Fréttir

30.3.2017

Lokið við þróunarverkefni á Indlandi

Um miðjan mars var fagnað verklokum við þróunarverkefni, sem íslenska rótarýumdæmið og nokkrir íslenskir rótarýklúbbar hafa staðið að í Mumbai á Indlandi í samstarfi við rótarýumdæmi þar og alþjóðlega Rótarýsjóðinn.

Guðbjörg Alfreðsdóttir, fyrrverandi umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi og Birna G. Bjarnadóttir, fyrrum formaður Rótarýsjóðsnefndar, beittu sér fyrir þátttöku íslenska rótarýumdæmisins í alþjóðaverkefni (global grant) á starfsárinu 2014-2015. Um var að ræða verkefni á Indlandi sem nefnist „toilet and bath blocks“. Íslensku klúbbarnir Rkl. Görðum, Garðabæ, Rkl. Borgir Kópavogi og Rkl. Reykjavík Miðborg, styrktu framkvæmdina.

."Ég velti mikið fyrir mér á mínu starfsári að taka þátt í verkefnum erlendis," segir Guðbjörg Alfreðsdóttir. "Á árinu 2013 fórum við hjónin í vinaskiptaferð til Suður-Afríku með fjórum öðrum hjónum. Það vakti mig mikið til umhugsunar um að huga að þátttöku í verkefnum erlendis, enda þörfin mikil í ýmsum löndum. Ég leitaði mikið á netinu að verkefnum en því miður var það ekki mjög aðgengilegt. Það var svo umdæmisstjóri á Indlandi sem ég hafði kynnst á fræðslumóti fyrir verðandi umdæmisstjóra sem hafði samband og óskaði eftir samvinnu. Þá var samþykkt að umdæmið okkar tæki þátt í Heimsstyrkjaverkefni – Global Grant Record sem stofnað var til af rótarýklúbbnum Mumbai Downtown."

         

Staðsetning verkefnisins  er á starfssvæði rótarýklúbbsins Mumbai Downtown Sealand og sá hann um framkvæmdir. Hafa verið reistar 46 einingar sem eru með salerni og baði og sjá 260 manns fyrir hreinlætisaðstöðu. Þannig á að bæta heilsufar og hreinlæti íbúa sem eru undir fátækramörkum.

Í upphafi vantaði vatn á svæðið til að hægt væri að ráðast í aðgerðir. Stjórnvöld leystu vandamálið og útveguðu vatnið. Kennarar, sem eru styrktir af Rótarý, rótarýfélagar og félagar í Rotaract hafa séð um fræðslu og miðlað kennslu til íbúa. Þeim hefur verið kennd notkun hreinlætisaðstöðu og hvernig ber að þrífa sig og aðstöðuna. Einnig sjá þeir um reglulegt eftirlit. Umdæmið á Íslandi lagði til 15.000 USD úr svokölluðum DDF, District Designated Fund.  Umdæmi 3140 Indlandi lagði til 20.000 USD úr DDF. Þá jafnaði Rotary Foundation heimssjóðurinn með 35.500 USD mótframlagi. Heildarkostnaður verkefnisins var um USD 70.000.

Íslenska rótarýumdæmið hefur styrkt annað verkefni á Indlandi, þ.e. kaup á borðum, stólum og hreinlætisaðstöðu í skóla í Madurai. 

                                                                                                                                                                         Texti MÖA


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning