Fréttir

9.1.2017

Styrkveiting á glæsilegum stórtónleikum Rótarý

Stórtónleikar Rótarý 2017 voru haldnir í Norðurljósasal Hörpu í gær 8. janúar og stóðu frá kl. 20.00 til 22.30 með hléi þegar tónleikagestir skáluðu í kampavíni og fögnuðu nýju ári. Á tónleikunum voru m.a. afhentir styrkir úr Tónlistarsjóði Rótarý. Að þessu sinni hlutu þá Ísak Ríkharðsson, fiðluleikari og Jóhann Kristinsson, baritón, kr. 800.000 hvor. Báðir stunda framhaldsnám erlendis, Ísak í Zürich og Jóhann í Berlín. Komu þeir fram í dagskrá tónleikanna.  Á myndinni eru f.v. Guðmundur Jens Þorvarðarson, umdæmisstjóri Rótarý, Ísak Ríkharðsson, Jóhann Kristinsson og Erlendur Hjaltason, formaður stjórnar Tónlistarsjóðs Rótarý.  

Dagskrá tónleikanna var fjölbreytt og var þar í aðalhlutverki óperusöngvarinn Elmar Gilbertsson, tenór, með ljóðasöng og flutning á aríum úr vinsælum óperum. Helga Bryndís Magnúsdóttir lék á píanó.

Bergþór Pálsson, óperusöngvari og félagi í Rótarýklúbbnum Reykjavík Austurbær, var kynnir kvöldsins og fórst það hlutverk vel úr hendi með smekkvísi sinni og góðri kímni.

Guðmundur Jens Þorvarðarson, bauð gesti velkomna og þakkaði Jóni Ögmundssyni, framkvæmdastjóra tónleikanna, ásamt öðrum félögum sínum í Rótarýklúbbi Kópavogs fyrir gott undirbúningsstarf. Hann færði Jónasi Ingimundarsyni, píanóleikara og félaga í Rótarýklúbbi Reykjarvíkur, sérstakar þakkir fyrir frumkvöðulsstarf að hinu árlega tónleikahaldi Rótarý, þar sem Jónas er enn ráðgjafi og skipuleggjandi tónleikadagskrár.

Sigríður Snævarr, sendiherra, félagi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur, flutti ávarpsorð í upphafi tónleikanna, eins konar hátíðarkveðju til tónlistarinnar. Hún minnti á að hljómfallið væri mannkyninu eðlilegt, og hvernig það kallaði fram viðbrögð eins og bros og dans frá blautu barnsbeini. Hljóðfæri hafi fylgt manninum í tugþúsundir ára. Í Þýskalandi hafi fundist flauta úr fórum steinaldarfólks. Vísindamenn telji að hið framsækna afl tónlistarinnar hafi m.a. stuðlað að yfirburðum hins viti borna manns. Tónlistin hefur haft mótandi áhrif á menninguna og meðal annars eflt útbreiðslu kristninnar vegna þess að hið talaða orð barst aðeins til þeirra sem sátu á fremstu bekkjum í kirkjunum. Íslenski sálmurinn „Kirkjan ómar öll“ lýsi hughrifum safnaðarins við messusöng og orgelspil. Þá fjallaði Sigríður um ákvörðun sænsku Nóbelsnefndarinnar að veita Bob Dylan, sjálfmenntuðum þjóðlagasöngvara, bókmenntaverðlaunin 2016. Til forna voru ljóð sungin við óma lírunnar. Gítarinn væri líra bókmenntaunnandans Dylans og með vinsældum sínum um heim allan á tónleikum og í fjömiðlum hefði hann flutt ljóðið til fólks sem ella hefði aldrei komist í kynni við það. Þar sem orðunum sleppir tekur tónlistin við.


Tónleikadagskráin hófst með því að Elmar Gilbertsson, tenór, flutti Dichterliebe op. 48 eftir Robert Schumann við ljóð Heinrich Heine í þýðingu Reynis Axelssonar. Elmar Gilbertsson stundaði meistaranám í óperusöng í Amsterdam og hefur á síðari árum komið fram í óperuhúsum og tónleikasölum í Hollandi, Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi auk þess sem hann hefur sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslensku óperunni.  Elmar hlaut hinar bestu viðtökur áheyrenda við ljóðasöng sínum.


Ragnheiður Steindórsdóttir, leikkona, flutti ljóðaþýðingar Reynis en Helga Bryndís Magnúsdóttir lék á píanóið. 

Í tónleikahléi fóru gengu gestir fram í anddyri í Hörpu og þáðu þar hressingu. Tónleikarnir voru vel sóttir og voru gestir á ýmsum aldri. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrv. forseti Íslands og núverandi félagi í Rótarýklúbbnum Reykjavík Miðborg var meðal gesta. Jóhann Sigurjónsson, sendiherra, fyrrv. forseti Rótarýklúbbs Reykjavíkur var mættur ásamt stórfjölskyldunni. Hátíðlegur bragur var á þessari samverustund snemma á nýju ári.

Að lokinni afhendingu styrkjanna úr Tónlistarsjóði Rótarý var röðin komin að styrkþegunum að ganga fram á sviðið og flytja list sína. Jóhann Kristinsson, baritón, söng aríu úr óperunni I Puritani eftir Bellini og Faust eftir Gounod, og Ísak Ríkharðsson lék á fiðlu konsert-rapsódíu eftir Maurice Ravel, Tzigane. Helga Bryndís Magnúsdóttir lék á píanóið í báðum atriðum.

Í lok tónleikanna kom Elmar Gilbertsson fram á nýjan leik og lék á alls oddi í söng kunnra verka af óperusviðinu, úr Il Pagliacci eftir Leoncavallo, Land des Lächelns eftir Lehár og Rigleotto eftir Verdi. Áheyrendur þökkuðu þeim Elmari og Helgu Bryndísi ásamt öðrum sem fram komu með langvarandi lófataki í lok þessara glæsilegu tónleika Rótarý á Íslandi.                                                                                                                                                                  Texti og myndir MÖA


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning