Fréttir

3.7.2016

Nýr umdæmisstjóri tekinn til starfa

Umdæmisstjóraskipti fóru fram á fundi í Rkl. Kópavogs, sem haldinn var föstudaginn 1. júlí, í upphafi nýs starfsárs Rótarý. Guðmundur Jens Þorvarðarson, löggiltur endurskoðandi, Rkl. Kópavogs, tók við embætti umdæmisstjóra en Magnús B. Jónsson, Rkl. Borgarness, lét af störfum. Guðmundur Jens og eiginkona hans Svava Haraldsdóttir  tóku á móti embættistáknum og blómum með árnaðaróskum frá Magnúsi og konu hans  Steinunni S. Ingólfsdóttur. Klúbbfélagar og gestir fögnuðu Guðmundi og Svövu á þessum tímamótum með langvinnu lófataki.

Fundurinn hjá Rkl. Kópavogs var þessu sinni haldinn kl. 18.00 í félagsheimili Siglingaklúbbsins Ýmis við Naustavör á Kársnesi. Þar nutu viðstaddir kvöldsólar og víðsýnis út Skerjafjörðinn og yfir Fossvoginn. Bryndís H.Torfadóttir, forseti Rkl. Kópavogs, setti fund og bauð klúbbfélaga og gesti velkomna. Auk fráfarandi umdæmisstjóra voru verðandi og fyrrverandi umdæmisstjórar viðstaddir ásamt  fleiri trúnaðarmönnum umdæmisins. 

Kvöldverður var borinn fram en síðan tók Magnús B. Jónsson til máls og gerði í stórum dráttum grein fyrir verkefnum sínum og rótarýumdæmisins íslenska á liðnu starfsári.

Mörg og fjölbreytt verkefni

„Hlutverk umdæmisstjórans er að vera í forystu, stýra verkum, taka þátt og síðast  en ekki síst að vera til staðar,“ sagði Magnús. „Vera til staðar fyrir klúbbana og virkja þá til nýrra og öflugri verka, hlúa að hinum veikari, freista þess að efla þá og styrkja. Hvetja hina virkari til að taka enn fastar á og verða enn sýnilegri og virkari, hvort sem er í þeirra nærsamfélagi eða á alþjóðavísu.

Magnús minntist með mikilli ánægju og hlýju heimsókna þeirra Steinunnar til allra rótáryklúbbanna í landinu. Þá rifjaði hann upp helstu viðburði starfstímabils síns, allt frá undirbúningsmót verðandi forseta og ritara í mars 2015 sem var næstum því blásið af í einu mesta ofviðri vetrarins.  Umdæmisþingið í Borgarnesi á sl.hausti var einkar vel heppnað fyrir tilstuðlan félaga Magnúsar í Rkl. Borgarness og ítrekaði hann þakkir til þeirra. Viðleitni klúbbanna og hreyfingarinnar almennt til að vera betur sýnileg gagnvart almenningi endurspeglaðist með miklum ágætum í Rótarýdeginum 27. febrúar sl. Magnús þakkaði samstarfsfólki sínu í umdæmisráði fyrir mikið og gott starf og ennfremur aðstoðarumdæmisstjórunum Esther Guðmundsóttur, Rkl. Miðborg, Eyþóri Elíassyni, Rkl. Héraðsbúa, Knúti Óskarssyni, Rkl. Mosfellssveitar  og síðar Garðari Eiríkssyni, Rkl. Selfoss, sem voru honum til liðsinnis.  Í lok máls síns óskaði Magnús þeim Guðmundi Jens og Svövu alls velfarnaðar með verkefnið, sem þau eru nú að taka að sér. Hann sagði að þeirra biði spennandi og gefandi tími í traustum hópi framsækinna rótarýfélaga.

Umdæmin 550 og 1,2 milljónir félaga

Þegar Magnús hafði formlega lagt forsetakeðju umdæmis á herðar eftirmanns síns, tók Guðmundur Jens til máls og gerði grein fyrir viðhorfum sínum til hins nýja trúnaðarstarfs  og verkefna framundan. Hann vakti athygli á stærð og umsvifum Rótarýhreyfingarinnar á heimsvísu, sem rekin er eins og stórfyrirtæki með 1,2 milljónir meðlima innan sinna vébanda. Hreyfingin veltir tugum milljarða íslenskra króna á hverju ári. Veltan á árinu 2014-2015 var um 350 milljónir Bandaríkjadollara eða vel yfir 44 milljöðrum ísl. króna. Íslenska rótarýumdæmið er eitt af 550 umdæmum í heiminum og eitt af fáum umdæmum í Evrópu sem hefur verið að hækka tölu klúbbfélaga síðustu ár.  Þá fjallaði Guðmundur um starfsemi Rótarýsjóðsins og baráttuna við lömunarveiki  sem talið er að verði útrýmt innan tveggja ár, þ.e.a.s. að þá verði útrýmt smiti í fólki.

