Fréttir

29.5.2017

Alþjóðaforseti Rótarý lætur verkin tala

Ian H.S. Riseley, næsti alþjóðaforseti Rótarý, kom við í Vinaskógi á Þingvöllum sl. fimmtudag og gróðursetti fjórar trjáplöntur ásamt Juliet konu sinni og Mikael Ahlberg, sem sæti á í framkvæmdastjórn Rotary International, og Charlotte konu hans. Ian hefur lýst því sem stefnumarki á starfsári sínu 2017-2018 að rótarýklúbbar um allan heim geri átak í trjárækt og gróðursetji eina trjáplöntu á hvern klúbbfélaga.

„Forseti Íslands sýndi okkur mikinn heiður með því að taka á móti okkur ásamt íslenskum rótarýfélögum á Bessastöðum“, sagði Ian H. S Riseley, næsti alþjóðaforseti Rótarý eftir heimsókn sína þangað sl. föstudag. „Mér fannst það líka gleðilegt hvað forsetinn mat mikils að hafa verið útnefndur Paul Harris-félagi Rótarý fyrir skömmu.“

Í ávarpi sínu á Bessastöðum hafði forseti Íslands orð á því að rótarýfólk hefði ekki hátt um árangur verka sinna í fjölmiðlum eða almennri umræðu. Guðni Th. Jóhannesson sagðist óhikað vilja vekja athygli á mikilvægi þeirra og síðan rakti hann af góðri þekkingu hin ýmsu af viðfangsefnum Rótarý og árangur þeirra til hjálpar mannkyni með aðaláherslu á Polio Plus; baráttuna til

útrýmingar lömunarveiki í heiminum.  Meðal gestanna sem forseti Íslands hitti á Bessastöðum voru erlendir skiptinemar sem dveljast hér á vegum Rótarý.

„Þessi áhugi forseta Íslands er greinilega mikil uppörvun fyrir rótarýfólk á Íslandi og einnig fyrir Rótarýhreyfinguna í heild“, sagði Ian Riseley.

Ian og Juliet eiginkona hans, sem eru Ástralir, dvöldust hér á vegum íslenska rótarýumdæmisins í tvo daga í síðustu viku. Í för með þeim voru Mikael Ahlberg frá Svíþjóð, einn af framkvæmdastjórum Rotary International, og Charlotte eiginkona hans. Guðmundur Jens Þorvarðarson, umdæmisstjóri og eiginkona hans Svava Haraldsdóttir ásamt Knúti Óskarssyni, næsta umdæmisstjóra, og konu hans Guðnýju Jónsdóttur tóku á móti gestunum. Garðar Eiríksson, tilnefndur umdæmisstjóri og kona hans Anna Vilhjálmsdóttir, voru einnig gestgjafar í skoðunarferð um Suðurland.  Á fundi sínum sl. föstudagskvöld sagði Ian Riseley frá tilgangi ferðarinnar og upplifun sinni á Íslandi.

”Við erum að koma úr heimsókn okkar til Finnlands, Noregs og Danmerkur,“ sagði hann.“Það var ákvörðun okkar hjóna að leggja áherslu á að heimsækja lönd þar sem nokkuð er um liðið síðan alþjóðaforsetinn eða verðandi alþjóðaforseti hefur komið í heimsókn.  Ég tók eftir því að alþjóðaforsetinn sem hafði verið hér síðastur forseta Rótarý var hér árið 2007; Wilfrid J. Wilkinson frá Kanada.“

Á uppstigningardag var gestunum boðið í skoðunarferð um Suðurland og höfð viðkoma í Vinarskógi, þar sem þeir gróðursettu fjórar trjáplöntur. Alþjóðaforsetinn gekk fagmannalega til verks þegar hann hlúði að rótum plantnanna í blautri moldinni enda hellirigning á Þingvöllum.

„Ég er umhverfisverndarmaður að eðlisfari.  Mér finnst að við þurfum öll að vinna hörðum höndum að því vernda plánetuna sem við lifum á. Hún er það eina sem við höfum og við þurfum að fara gætilega,“ útskýrði Ian. „Ég hef spurt nýja umdæmisstjóra hvort þeir geti ekki hvatt til þess að rótarýklúbbarnir í heiminum gróðursetji eitt tré á hvern félaga. Það eru 1,2 milljónir trjáa sem væri stórfenglegt. En ávinningurinn yrði mun meiri en rúmlega milljón tré; þetta framtak myndi undirstrika fyrir heiminum og rótarýfólki sérstaklega að umhverfi okkar er mikilvægt og afstaða Rótarý í þeim efnum skiptir máli.“

Eftir stutta viðdvöl á Þingvöllum var haldið að Skyggnisvegi 15 í landi Úthlíðar í Biskupstungum þar sem Guðbjörg Alfreðsdóttir, fyrrv. umdæmisstjóri og Ásmundur Karlsson, eiginmaður hennar eiga fallegan sumarbústað. Þar var snæddur hádegisverður og margt spjallað um Rótarý og landsins gagn og nauðsynjar. Eftir hádegið var svo haldið að Gullfossi og Geysi og slegist í hóp fjölmennis sem komið var að sækja heim þessa mikilvægu ferðamannastaði landsins.

Þessu næst var haldið í Friðheima, gróðurhús og afar vinsælan veitingastað í Bláskógabyggð, þar sem aðallega eru ræktaðir tómatar og agúrkur er fara vel saman við ljúffengan mat og drykk sem er á matseðlinum.  Knútur Rafn Ármann og kona hans Helena Hermundardóttir reka þetta fyrirtæki sitt af einstökum myndarskap. Knútur kynnti starfsemina og bar fram heilsudrykkinn Healthy Mary (fjarskylda frænku Bloody Mary).

Að Reykjum á Skeiðum var komið síðdegis og farið í fjós. Bændurnir á Reykjum, þau hjónin Birna Þorsteinsdóttir og Rúnar Bjarnason, kynntu fyrir gestunum íslenskan mjólkurbúskap og boðið var upp á hinar vinsælu mjólkurafurðir MS, m.a. osta og skyr. Frá því var greint að viðræður stæðu yfir um framleiðsluleyfi  fyrir skyr í Ástralíu.  

Eftir heimsóknina til Bessastaða á föstudagsmorgun var Alþingi heimsótt og tóku rótarýfélagarnir Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður, sr. Hjálmar Jónsson, fyrrv. alþingismaður og Þorsteinn Pálsson, fyrrv. forsætisráðherra á móti gestunum. Vilhjálmur stjórnaði skoðunarferð um Alþingishúsið og greindi frá störfum þings og sögu þjóðar.

Að endingu var svo haldinn fundur í Rkl. Kópavogs á Grand Hótel Reykjavík, sem opinn var öllum rótarýfélögum. Sigfinnur Þorleifsson, klúbbforseti, setti fundinn og Guðmundur Jens Þorvaðarson, bauð erlendu gestina velkomna og kynnti Ian Riseley, sem ávarpaði síðan viðstadda.

Fjallaði hann m.a. um einkunnarorðin sem hann hefur valið fyrir næsta starfsár: „Rotary Making a Difference“. 

„Ekki er það mjög háfleygt og inntakið er ekki erfitt að skilja,“ sagð Ian. „En þetta er kjarninn í starfi Rótarýfólks alla daga. Við skiptum máli fyrir nærsamfélög okkar eins og þið gerið hér, og eins gagnvart umheiminum með PolioPlus og öðrum umfagnsmiklum verkefnum. Rótarý skiptir líka máli fyrir okkur sem einstaklinga. Ég hef verið í Rótarý meira en hálfa ævina. Ég var 31 árs og fremur feiminn, ungur endurskoðandi þegar ég gekk í klúbbinn minn heima í Ástralíu. En feimnin hefur horfið og það þakka ég félagsskapnum í Rótarý sem hefur þannig skipt mig máli persónulega. Nú bið ég ykkur að vinna í anda þessara einkunnarorða undir forystu umdæmisstjórans á næsta rótarýári.“

Einnig sagði alþjóðaforsetinn frá óskum sínum um að allir klúbbar geri grein fyrir fjárhæðum í gjaldmiðli lands síns sem þeir ráðstafa til góðgerðarmála, og tímanum í klukkustundum talið sem félagarnir verja til þeirra.

„Síðasta atriðið sem ég vil nefna eru menningarheimsóknir milli landa, Group Cultural Exchange, skipulagðar af Rótarý í líkingu við heimsóknir starfsskiptahópa eins og þær voru en hafa nú verið hafa verið lagðar niður. Um er að ræða gagnkvæmar heimsóknir til að auka skilning á milli þjóða til eflingar friði í heiminum. Fólki utan Rótarý yrði heimil þátttaka. Vonandi sjáum við gagnkvæmar heimsóknir milli Ástralíu og Íslands,“ sagði Ian Riseley undir lok ræðu sinnar.

Knútur Óskarsson þakkaði Ian Riseley fyrir komuna til Íslands og rifjaði upp fyrri fundi þar sem hann hefur heyrt Ian gera grein fyrir stefnumálum sínum næsta starfsár og fjalla um framtíðarsýn varðandi þróun hreyfingarinnar til langs tíma. Stefnumótun Ians væri skýr og markið sett hátt Rótarý til heilla.

                                                                                                                                                    Texti og myndir MÖA

 


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning