Umdæmisstjóraskipti á hátíðarfundi í Mosfellsbæ
Það var hátíðarbragur yfir fundinum í Rótarýklúbbi Mosfellssveitar, sem haldinn var sl. þriðjudag, 27. júní. Ekki spillti það fyrir að fundinum var valinn staður í nýjum og glæsilegum golfskála Golfklúbbs Mosfellssveitar, þaðan sem sér vítt yfir Kollafjörðinn og út á Faxaflóa þegar kvöldsólin gyllir tignarlegt útsýnið. Þetta var starfsskilafundur Mosfellssveitarklúbbssins en einnig sérstakur hátíðarfundur því að Knútur Óskarsson, félagi í klúbbnum, var að taka við embætti umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi fyrir næsta starfsár sem byrjar 1. júlí.
Knútur Óskarsson og Guðný Jónsdóttir eiginkona hans tóku á móti blómum, embættistáknum og heillasóskum, er þeim fylgja í krefjandi en skemmtilegu starfi sem þau eiga eftir að inna af hendi á innlendum og erlendum vettvangi í þágu umdæmisins.
Haldnir voru tveir fundir þetta kvöld, starfsskilafundur Rkl. Mosfellssveitar annars vegar og síðari fundur, sem helgaður var umdæmisstjóraskiptunum.
Alfreð Svavar Erlingsson, fráfarandi forseti klúbbsins, stýrði hinum fyrri en Jóhanna Björg Hansen, hinn nýi forseti klúbbsins, þeim síðari. Fyrstur tók til máls fráfarandi umdæmisstjóri Guðmundur Jens Þorvarðarson.
“Þetta hefur verið mjög skemmtilegt ár. Hæst ber auðvitað heimsóknirnar í klúbbana. Við hjónin heimsóttum þá alla nema tvo og var ánægjulegt að kynnast starfi þeirra,” sagði Guðmundur Jens í ávarpi sínum áður en hann tók ofan embættiskeðju umdæmisstjórans og setti hana um háls eftirmanns síns.
Guðmundur sagði flesta íslensku klúbbana standa vel að vígi en á því væru þó undantekningar. Því veldur fyrst og fremst mannfæð í sumum klúbbunum. Þó væri eftirtektarvert að innan fámennu klúbbanna reyndist félagsandi og samstaða gjarnan meiri en í sumum hinna stærri. Félagar í Rótarýhreyfingunni á Íslandi eru nú 1240, þar af 60 heiðursfélagar, sem ekki teljast með í opinberum tölum Rotary international.
“Líkt og í öðrum löndum Evrópu og í Bandaríkjunum fer meðalaldur klúbbfélaganna stöðugt hækkandi,” sagði Guðmundur. “Alþjóðaforsetarnir hafa á undanförnum árum lagt áherslu á að yngja upp í klúbbunum en það hefur ekki tekist sem skyldi."
Guðmundur kvað íslensku klúbbana þurfa að leggja höfðuáherslu á að fá ungt fólk til liðs við Rótarý.
Af einstökum áföngum í starfinu undanfarið starfsár nefndi Guðmundur sértaklega Rótarýdaginn, sem haldinn var hinn 6 maí sl. Það var í þriðja sinn sem slíkur dagur var helgaður Rótarýstarfinu hér á landi. Fjórtán klúbbar tóku þátt og kynntu Rótarý á ýmsan hátt á fundum eða við önnur tækifæri.
Þá skýrði Guðmundur frá því að íslenska rótarýumdæmið hefði verið þátttakandi í að stofna sérstakan friðarsjóð sem er hluti af friðarsjóði Rotary International. Íslenskur einstaklingur, sem ekki vill láta nafns síns getið, lagði verulega fjárupphæð af mörkum í þessu skyni og umdæmið veitti mótframlag.
Að endingu rifjaði Guðmundur Jens upp heimsókn Ian H. S. Riseley, verðandi alþjóðaforseta Rótarý hingað til lands í maí sl. Heimsóknin tókst mjög vel og fór Riseley með eiginkonu sinni í ferðalag um Suðurland ásamt gestgjöfunum og heimsótti einnig forseta Íslands á Bessastöðum. Í Alþingishúsinu tók Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður og rótarýfélagi á móti gestunum og rakti fyrir þeim aðalatriði í sögu þings og þjóðar.
Þegar formleg umdæmisstjóraskipti höfðu farið fram tók Knútur Óskarsson til máls og gerði grein fyrir viðhorfum sínum við þessi mikilvægu tímamót. Í upphafi máls síns þakkaði hann Guðmundi Jens og Svövu konu hans fyrir gott starf fyrir Rótarý. Þakkaði Knútur einnig traustið sem sér hefði verið sýnt og kvaðst snortinn yfir því hve margir væru viðstaddir fundinn.
“Það má segja að með undirbúningi fræðslumótsins fyrir verðandi forseta, ritara og gjaldkera í marsmánuði hafi línur verið lagðar fyrir starfsárið,” sagði Knútur í upphafi máls síns. “Þær taka auðvitað mið af markmiðum og áherslum verðandi alþjóðaforseta, Ian Riseley.”
Þá tiltók Knútur nokkur atriði sérstaklega sem hann leggur áherslu á og nefndi eftirfarandi:
- Styrkja og efla veika klúbba m.a. með samtali, greiningar- og stefnumótunarvinnu
- Fjölga Rótarýfélögum í umdæminu, ekki síst konum og ungu fólki
- Festa Rótarýdaginn enn betur í sessi til að vekja athygli á Rótarý
- Auka árlegt framlag í Rótarýsjóðinn
- Gróðursett verði eitt tré fyrir hvern félaga í hverjum klúbbi
- Áætla hvaða tími og kostnaður fer í samfélagsþjónustu hjá hverjum klúbbi
Knútur kvaðst ekki ætla að fara nánar út í það núna hvaða leiðir verða farnar til að ná markmiðum ársins. Hann sagði aðeins að þeim yrði ekki náð nema með samtali og góðri samvinnu við alla klúbba og félaga í Rótarýhreyfingunni á Íslandi.
Síðast en ekki síst mun hann leggja áherslu á ákveðið þema sem hann hefur valið starfsári sínu, „Kannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur“, sem tekið er úr þekktum íslenskum dægurlagatexta. Þar er verið að leggja áherslu á að farsæl framtíð lands og þjóðar og þeirrar veraldar sem við lifum í, er tengd framtíð barna okkar í flóknu samfélagi, - velferð þeirra, vellíðan og aðgengi að góðum aðstæðum, uppeldi og menntun. Tengist þetta beint við áherslur Rótarý í mannúðar-, umhverfis- og friðarmálum.
“Í heimsóknum mínum til klúbbanna mun ég ræða þessi mál og leggja aðaláherslu á nútíð og framtíð, því „lífið er í dag, lífið er núna“ svo ég vitni í forseta Íslands,” sagði Knútur.
Þessu næst bað Knútur verðandi umdæmisstjóra 2018 - 2019 Garðar Eiríksson og eiginkonu hans Önnu Vilhjálmsdóttur að veita viðtöku embættismerki verðandi umdæmisstjóra og gjöf handa frúnni.
Síðan bað Knútur aðstoðarumdæmisstjóra sína, Sigríði Johnsen Rkl. Mosfellssveitar, Björgvin Örn Eggertsson Rkl. Selfoss og Ragnar Jóhann Jónsson Rkl. Akureyrar að stíga fram og taka við rótarýmerki ársins.
“Síðast en ekki síst vil ég biðja Önnu Stefánsdóttur, tilnefndan umdæmisstjóra 2019 – 2020, Rkl. Borgum Kópavogi, að koma hér og taka við merki ársins og lítilli gjöf. Einnig vil ég bjóða Önnu velkomna í umdæmisráðið og hlakka ég til að starfa með henni, en hún verður kynnt betur á formlegri hátt á umdæmisþinginu okkar í haust,” sagði Knútur Óskarsson í lok ávarps síns.
Rkl. Mosfellssveitar á mikið starf fyrir höndum. Jóhanna Björg, forseti klúbbsins, sagði klúbbinn standa þétt við hlið félaga síns Knúts Óskarssonar í þeim störfum sem framundan eru hjá honum. Umdæmisþing er í undirbúningi og verður það haldið með fjölbreyttri dagskrá í Mosfellsbæ dagana 6. og 7. október n.k.
Texti og myndir MÖA