Fréttir

19.12.2017

Tengslanetið styrkt á svæðafundi í Riga

Á hverju ári koma fyrrverandi, núverandi og verðandi umdæmisstjórar saman, ásamt mörgum helstu forustumönnum og leiðbeinendum innan Rótarýhreyfingarinnar. Tilgangurinn er að deila upplýsingum og þekkingu, styrkja vinabönd og tengslanet innan og milli landa og skiptast á hugmyndum um alþjóðahreyfingu Rótarý og Rótarýsjóðinn, stefnur og strauma.  Knútur Óskarsson, umdæmisstjóri, sótti fundinn ásamt eiginkonu sinni Guðnýju Jónsdóttur. Á myndinni t.h. eru þau með samstarfs- og vinafólki sínu, Mikko og Tuire Hörkkö frá Finnlandi. Hér fylgir stutt frásögn Knúts.

Svæðin sem um ræðir eru svæði 15, 16, 17 og 18A en til þeirra heyra alls 15 lönd og tilheyrir Ísland svæði 16 ásamt 15 öðrum umdæmum. Ársþing svæðanna var haldið að þessu sinni í Riga í Lettlandi dagana 12. -15. október sl. en dagana á undan hafði verið haldinn fræðslu- og þjálfunarfundur fyrir verðandi umdæmisstjóra. Sótti Garðar Eiríksson frá Rótarýklúbbi Selfoss, og eiginkona hans Anna Vilhjálmsdóttir, fundinn en Garðar er verðandi umdæmisstjóri 2018 - 2019.

 Á þinginu fengum við að hlusta á marga frábæra ræðumenn þar á meðal alþjóðaforsetann Ian Riseley, sem kom í heimsókn hingað til lands  á sl. vori. Í samtali við mig lét Riseley í ljós sérstaka ánægju sína með blaðið sem Rkl. Mosfellssveitar gaf út fyrir umdæmisþingið í október. 

Meðal annarra ræðumanna á þinginu í Riga voru prófessor Magnus Öberg frá Friðarsetrinu við Háskólann í Uppsölum og Bradford R. Howard sem er einn af fyrrum framkvæmdastjórum Rotary International. Í umræðum var fjallað um mikilvægi Rótarýhreyfingarinnar sem áhrifavald til góðs í heiminum m.a. í friðarmálum, í málefnum sem snerta heilsu og heilbrigði í löndum sem eiga undir högg að sækja, í menntun og í ýmis konar uppbyggingu í nærsamfélagi klúbba. Undirstaða þessarrar þjónustu er styrkur Rótarýsjóðsins og mikilvægt að klúbbar og hvert umdæmi leggi sitt af mörkum.

Þá var lögð mikil áhersla á að ef við viljum fá í okkar raðir ungt og framsækið fólk, þá þarf Rótarýhreyfingin að tileinka sér nútíma tækni og taka hana í sína þágu.  Þannig var rætt um e- klúbba, twitter, snapchat og fésbókina. Í þessu  samhengi fór einnig fram kynning og umræða um leiðtogaþjálfun Rótarý og Rotary Youth Leadership Award en þar er um að ræða mjög áhugaverða kennslu fyrir ungt fólk í leiðtogafræðum.

Undirtónninn á þinginu var sá að saman erum við sterk og getum áorkað stórkostlegum hlutum og það var einmitt innlegg alþjóðaforseta Ians Riseleys þegar hann tók dæmi um íslenska karlalandsliðið í fótbolta þegar hann ræddi samstöðu og styrk heildarinnar.

Riga er falleg borg, hrein og fólkið vingjarnlegt, ekki síst þegar maður segir frá að maður sé frá Íslandi. Í miðborginni er verið að gera upp gamlar byggingar og nýbyggingar rísa í úthverfum. Greinilegt er að Lettar eru mikið handverksfólk og á mörkuðum sitja kappklæddir eldri borgarar og sinna vinnu þó aldur sé farinn að segja til sín.

                                                                                                                                              Knútur Óskarsson, umdæmisstjóriÚtlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning