Fréttir

26.10.2016

„Okkur vantar tilfinnanlega yngra fólk í klúbbana“

Í ávarpi sínu við setningu 71. umdæmisþings Rótarý á Íslandi ræddi Guðmundur Jens Þorvarðarson, umdæmisstjóri, m.a. um félagaþróun í hreyfingunni. Hann fjallaði einnig um mörg önnur atriði sem ofarlega eru á baugi hjá Rótarý um þessar mundir. Ávarp umdæmisstjóra fer hér á eftir í heild sinni.

 

„Ágætu Rótarýfélagar og gestir.

Dear representatives for RI and for the Scandinavian countries.

Ég býð ykkur öll velkomin á þetta 71. umdæmisþing, sem haldið er á Íslandi í umdæmi 1360.

Á þessu þingi minnumst við þess að umdæmið okkar varð 70 ára á þessu ári en það var formlega stofnað 1. júlí 1946. 

Síðan hefur runnið mikið vatn til sjávar og starfsemi Rótarý orðið sýnilegri í umhverfinu.  Starfsemin sem slík hefur í grunninn ekki breyst mikið.  Allt frá stofnun Rótarýhreyfingarinnar hefur eitt af aðalmálefnum hreyfingarinnar verið að láta gott af sér leiða og eru einkunnarorð hreyfingarinnar, sem hafa verið frá upphafi „Service above self“ eða þjónusta ofar eigin hag, enn í fullu gildi.  Hver alþjóðaforseti hefur síðan haft sín einkunnarorð og eru einkunnarorð núverandi alþjóðaforseta „Rotary Serving Humanity“ (á íslensku: Rótarý þjónar mannkyni) sem lýsir vel hvað Rótarý stendur fyrir.

Hækkandi meðalaldur félaga

Eitt af vandamálum hreyfingarinnar á Íslandi í dag er að meðalaldur klúbbfélaga fer stöðugt hækkandi.  Við erum ekki eina landið sem eigum við þennan vanda að etja, sem í sjálfu sér er ekki vandi á meðan menn eru í fullu fjöri þrátt fyrir háan aldur.  En það er alveg ljóst að með inngöngu yngra fólks sem hefur áhuga fyrir að starfa í anda Rótarýhreyfingarinnar kemur ákveðinn ferskleiki og geta þá skapast aukin tækifæri fyrir klúbbana.  Ég var staddur á rótarýráðstefnu svæða 15 og 16 í Stokkhólmi í síðustu viku.  Þar kom fram að Norðurlöndin eiga við þetta sama  vandamál, hvað varðar hækkun meðalaldursins, að stríða.  Þó mismikið.

Eitt af þeim atriðum, sem núverandi alþjóðaforseti Rótarý leggur áherslu á, er að yngja upp í hreyfingunni og fá unga fókið til að ganga til móts við hana og gerast félagar í Rótarý.  Í Bandaríkjunum og víða í Evrópu er ungmennastarf í töluverðum mæli í hreyfingunni og þá sérstaklega í formi Rotaract og Interact klúbba,  sem að hluta til eru uppalendur fyrir væntanlega rótarýfélaga, eða eigum við að segja að æskilegt væri að svo væri.  Á Norðurlöndunum er töluvert um ungmennastarf  bæði í Interact- og Rotaractklúbbum.  En þó að sumir af þeim sem starfa í Rótaractklúbbum gangi í Rótarýklúbb, er vilji hreyfingarinnar að það sé í meira mæli.  Okkur  vantar tilfinnanlega yngra fólk í klúbbana og er örugglega gott að hafa blöndu af eldri og yngri.  Þegar ég er hér að tala um yngra fólk á ég við fólk á aldrinum fjörutíu plús.   Ein af þeim breytingum sem hafa verið gerð á lögum Rotary International er að fækka megi fundardögum.  Þetta er að hluta til gert til að gera ungu fólki auðveldara að mæta á fundi.  Meira verður fjallað um þær lagabreytingar, sem tóku gildi 1. júlí s.l. í vinnustofum og á þinginu.

Það er ljóst að félagafjöldi í umdæminu okkar hefur verið svipaður hin síðari ár, í kringum 1.200 félagar, sem er mjög hátt hlutfall miðað við íbúafjöldann á Íslandi og mun ég leggja áherslu á að við a.m.k höldum í þann fjölda.  Eina landið sem hefur fjölgað klúbbfélögum á svæðum 15 og 16 er Litháen.  Ísland hefur staðið í stað (örlítið fækkað frá miðju ári í fyrra) en í öðrum löndum svæða 15 og 16 hefur klúbbfélögum fækkað.

Klúbbarnir virkir í nærumhverfinu

Eitt af því sem felst í því að láta gott af sér leið er að vinna að verkefnum sem þörf er á í nærumhverfi rótarýklúbbs, hvort sem það er í formi aðstoðar við eitthvað sem miður fer eða stuðlar að betrumbótum, eða jafnvel veitir einskaklingum, eða samtökum, sem skara fram úr styrki eða viðurkenningar

Rótarýklúbbarnir á Íslandi hafa verið duglegir við að sinna verkefnum í sinni heimabyggð og þar er um að ræða hin fjölbreyttustu verkefni.  Þeir hafa ekki í gegnum árin gert mikið af því að taka þátt í verkefnum á alþjóðavísu, en þó eru undantekningar þar á. 

Klúbbarnir hér heima hafa fyrst og fremst tekið óbeint þátt í erlendum verkefnum með því að leggja sitt af mörkum í Rótarýsjóðinn, sem hefur veitt styrki til allskonar verkefna, sem lúta að mannúðarmálum á heimsvísu og þá fyrst og fremst til að stuðla að auknum friði í heiminum og til að stuðla að auknum forvörnum í sjúkdómum og ber þar hæst verkefni til að stuðla að útrýmingu lömunarveiki.  Hin síðari ár hefur verið lögð mikil áhersla á að aðstoða fátækar þjóðir við að koma upp vatnssalernum, hreinlætisaðstöðu, aðgengi að drykkjarvatni og einnig skólastofum.

Ég hef fundið fyrir því að klúbbarnir hafa sýnt aukinn áhuga á að leggja fjármuni í „Annual“-sjóðinn og ætla síðan að sækja um styrk úr honum til verkefna í heimabyggð.

Mikilvægi Friðarsjóðsins

Einn af þeim þáttum í starfi Rótarýhreyfingarinnar, sem hreif mig á fyrrnefndri ráðstefnu í Stokkhólmi var tilgangur Friðarsjóðsins.  Við sátum fyrirlestur sem fór fram í Háskólanum í Uppsölum.  Við háskólann er rekin deild, þar sem friðarstyrkþegar geta stundað meistaranám í friðarmálum.  Þar hlustuðum við m.a. á unga konu, sem hafði lokið námi við deildina, segja frá störfum sínu að friðarmálum víða í heiminum, m.a. í Afganistan.  Frá því að byrjað var að úthluta styrkjum úr Friðarsjóðnum hafa um 1.000 umsækjenda hlotið þann styrk, þar af 10 Íslendingar og mun ein umsókn vera í farvatninu núna.

Ungmennastarf og þá sérstaklega nemaskipti hafa gengið mjög vel á Íslandi og er ég viss um að miðað við höfðatölu skorum við þar hátt.

Eitt af þeim atriðum sem núverandi forseti RI leggur áherslu á er að gera Rótarý sýnilegra í samfélaginu og heiminum öllum.  Þetta hefur reyndar verið áhersluatriði hin síðustu ár.

 Rótarý verði sýnilegra

Fyrr á tímum var það ekki í anda Rótarý að bera verkefni sín á torg og upplýsa almenning um að Rótarý væri að láta gott af sér leiða.  Jafnvel kom það fyrir að verkefni, sem Rótarý vann í samstarfi við aðra, að samstarfsaðilanum var alfarið þakkað.    Þetta hefur breyst hin síðari ár.  Stefna RI í dag er að gera Rótarý sýnilegra og að Rótarýhreyfingin hljóti lofið fyrir það sem samtökin hafa afrekað.  Það hefur löngum verið mörgum utanaðkomandi ráðgáta hvert er hlutverk Rótarý. 

Umdæmið á Íslandi hefur síðstliðin tvö ár haldið Rótarýdaginn.  Til að kynna Rótarý, hvað Rótarý stendur fyrir, þjónustuhlutverk Rótarý og jafnvel til að auka áhuga fólks á Rótarý.  Það er vilji þess sem hér stendur að halda áfram þeirri stefnu að hafa sérstakan Rótarýdag í þeim tilgangi sem hér hefur verið lýst.

 Hluti af heimshreyfingu

Íslenska umdæmið er partur af stóru hjóli Rótarýhreyfingarinnar og með veru sinni í hreyfingunni skuldbindur umdæmið sig til að gangast undir regluverk RI, sem sumum finnst oft á tíðum í strangara lagi.  En engu að síður verðum við, til að teljast hluti af heimshreyfingu Rótarý að uppfylla lágmarks-kröfur og það er ekki erfitt ef áhugi og vilji er fyrir hendi. 

Að lokum óska ég þess að þátttakendur á þessu þingi eigi eftir að eiga ánægjlegar og skemmtilegar stundir og fari heim í klúbbana sína örlítið fróðari um starfsemi Umdæmisins og RI.

Félögum mínum í Rótarýklúbbi Kópavogs og á ég sérstaklega við þá klúbbfélaga, sem hafa lagt á sig ómælda vinnu við að gera þetta umdæmisþing að veruleika, þakka ég sérstaklega fyir þeirra þátt.

Um leið og ég óska umdæminu á Íslandi til hamingju með 70 ára afmælið segi ég: „ 71. umdæmisþing, umdæmis 1360 á Íslandi sett.“

 


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning