Stórtónleikar Rótarý 8. janúar 2017
Tónlistarsjóður Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi mun þann 8. janúar 2017 standa fyrir stórtónleikum í Norðurljósasal Hörpu, líkt og undanfarin ár. Tónleikarnir hafa skapað sér góðan sess sem vettvangur til að styrkja unga tónlistarmenn, enda hafa margir frábærir komið fram á tónleikunum undanfarin ár.
Á tónleikunum mun Elmar Gilbertsson tenór koma fram en hann hefur vakið mikla athygli fyrir hlutverk sitt í óperunni Ragnheiði og nú óperunni Évgení Onegin sem sýnd hefur verið hjá Íslensku Óperunni undanfarið við góðan orðstír.
Í þetta sinn verða styrkþegar Rótarýsjóðsins tveir, Jóhann Kristinsson, barítón, og Ísak Ríkharðsson, fiðluleikari.
Miðar eru nú til sölu á vef Hörpu, Harpa.is og kosta kr. 5000 miðinn.
Hér er tengill beint inn á síðu Hörpunnar: Smellið hér.
Við hverjum alla Rótarýfélaga að styrkja þetta verðuga verkefni og kaupa miða á tónleikana. Við biðjum forseta allra rótarýklúbba að kynna þennan viðburð á klúbbfundum og með tölvupósti til rótarýfélaga.
Verðlaunahafar Tónlistarsjóðs Rótarý á Íslandi 2017.
Jóhann Kristinsson, baritón (f.1988) er í mastersnámi við Hochschule für Musik „Hanns Eisler“ Berlín, en hann hóf söngnám árið 2009 hjá Bergþóri Pálssyni við Söngskólann í Reykjavík og lauk 8. stigi frá Söngskólanum með ágætiseinkunn.
Jóhann hefur tekið þátt í ýmsum uppfærslum hér á landi og í Evrópu. Jóhann fór með hlutverk séra Torfa í frumflutningi óperunnar Ragnheiður eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson í Skálholti, Morales í uppfærslu Íslensku Óperunnar á Carmen, sem og á tónleikum í núverandi skóla sínum „Exzellenz-Konzert im Krönungskutschen Saal“ þar sem nemendum sem skara fram úr er boðið að koma fram.
Ísak Ríkharðsson, fiðluleikari (f. 1993) er í mastersnámi við Tónlistarháskólann í Zürich, en Ísak lauk BA námi við sama skóla 2015. Ísak hóf fiðlunám 3ja ára gamall hjá Lilju Hjaltadóttur og haustið 2003 hóf hann nám við Listaháskóla Íslands undir leiðsögn Guðnýjar Guðmundsdóttur.
Ísak hefur verið lausráðinn við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 2012 og Sinfóníuhljómsveitina í Liechtenstein frá árinu 2013. Ísak vann sólistakeppni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og lék með henni 2. fiðlukonsert Prokofievs í janúar 2012. Hann mun í vetur leika með Áhugamannahljómsveit Winterthur, Winterthurer Symphoniker, þar sem hann leiðir 2. fiðlu deild hljómsveitarinnar sem og strengjasveit Tónlistarháskólans í Zürich.