Fréttir

2.5.2017

Rótarýdagurinn 6. maí 2017

Undanfarin tvö ár hefur verið haldinn sérstakur Rótarýdagur, þar sem klúbbarnir hafa verið með ýmsa viðburði sem tengdust þeim einkunnarorðum, sem umdæmisstjóri hafði sett fram og tileinkað deginum.

Ég legg áherslu á að klúbbarnir noti þennan dag til að kynna Rótarýhreyfinguna. Hvert er hlutverk hennar og tilgangur. Það hefur löngum verið mörgum utanaðkomandi ráðgáta hvert er hlutverk Rótarý,“ segir Guðmundur Jens Þorvarðarson, umdæmisstjóri í ávarpi til klúbbanna.

Eins og ég hef kynnt í heimsóknum mínum til klúbbanna þá hef ég ákveðið að Rótarýdagurinn 2017 verði haldinn laugardaginn 6. maí. Ég hef ákveðið að leggja áherslu á að kynna Rótarý. Kynna hver er tilgangur Rótarýhreyfingarinnar, þjónustuhlutverk hennar og hvað það er sem gerir Rótarýhreyfinguna svo áhugaverða.

Það var ekki í anda Rótarýhreyfingarinnar hér áður fyrr að bera verkefni sín á torg og upplýsa almenning um að Rótarýhreyfingin væri að láta gott af sér leiða.  Þetta hefur breyst og nú hin síðari ár hefur Rótarýhreyfingin orðið sýnilegri og má víða í heiminum sjá verkefni, sem hreyfingin hefur átt þátt í að framkvæma.

Ég legg áherslu á að klúbbarnir noti þennan dag til að kynna Rótarýhreyfinguna. Hvert er hlutverk hennar og tilgangur. Það hefur löngum verið mörgum utanaðkomandi ráðgáta hvert er hlutverk Rótarý.

Rótarýhreyfingin hefur svo til allt frá upphafi lagt ríka áherslu á mannúðarmál og hefur þar verið í forystu ásamt öðrum samtökum.  Ber þar hæst útrýmingin á lömunarveiki.  Nú hin síðari ár hefur hreyfingin lagt aukna áherslu á að skapa kennsluaðstöðu, hreinlætisaðstöðu og aukinn aðgang að fersku vatni í vanþróuðum löndum og þróunarlöndum.

Í júní n.k. verður þess minnst á veglegan hátt á Alþjóðaþingi Rótarý í Atlanta að eitthundrað ár eru frá því að styrktarsjóður í nafni Rótarýhreyfingarinnar var stofnaður, sem svo síðar varð sá Rótarýsjóður, sem við þekkjum í dag og skiptist hann í nokkra sjóði og er Polio Plus sjóðurinn þar fremstur í flokki.  Ekki væri úr vegi að halda þessu á lofti 6. maí.

T.d. geta klúbbarnir boðið upp á fund sem er opinn almenningi, þar sem lögð verður áhersla á að kynna starfsemi Rótarýhreyfingarinnar og verkefni, sem hreyfingin vinnur að út um allan heim og þá sérstaklega í þróunarlöndunum. Þeir klúbbar sem tekið hafa þátt í slíkum verkefnum gætu kynnt þau sérstaklega. Margir klúbbar á Íslandi hafa haft með höndum verkefni í sinni heimabyggð og skapast þarna tækifæri til að kynna þau. 

Eins er hægt að vera með uppákomur og/eða kynningar á opnum stöðum þar sem almenningur er á ferð.

Kynningarbækling um Rótarý má nálgast á skrifstofu Rótarý á Íslandi eða panta á rotary@rotary.is

                                                                                        Með Rótarýkveðju,

                                                                            Guðmundur Jens Þorvarðarson

                                                                                  Umdæmisstjóri 2016-2017


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning