, Jóna G. Kolbrúnardóttir, Álfgrímur Gunnar, bróðir Hrafnhildar Mörtu, og Knútur Óskarsson, umdæmisstjóri.
Jóna G. Kolbrúnardóttir söng þessu næst lög eftir Liszt, Gounoud og Mozart og hlaut hinar bestu viðtökur. Í síðasta atriðinu var um að ræða dúett úr óperunni Don Giovanni sem Jóna söng með Ólafi Kjartani.
Jónas Ingimundarson, píanóleikari, kynnti því næst Ástu Dóru Finnsdóttur, sem er nemandi í píanóleik og hefur gert garðinn frægan á erlendri grund. Nýlega tók hún þátt í alþjóðlegri Chopin-keppni með jafnöldrum sínum í Varsjá og stóð sig með afbrigðum vel. Áheyrendur á Rótarýtónleikunum sannfærðust enn betur um ótrúlega hæfileika þessarar 10 ára gömlu stúlku er hún settist við flygilinn og lék Fantasie Impromptu op. 66 eftir Chopin. Ástu Dóru var innilega þakkað með öflugu lófataki og fagnaðarópum úr sal.
Einfalda upptöku af leik hennar á tónleikunum má heyra með því að smella hér: ASTA-Chopin-Fantasie
Þessum glæsilegu tónleikum Rótarý lauk með því að Ólafur Kjartan Sigurðarson söng þrjú verk úr óperunum I Pagliacci, Ótello og Falstaff, sem hann kynnti af góðri kímni. Túlkun hans á Falstaff tókst einnig með miklum ágætum.
Að endingu sté Lovísa Hallgrímsdóttir ásamt samstarfsmönnum í farmkvæmdastjórn tónleikanna á sviðið og afhenti þátttakendum í dagskránni blómvendi meðan viðstaddir í sal klöppðu listafólkinu og ræðumönnum lof í lófa.
Texti og myndir Markús Örn Antonsson