 Umdæmisþing í Kópavogi 14. og 15. október

Þá vék Guðmundur Jens að verkefnum innanlands á Íslandi og sagðist taka við góðu búi af Magnúsi sem hefði fengið miklu framgengt. Flestir klúbbarnir standa vel að vígi. Þó eru þar undantekningar sem verið er að taka sérstaklega á og verður því starfi haldið áfram.  Stofnun nýs klúbbs  hefur verið  á döfinni  og verður áfram unnið að henni ef grundvöllur reynist fyrir hendi. Unnið hefur verið að eflingu og breytingum á heimasíðu og er ætlunin að kynna nýja heimasíðu á umdæmisþinginu í haust. Undirbúningur þingsins, sem haldið verður í Kópavogi 14. – 15. október er í fullum gangi. Aðrir fastir liðir á vegum umdæmisins verða á sínum stað svo sem Rótarýtónleikarnir og Rótarýdagurinn.

„Sem betur fer mun ég í starfi mínu hafa með mér aðstoðarumdæmissjóra sem munu sinna samskiptum við klúbba að einhverju leyti. Einnig eru hinar ýmsu nefndir umdæmisins, sem koma til með að auðvelda starf mitt,“ sagði Guðmundur . Hann gat þess að Jón Ögmundsson, klúbbfélagi í RKl. Kópavogs, yrði framkvæmdastjóri næstu stórtónleika Rótarý og  að Sveinn Hjörtur Hjartarson hefði tekið sæti í stjórn tónlistarsjóðs Rótarý. Guðmundur fjallaði einnig um heimsóknir í klúbbanna sem standa munu frá 20. september n.k. fram í nóvember.

Áhersla á að efla áhuga fólks á Rótarý

„Það á alltaf að standa upp úr að félagarnir hafi gaman og ánægju af að vera í Rótarý,“ tók Guðmundur fram sérstaklega. Og hann undirstrikaði nauðsyn þess að hreyfingin og klúbbarnir sem slíkir héldu uppi öflugu kynningarstarfi:

“ Síðustu árin hefur orðið mikil breyting á því hversu sýnileg Rótarýhreyfingin hefur orðið í umhverfinu. Fyrr á tímum var það ekki í anda Rótarý að bera verkefni sín á torg og upplýsa almenning um Rótarý, að Rótarý væri að láta gott af sér leiða. Jafnvel kom það fyrir að verk sem Rótarý vann í samvinnu við aðra samstarfsaðila var alfarið þakkað þeim. Áður fyrr voru klúbbarnir lokaðri en nú í dag. Það stóð ekki öllum til boða að gerast félagar en það hefur sem betur fer breyst.“

Guðmundur Jens bætti því við, að stundum hefði það verið ýmsum ráðgáta hvað Rótary stæði fyrir og hvert væri hlutverk Rótarýhreyfingarinnar.  Síðstliðin tvö ára hefur umdæmið því skipulagt sérstakan kynningardag, Rótarýdaginn, og hefur það hvatt klúbbana til að taka þátt og nota tækifærið til að kynna Rótarý, hvað Rótarý stendur fyrir og hvert sé þjónustuhlutverk hreyfingarinnar. Þannig hefur verið leitast við að auka áhuga fólks á Rótarý. Guðmundur lýsti vilja sínum til að hafa sérstakan Rótarýdag í þeim tilgangi. Hann gat þess að í nýjasta tölublaði af tímaritinu Rotary Norden væri birt viðtal við sig um starfið framundan. Lesa meira í Rotary Norden.

Meiri sveigjanleiki í starfi klúbba

Til upplýsingar benti Guðmundur á, að sú breyting hefur gerð á grundvallarlögum Rótarý að meiri sveigjanleiki getur verið í fjölda fundardaga hjá hverjum klúbbi en verið hefur hingað til og einnig breytilegir fundartímar. Er þetta að hluta til gert til að koma til móts við yngra fólkið sem í mörgum tilfellum hefur annað við tímann að gera en að sinna störfum í Rótarý.

Einkunnarorð núverandi forseta Rotary Internatioal eru: „Rotary serving humanity“ og hefur Guðmundur kosið að íslenska þýðingin verði einföld: „Rótarý þjónar mannkyni“.

Að ræðu sinni lokinni bað Guðmundur Jens tilnefndan umdæmisstjóra 2017-2018 Knút Óskarsson og konu hans Guðnýju Jónsdóttur að stíga fram og taka við embættistáknum fyrir verðandi umdæmisstjóra og eiginkonu hans.                                                         

                                                                 

Ásgeir G. Jóhannesson, félagi í Rkl. Kópavogs og umdæmisstjóri 1995-1996, kvaddi sér hljóðs og færði Guðmundi Jens og Svövu árnaðaróskir. Ásgeir flutti athyglisverða upprifjun um áhersluatriði í einkunnarorðum  alþjóðaforsetans á umdæmisstjóraári sínu. Alþjóðaforsetinn vildi hafa orðið „integrity“, „ráðvendni“  í einkunnarorðunum af því að með breyttum tíðaranda hafði það verið sett til hliðar í mati á verðleikum bandarískra athafnamanna. Þá sagði Ásgeir að lokum skemmtilega sögu af sjálfum sér þegar hann fór í embættiserindum sem umdæmisstjóri á sinn fyrsta fund með rótarýmönnum í Noregi.

Eftir upplýsandi ræður og almennar umræður í spjalli við borðfélaga að loknum dagskráratriðum sagði Bryndís H. Torfadóttir fundinum slitið.

                                                                                                                                                           Texti og myndir MÖAÚtlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning