Fréttir

30.10.2016

Rótarýskákmót og fróðleg frásögn á Hótel Sögu

Snjallir skákmenn úr rótarýklúbbum settust að tafli í góðum félagsskap á Hótel Sögu miðvikudagskvöldið 19. október sl. Áður en skákkeppnin hófst flutti Guðmundur G. Þórarinssson, fyrrum forseti Skáksambands Íslands,  fræðandi og  skemmtilega frásögn af undirbúningi heimsmeistaraeinvígis Bobby Fischers og Boris Spasski  í Reykjavík árið 1972.

Það voru Rkl. Reykjavíkur, Rkl. Þinghóll Kópavogur og  Rkl. Reykjavík Breiðholt, sem tóku höndum saman um undirbúning þessa móts en Breiðholtsklúbburinn hélt fyrsta skákmót Rótarý á Íslandi í apríl 2014. Fulltrúar þessara klúbba, þeir Jón Karl Ólafsson, Jón Guðlaugur Magnússon og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson komu að framkvæmd mótsins en stjórn þess var í höndum Gunnars Björnssonar, forseta Skáksambands Íslands. Meðal gesta  var Friðrik Ólafsson, stórmeistari og félagi í Rkl. Reykjavíkur. Ennfremur stórmeistararnir Jóhann Hjartarson og Jón L. Árnason, Rkl. Reykjavík Breiðholt, sem tefldu á mótinu. Mótið var opið öllum rótarýfélögum og áhugasömum gestum þeirra.  Í  tilkynningu um mótið sagði:

„Í Rótarýhreyfingunni eru meðal annarra fremstu skákmenn Íslands og því gott tækifæri fyrir óþekkta skákmenn að koma þeim á óvart.“

Áður en skákin byrjaði sagði Guðmundur G. Þórarinsson, fyrrv. forseti Skáksambands Íslands, frá aðdraganda þess að Ísland var valið sem mótsstaður fyrir heimsmeistaraeinvígi þeirra Fischer og Spasski  sem haldið var í Laugardalshöllinni 1972. Var þetta mjög fróðleg frásögn hjá Guðmundi, sem greindi frá ýmsum meðvituðum athöfnum sem áhrif höfðu á þessa ákvörðun og ekki síður tilviljunum, sem gátu riðið baggamun. Fram kom að Sovétmenn vildu að heimsmeistari þeirra Boris Spasski tefldi á Íslandi, líklegast í þakklætisskyni fyrir að Friðrik Ólafsson, virtur stórmeistari á alþjóðavettvangi, hafði skömmu áður þegið heimboð Rússa um að tefla á stórmóti í Moskvu, sem þeim var annt um að halda með glæsibrag en sterkustu skákmenn utan Sovétríkjanna höfðu engan áhuga sýnt.

Bobby Fischer lét bíða eftir sér þegar einvígið var að ganga í garð og mikil óvissa ríkti um það, hvort hann myndi yfirleitt láta sjá sig. Guðmundur greindi frá því hvernig Ólafur Jóhannesson, þáverandi forsætisráðherra, beitti sér gagnvart bandarískum stjórnvöldum. Sagan segir að á endanum muni það hafa verið Henry Kissinger, aðstoðarmaður Nixons þáverandi forseta Bandaríkjanna, sem skipaði Fischer að fara til Íslands og ná heimsmeistaratitlinum af Sovétmönnum.

Úrslit Rótarýskákmótsins á Hótel Sögu urðu þau að Jóhann Hjartarson bar sigur úr býtum en Jón L. Árnason var í öðru sæti. Þeir eru báðir í Rkl. Breiðholt, sem sigraði í keppni rótarýklúbba. Í öðru sæti var Rkl. Seltjarnarness. Keppendur frá honum voru Árni Ármann Árnason og Bjarni Torfi Álfþórsson. Rkl. Seltjarnarness mun sjá um næsta skákmót Rótarý að ári.

Sjá myndband: Smellið hér

                                                                                                                                             Texti, myndir,myndband MÖA


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning