Rótarýsýning í Amtsbókasafninu á Akureyri
Það hefur staðið til um nokkurt skeið að sett yrði upp Rótarýsýning í Amtsbókasafninu á Akureyri. Áformið varð að veruleika núna í febrúar og eru sýningarskápar með myndefni og öðrum gögnum á stóru svæði í anddyri safnsins. Utanhúss blaktir rótarýfáninn við hún. Margir hafa tekið þátt í undirbúningsstarfinu, m.a. klúbbfélagarnir María Pétursdóttir og Þórhallur Sigtryggsson, sem unnu að uppsetningu sýningarinnar.
Forysta klúbbsins fagnaði opnun sýningarinnar og færði Hermanni Sigtryggssyni þakkir fyrir alla vinnuna sem hann hefur lagt af mörkum. Á myndinni eru Soffía Gísladóttir, viðtakandi forseti Rótarýklúbbs Akureyrar, Hermann Sigtryggsson og Ragnar K. Ásmundsson, núverandi forseti.
Fjöldi gesta hefur komið sérstaklega til að sjá sýninguna og margir þeirra sem fyrst og fremst eiga erindi í bókasafnið nota tækifærið til að staldra við í leiðinni og skoða sýningu rótarýklúbbsins. Er það áhugafólk á öllum aldri. Sýningunni voru gerð skil í sjónvarpsþætti á N4, sjónvarpsstöð Akureyrar og norðausturlands. Sýningunni lýkur 27. febrúar.
Myndir Hermann Sigtryggsson. Texti MÖA.