Verðandi umdæmisstjóri kynnti stefnu sína á fræðslumóti
Klúbbarnir minntir á Rótarýdaginn 6. maí n.k.
„Kannski er næsta kynslóð, kynslóðin sem getur“ verður þema Knúts Óskarssonar, næsta umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi. Undirtitillinn verður: „Framtíð barna í flóknu samfélagi“. Knútur tilkynnti þetta á fræðslumóti með verðandi embættismönnum rótarýklúbbanna. Hann sagði sjálfsmynd barna og unglinga í auknum mæli byggða á samfélagsmiðlum þar sem ákveðið ofbeldi getur átt sér stað, er veldur kvíða og hugarangri. Samskipti sem að stórum hluta fara fram í miðlunum efla ekki hæfileikana til eðlilegra samskipta augliti til auglitis. Knútur sagði að hann myndi taka þetta málefni til umfjöllunar í heimsóknum sínum til rótarýklúbbanna í haust, ásamt því að hvetja þá til að hafa það á dagskrá á fundum. Einnig verður það rætt á umdæmisþinginu í október.
Fræðslumót verðandi forseta, ritara og gjaldkera rótarýklúbbanna á Íslandi fór fram í Menntaskólanum í Kópavogi í gær, laugardaginn 11. mars. Hinir nýju leiðtogar klúbbanna fengu þar ítarlega fræðslu um Rótarýhreyfinguna og skipulagningu starfsins framundan. Höfuðáhersla var lögð á öfluga og áhugaverða dagskrá í klúbbunum ásamt öðrum aðgerðum til að fjölga félögum með inngöngu yngra fólks í klúbbana. Knútur Óskarsson setti mótið og stjórnaði því.
Heimsforseti kemur í heimsókn
Guðmundur Jens Þorvarðarson, umdæmisstjóri, ávarpaði þátttakendur og minnti á að Rótarýdagurinn verður haldinn laugardaginn 6. maí n.k. Er gert ráð fyrir að klúbbarnir skipuleggi aðgerðir hver á sínum stað er miði að því að kynna Rótarýhreyfinguna í heimabyggð þeirra, m.a. með því að efna til funda sem verði opnir almenningi eða fara á almenningsvettvang til að vekja athygli á starfi klúbbanna. Guðmundur Jens gat þess að Ian H.S. Riseley frá Ástralíu, sem tekur við embætti alþjóðaforseta Rótarý í júlí, er væntanlegur til Íslands ásamt eiginkonu sinni í lok maí og mun dveljast hér í nokkra daga. Boðaður verður fundur rótarýfélaga með honum og er þess vænst að sem flestir klúbbar eigi fulltrúa þar.
Jens Erik Rasmussen, danskur leiðbeinandi frá Rotary International, flutti afar greinargóðan og vekjandi fyrirlestur undir yfirskriftinni „Hvað er Rótarý?“. Fjallaði hann um hinar ýmsu hliðar á starfseminni og veikleikana sem víða blasa við og koma fram í því að félagar hætta og endurnýjun er dræm.. Síðdegis hélt Jens Erik annað stórfróðlegt erindi þar sem hann kom að kjarna vandamálanna sem við er að etja og benti á marktækar viðhorfsbreytingar til Rótarý. Unga fólkið og konurnar, sem höfða þarf til sérstaklega, vilja fá sterka sannfæringu fyrir að tímanum sé vel varið í starfi fyrir Rótarý, þar sem markmiðssetning sé ljós og málstaðurinn góður. Það eigi ekki lengur við í Rótarý að komið sé á fund einvörðungu til hitta gamla félaga, spjalla og borða góðan mat. Aðgerða er þörf.
Ítarleg kynning á hlutverki Rótarý
Knútur Óskarsson, umdæmisstjóri 2017-2018, sem tekur við embætti hinn 1. júlí n.k. flutti yfirgripsmikla kynningu á hinum ýmsu þáttum í starfi Rótarý hér innanlands og úti í heimi. Hann gerði grein fyrir mannúðarmálum, sem Rótarý starfar að á alþjóðavettangi og minntist sérstaklega 100 ára afmælis Rótarýsjóðsins á þessu ári. Sjóðurinn var brautryðjandi í baráttunni gegn lömunarveiki í heiminum og starfar enn ötullegga að þeim málum með PolioPlus-herferðinni. Þá fór Knútur yfir hin ýmsu skipulagsatriði sem leiðtogar klúbbanna þurfa að standa skil á, m.a. gerð traustra starfsáætlana og hvernig háttað skuli samskiptum þeirra við umdæmisskrifstofuna hér á landi og við alþjóðaskrifstofu Rótarý. Einnig beindi hann athygli fundarmanna að nýjum og sveigjanlegum heimildarákvæðum í reglum Rótarý um fjölda og form klúbbfunda, sem gert er ráð fyrir að höfði betur en þær eldri til ungs fólks og kvenna er áhuga hafa á að gerast þátttakendur í Rótarý.
Tré á mann
Umdæmisstjórinn hverju sinni starfar sem fulltrúi alþjóðaforseta Rótarý. Knútur gerði því grein fyrir helstu stefnumálum verðandi forseta Rotary International, Ian H.S. Risley, endurskoðanda frá Ástralíu. Knútur kynnti ennfremur áhersluatriði sem hann sjálfur hyggst beita sér fyrir í umdæmisstjóra-starfinu á næsta starfsári. Meðal annars hvetur hann til þess að klúbbarnir gróðursetji eitt tré fyrir hvern rótarýfélaga, og að félagar gróðursetji sjálfir sitt tré ef því verður við komið. Þá gerir Knútur ráð fyrir að framlag íslensku klúbbanna í svokallaðan Annual Fund innan Rótarýsjóðsins verði að minnsta kosti 50 Bandaríkjadalir á hvern félaga, innheimt með félagsgjöldum eða fjármagnað á annan hátt. Nokkur önnur áhersluatriði sem Knútur undirstrikaði í máli sínu eru eftirfarandi: Greina veikleika og styrkleika klúbba. Fjölga meðlimum og gera félaga virkari. Allir klúbbar stefni að því að sinna a.m.k einu samfélagsverkefni.
Eins og jafnan á sambærilegum fræðslumótum fengu þátttakendur tilsögn hjá Guðna Gíslasyni, vefstjóra rotary.is, í skráningu upplýsinga inn á vefsíðu umdæmisins og Rotary International, sem og heimasíður klúbbanna.
Enn meiri fræðsla
Á síðdegisfundi mótsins var gerð grein fyrir hlutverki aðstoðarumdæmisstjóranna. Þá fjallaði Eiríkur H. Sigurðsson, formaður Rótarýsjóðsnefndar, um framlög í sjóðinn og styrki sem hann veitir. Hann gaf stutt yfirlit yfir hið afar merka starf sjóðsins að mannúðarmálum í heiminum í 100 ár, fyrst og fremst útrýmingu lömunarveikinnar. Mælti hann eindregið með því að íslenskir rótarýfélagar legðu fram hver og einn 100 Bandaríkjadali á ári til sjóðsins eða sem nemur 1000 krónum á mánuði. Eiríkur vakti athygli á friðarstyrkjunum sem sjóðurinn veitir til framhaldsnáms í friðarfræðum við nokkra erlenda háskóla. Ellefu slíkir styrkir hafa komið í hlut Íslendinga. Þá veitir sjóðurinn mótframlög til samfélagsverkefna sem klúbbar beita sér fyrir á heimaslóðum og til samvinnuverkefna klúbba og umdæma í ólíkum löndum. Gildir það m.a. um verkefni sem íslenska rótarýumdæmið stendur að í Mumbai í Indlandi í samvinnu við umdæmi þar.
Þær Hanna María Siggeirsdóttir og Klara Lísa Hervaldsdóttir skýrðu frá hinum öflugu ungmennaskiptum á milli landa í nafni Rótarý. Um allan heim fá 8000 skólanemar tækifæri á yfirstandandi ári til náms utan heimalands síns. Í ágúst n.k. fara sjö íslenskir nemar til dvalar erlendis og skólagöngu. Jafnmargir erlendir nemar koma hingað til lands. Íslenska umdæmið styrkir klúbba til þátttöku í nemendaskiptunum með 150 þús. króna framlagi. Æskulýðsnefnd umdæmisins hefur hug á að efna til sumarbúðastarfs fyrir erlend ungmenni á næsta ári og lýsir eftir áhugasömum klúbbum til samstarfs.
Fræðslumótinu lauk með því að verðandi forsetar, ritarar og gjaldkerar mátu stöðu og starf eigin klúbba og síðar fóru fram umræður um starfsáætlun og stefnumörkun undir stjórn Margrétar Friðriksdóttur, umdæmisleiðbeinanda, Rkl. Borgum, Knúts Óskarssonar, verðandi umdæmisstjóra, Rkl. Mosfellssveitar, og aðstoðarumdæmisstjóranna Garðars Eiríkssonar, Rkl. Selfoss, og Ragnars Jóhanns Jónssonar, Rkl. Akureyrar.
Texti og myndir MÖA